Hvenær klæddist þú síðast hvítum sokkabuxum? Á fermingardaginn? Ef þú vilt uppfæra stílinn þá sýndi franska tískuhúsið Chanel haute couture-línu sína fyrir vor og sumar í fyrradag en þar koma stelpulegir litir og tjull við sögu.
Fegurðin var allsráðandi þegar Virginie Viard svipti hulunni af vor- og sumarlínu Chanel. Viard er yfirhönnuður tískuhússins og meta sérfræðingar í tískuheiminum þetta þannig að línan hafi verið ekta hún; létt, falleg og stelpuleg en á sama tíma ekta Chanel. Brjóstsykurslituð föt, hvítar sokkabuxur, ballerínulegir háhælaðir skór og tjull framkallaði góðar tilfinningar og örugglega góðar minningar hjá gömlum ballerínum sem svifu um svið leikhúsanna áður en grá fullorðinsár eyðilögðu allt.
Vellíðunarhrollur fór um salinn þegar Margaret Qualley gekk inn í fyrsta alklæðnaði vor- og sumarlínunnar. Hvítur jakki með gulltölum, sem var fullkominn í sniðinu – ekki víður og kauðslegur, fór vel við hvítar sokkabuxur og hálfgegnsætt pils. Til að toppa heildarmyndina var hún með lítinn trúðakraga sem rammaði bringuna inn á sjarmerandi hátt. Tjullkraginn minnti á ungbarnakragana sem amma mín heitin, Marta María Jónasdóttir, saumaði á ungbörnin í fjölskyldunni til að punta mjúk ungbarnaföt og fegra hversdaginn. Hún vissi, líkt og Virginie Viard, að stundum þarf einn lítinn kraga til að breyta heildarmyndinni.
Hvíti liturinn var áberandi í gegnum sýninguna en í gegnum tíðina hefur litapalletta Chanel verið mjög svört og hvít. Nú mátti sjá breiðari litapallettu þar sem bæði var unnið með mjúka og stelpulega liti en líka sterka og kröftuga.
Allt í allt voru 56 dress sýnd á sýningunni. Mikið var lagt í öll smáatriði eins og útsaum og bróderí. Hjá Chanel er þó aldrei farið of langt frá upprunanum því Viard vill náttúrlega ekki að Gabrielle Chanel snúi sér við í gröfinni með furðulegheitum, en hún lést 1971.