Ragnheiður Linnet er ein af þessum konum sem eldast sérlega vel en hún er rúmlega sextug að aldri og mikil smekkkona og fagurkeri sem óhætt er að segja að kunni að njóta lífsins.
Ragnheiður hefur ferðast um víða veröld og sinnt fjölbreyttum störfum í gegnum árin. Hún hefur sungið með kórum í kirkjum í fjölda athafna en hún nam tónlist á Nýja-Englandi, einnig hefur hún kennt söng og unnið sem blaðamaður. Ragnheiður starfaði til fjölda ára við prófarkalestur sem er hennar sérsvið og vinnur um þessar mundir á skrifstofu Alþingis við textavinnu. Hún segist alltaf hafa haft áhuga á fallegum og vönduðum hlutum og lystisemdum lífsins en hún er afbragðskokkur og rómaður sælkeri.
Hvaða menntun ert þú með?
„Ég er með BA-gráðu í almennum málvísindum frá HÍ, meistaragráðu í tónlist frá New England Conservatory of Music og meistaragráðu í blaða- og fréttamennsku frá HÍ.“
Hefurðu alltaf búið á Íslandi?
„Nei, við fjölskyldan bjuggum í sjö ár í Bandaríkjunum, lengst í Boston. Það var mjög gott að búa þar, borgin iðandi af lífi enda bæði falleg og mikil háskólaborg.“
Hvaðan kemur áhuginn á fallegum hlutum og tísku?
„Ég myndi segja frá báðum foreldrum mínum. Þau voru bæði miklir fagurkerar og áttu fallegt og persónulegt heimili alla tíð og ég vil hafa fallegt í kringum mig. Ég er alltaf með afskorin blóm og oftast ilmkerti. Pjattið er frekar úr föðurættinni, ég hleyp ekkert endilega á eftir tísku en góð efni og góð snið skipta mig máli. Ég vil nú meina að þar sé líka á ferðinni fagurkeraháttur.“
Áttu einhverja uppáhaldsflík?
„Eiginlega ekki, þó get ég nefnt mokkaskinnskápu eftir Sunnevu sem ég keypti fyrir mörgum árum, það er hægt að snúa loðna skinninu út og nota hana á tvo vegu. Kápan er sígild og með klassísku sniði. Ég á líka smókingdragt og -blússu sem eru í miklu uppáhaldi en ég hef alltaf verið mjög hrifin af þeim klæðnaði, finnst hann töff.“
Hvað finnst þér ómissandi í vetrarfataskápnum?
„Hlý og góð peysa sem passar við allt, pils og buxur.“
Hvað ertu alltaf með í snyrtibuddunni í veskinu þínu?
„Varalit og smyr honum á mig oft á dag.“
Heldurðu upp á einhvern hönnuð og listamann?
„Já, ég get eiginlega ekki nefnt einhvern einn, held upp á þá nokkra, t.d. hönnuðina Önnu Thorunni og Alvar Aalto og allnokkra myndlistarmenn, þá sem skipuðu Septem-hópinn. Einnig Nínu Tryggva, Eyborgu Guðmundsdóttur, Dieter Roth og Ólöfu Nordal og af yngri kynslóðinni eru það Arna Óttarsdóttir, Áslaug Íris Friðjónsdóttir og Guðmundur Thoroddsen að ógleymdum Ragnari Kjartanssyni sem er náttúrlega snillingur.“
Hvaða hlut myndirðu bjarga úr brennandi húsinu þínu?
„Málverki eftir einn af mínum uppáhaldsmyndlistarmönnum Hafstein Austmann og svo myndi ég líka kippa með mynd sem er við hliðina á því, málverki sem er málað á tré, mjög fallegu og sérstöku eftir Sigríði Björnsdóttur.“
Hvaða bók ertu með á náttborðinu?
„Ég er alltaf með stafla af bókum á náttborðinu og les ekkert endilega eina bók til enda áður en ég byrja á næstu. Núna er ég að lesa DJ Bamba eftir Auði Övu, mjög góð bók, en efst í staflanum mínum er bók Kristínar Ómarsdóttur, Móðurást: Oddný, sem ég hlakka mikið til að lesa.“
Hver er uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Gott kaffi, með þeyttum rjóma, kaffirjóma eða flóaðri mjólk, ég segi stundum að það eina sem ég sé matvönd á sé kaffi. Mamma setti á góðri stund þeyttan rjóma út í kaffið og ég smakkaði slíkt kaffi seinna á frægu kaffihúsi í Búenos Aíres í Argentínu og féll þá gjörsamlega fyrir því. Þegar kemur að áfengum drykk er það kalt og vel freyðandi kampavín.“
Hvernig finnst þér tískan hafa breyst í gegnum árin?
„Tískan fer í hringi en það er samt alltaf eitthvert nýtt „touch“ þegar hún snýr aftur. Mér finnst gaman að sjá fólk blanda grófu við fínt, eins og gallabuxum við silkiblússu eða grófri ullarpeysu við silkipils og svo blandar fólk alls konar litum saman nú sem ekki var áður. Það er allt leyfilegt í dag, fólk finnur sinn stíl og það er alltaf flottast.“
Hvernig klæðirðu þig á ferðalögum?
„Gallabuxur, blússa, golftreyja og þægilegir skór eru ferðafötin mín. Svo er ég alltaf með ponsjó í töskunni til að skella yfir mig í flugvélinni og í ferðinni.“
Hver er þín uppáhaldsmatargerð?
„Ég held að ég verði að segja ítölsk en frönsk er líka góð og svo er gaman að borða kreólskan mat. Þar er matur kryddaður með öðrum hætti en við eigum að venjast. Japanskur matur er líka mjög góður og ég er mjög hrifin af fusion-matargerð og íslensku hráefni sem margir okkar kokkar kunna að fara mjög vel með og nota á skemmtilegan hátt. En heima er það ítalskur og franskur matur sem er í uppáhaldi og ég elda oftast.“