Förðunarfræðingurinn og einkaþjálfarinn Guðný Björg Hallgrímsdóttir ákvað að taka u-beygju og skráði sig í förðunarnám árið 2022. Í dag kennir hún förðun hjá Reykjavík Makeup School, er efnishöfundur fyrir miðilinn The Hi Beauty á Instagram þar sem hún býr til förðunarmyndbönd og aðra afþreyingu, og tekur að sér ýmis verkefni innan förðunarbransans.
„Ég var algjör hippi sem unglingur en ég var í dansi í 13 ár svo að ég tengdi förðun meira við sviðslist eða gjörning,“ segir Guðný. Hún steig fyrstu skref sín í förðun þegar hún var 14 ára gömul, en þá segir hún aðalatriðið hafa verið að sparsla yfir bólur með hyljara og setja dökkrauðan, fjólubláan eða brúnan varalit.
„Ég fór svo að mála mig settlega og fyrir alvöru, ef svo má segja, þegar ég var í menntaskóla,“ bætir hún við.
Guðný segist alla tíð hafa verið mjög listræn, en hún var snemma fengin í að farða aðra fyrir sviðsframkomu í dansinum, sem seinna þróaðist í að farða vini og fjölskyldu fyrir ýmis tilefni
„Ég hef alltaf verið mjög listræn og þrífst best í skapandi umhverfi. Árið 2022 tók ég ákvörðun um að geyma háskólanámið sem ég var í og demba mér í staðinn í förðunarfræði eftir að unnusti minn benti mér á að áhuginn lægi greinilega annars staðar en í félagsvísindum, þar sem ég horfði ekki á fyrirlestur heima fyrir án þess að mála mig upp sem alls kyns verur. Einbeitingin var best þegar ég leyfði mér að farða mig og skissa upp næstu farðanir á blað,“ segir hún.
„Ég átti svo erfitt með að trúa því að maður gæti verið í fullu starfi sem förðunarfræðingur og unnið við eitthvað sem er svona skemmtilegt, en eftir að ég útskrifaðist hefur verið nóg að gera og ég gæti ekki ímyndað mér lífið öðruvísi,“ bætir hún við.
Hvernig farðar þú þig dags daglega?
„Yfirleitt jafna ég út húðlitinn og hyl bólur eða ör, skelli á mig krem sólarpúðri, kinnalit, augabrúnageli og maskara. En á góðum skvísudegi á ég það alveg til að skella í skemmtilegan „eyeliner“ eða dramatískar varir.“
En þegar þú ferð eitthvert fínt?
„Úff, það er erfitt að velja eitt þar sem förðunarstílar fyrir mér eru eins og að velja hvaða bol ég ætla að vera í það kvöldið. En mitt öruggasta val er alltaf fersk og falleg húð og „edgy smokey“ augu, „smokey“ augnblýantur eða rauður varalitur.“
Hvað tekur það þig langan tíma að gera þig til?
„Dags daglega tekur það mig sirka hálftíma en ég gæti þess vegna dundað mér allan daginn að gera mig til þegar ég fer fínt, en mér líður best með að fá klukkutíma eða einn og hálfan.“
Hvernig hugsar þú um húðina?
„Ég hef verið að díla við hormónatengdar bólur síðan ég var unglingur og hef því pælt mikið í húðumhirðu, lesið mér til og þróað alls kyns tækni til að hylja síðan ör og bólur með förðun. Ég passa alltaf að neita húðinni ekki um raka svo að hún offramleiði ekki olíu í varnarskyni. Ég nota sólarvörn alla daga og tvíhreinsa húðina á kvöldin, en þá nota ég fyrst farðahreinsi og síðan andlitshreinsi sem hentar minni húðgerð.
Síðan passa ég að hafa húðrútínuna ekki of flókna til að espa húðina ekki upp í frekari bólur. Ég vinn bara með rakakrem, rakaserum og síðan kannski sterkari sýru yfir stutt tímabil á meðan húðin er mjög slæm, en sem dæmi nota ég AHA-, BHA- og salisýlsýrur. Ég hef fundið að mínímalísk húðrútína fer best með mína húð.“
Hvað er helst að finna í snyrtibuddunni þinni?
„Ég fer varla út úr húsi án þess að vera með maskara og eitthvað létt á vörunum.“
Hverjar eru fimm uppáhaldssnyrtivörur þínar?
„Hot Bronzer krem-sólarpúðrið frá Chilli in June hefur ekki farið af mér síðan hann kom út, en liturinn Melty er fullkominn fyrir ljósa húð án þess að gera hana appelsínugula.“
„Limitless-maskarinn frá Ilia er minn „holy grail“ maskari, en hann lengir, þykkir og greiðir úr augnhárunum.“
„Brow Lamination-augabrúnagelið frá Gosh er frábært til að líma augabrúnirnar í það form sem maður vill og ég gæti þess vegna hent mér í heitan leikfimisal og þær haggast ekki.“
„Mothership x Moonlit Seduction-augnskuggapallettan frá Pat McGrath er palletta sem ég nota á mig og nánast alla aðra.“
„Beyond Jelly-varaliturinn frá Nabla er undravara sem ég get ekki verið án. Ég nota litinn Luz, en þetta er vara sem er eins konar blanda af varalit, gloss og varasalva í áferð – svo náttúrulegur og gordjöss!“
Hvað dreymir þig um að eignast í snyrtibudduna?
„Ja hérna – þarf ég að velja bara eitt? Varalitapalletta frá Bobbi Brown er örugglega efst á lista, en síðan koma allar hinar palletturnar frá Pat McGrath.“
Hvernig farðanir finnst þér skemmtilegast að gera á öðrum?
„Mér finnst skemmtilegast að gera editorial- og fashion-förðun en líka brúðkaupsglamúrförðun þar sem ég fæ að gera ljómandi húð með settlegum sanseruðum augnskugga – mínímalískt en frísklegt og ljómandi.“
Hvers konar verkefni finnst þér skemmtilegust?
„Editorial-myndatökur, auglýsingar og kvikmyndabransinn.“
Er eitthvert verkefni sem stendur upp úr?
„Það er erfitt að velja! Í fyrra var ég ráðin í að sminka fyrir bandaríska heimildarmynd, en ástæðan fyrir því að það verkefni stendur svona upp úr er að það var svo magnað að leikstjórinn og fleiri lykilmenn gátu ekki flogið til Íslands, þar sem fluginu þeirra var aflýst og því var okkur öllum stýrt í gegnum FaceTime. Það var magnað hvernig það fór fram og hversu vel það heppnaðist miðað við aðstæður.
Síðan þykir mér afskaplega vænt um tökurnar á vegum ítalska tímaritsins The Webster. Þar var Sunna Björk förðunarfræðingur upphaflega bókuð en komst ekki vegna veikinda og þá fékk ég þann heiður að stökkva inn og farða tvö ítölsk súpermódel í fatnaði frá merkjum á borð við Gucci, Balenciaga, Jacquemus, Moonboot og fleira. Þetta var bara svo krúttlegt, teymið var samansett af fólki frá alls kyns löndum í strumparútu sem ferðaðist um landið með nesti í bakpokum að mynda fyrir stærstu tískumerkin.“
Hvað er fram undan hjá þér?
„Veistu það, ég er svo mikil skellibjalla að ég spyr mig eiginlega sjálfa að þessu. En það er margt spennandi fram undan. Ég get allavega sagt að það verður enn meira af förðunum, ég ætla að halda áfram að vera jámanneskja og hafa gaman af lífinu. Mig dreymir svo um að fara út fyrir landsteinana og læra enn meira förðunartengt og klára hárstílistann.“