Anna Lísa Hallsdóttir er með skemmtilegan og flottan fatastíl sem grípur augað. Á undanförnum árum hefur hún tamið sér að kaupa frekar færri flíkur í meiri gæðum, en þær áherslur segist hún hafa fengið frá sinni helstu tískufyrirmynd, ömmu sinni Önnu Sigríði Garðarsdóttur.
Anna Lísa er tvítug og segist alla tíð hafa haft mikinn áhuga bæði á tísku og listum. Hún stundar nám í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands og starfar samhliða náminu í fataversluninni Spúútnik. „Ég er mjög þakklát fyrir að fá að vinna í mínum áhugamálum bæði í skólanum og vinnunni,“ segir Anna Lísa.
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tísku en áhuginn hefur klárlega aukist eftir að ég byrjaði að vinna í Spúútnik fyrir sirka þremur árum. Þar er maður umkringdur frábæru samstarfsfólki og fær innblástur á nánast hverri vakt,“ bætir hún við.
Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?
„Stíllinn minn hefur breyst mikið í gegnum tíðina og er ennþá mjög fjölbreyttur. Núna vanda ég valið miklu meira og hugsa lengi hvað mig langar í áður en ég fjárfesti í flíkunum, meira en ég gerði áður. Einnig nota ég sömu flíkurnar aftur og aftur, og finnst frábært að geta leikið mér með fjölbreytileika hverrar flíkur.“
Hvernig klæðir þú þig dagsdaglega?
„Það er mismunandi eftir dögum. Einn daginn mæti ég í kjól og kúrekastígvélum en annan daginn eru það stórar gallabuxur og pels. Það fer eftir hvernig stuði ég er í og það er alveg hægt að greina hvernig skapi ég er í þann daginn út frá klæðnaði mínum.“
En þegar þú ferð eitthvað fínt?
„Oftast reyni ég að nota sömu flíkur fyrir fína viðburði. Áður var ég oftar að kaupa eitthvað nýtt fyrir hvern viðburð en er alveg hætt því núna. Annars er ég með eina reglu þegar ég fer eitthvað fínna og það er að vera alltaf í hælum. Ég elska hæla, þeir gera gott „outfit“ enn betra.“
Hvert sækir þú tískuinnblástur?
„Það er sambland margra þátta. Ég er í grafískri hönnun sem hefur kennt mér að sækja innblástur annars staðar frá en bara úr tískuheiminum. Umhverfið hefur mikil áhrif á mig, sama hvort það er fólk, menning eða náttúra.
Annars er amma mín, Anna Sigríður Garðarsdóttir, ein helsta tískufyrirmyndin mín. Hennar stíll byggist á því að kaupa minna og í meiri gæðum, og að kanna sögu fatanna áður en hún velur. Hún er fín í hvert einasta skipti sem ég sé hana og spáir mikið í flíkurnar sínar. Uppáhaldsgallabuxurnar mínar eru einmitt af ömmu frá áttunda áratugnum, en þær voru sérsaumaðar á hana og ég er svo heppin að passa í þær núna og nota þær mikið.“
Áttu þér uppáhaldsflík?
„Ég á margar flíkur sem eru mér mjög dýrmætar og því erfitt að velja. En ein sú eftirminnilegasta er kjóll sem Rubina Singh sérsaumaði á mig. Hann er tímalaus og í klassísku sniði – ég hef því getað notað hann við mörg mismunandi tilefni.“
En uppáhaldsskó og -fylgihlut?
„Uppáhaldsskórnir mínir eru Kalda hælarnir mínir. Þeir eru gerðir úr gallaefni og þykir mér einstaklega vænt um þá þar sem það var bara gert eitt eintak.
Uppáhaldsfylgihluturinn er hálsmen frá Givenchy sem amma mín átti og gaf mér. Það gerir „outfittið“ alltaf fínna og þykir mér ótrúlega vænt um það. Að mínu mati er ilmvatn líka einn mikilvægasti fylgihluturinn og því er Replica-ilmvatnið í miklu eftirlæti hjá mér.“
Hvað er á óskalistanum hjá þér?
„Falabella-taskan frá Stellu McCartney hefur alltaf verið efst á óskalistanum mínum! Dreymir um að eignast hana einn daginn. Svo finnst mér nýja línan hjá Paloma Wool mjög flott og mig langar sérstaklega í Etna-bolinn. Góð leðurkápa er einnig á óskalistanum.“
Áttu þér uppáhaldsmerki? Hvar verslar þú oftast?
„Mér finnst skemmtilegast að styðja við íslenskar búðir og hönnuði. Það er mikið á óskalistanum frá Aftur og Kalda. Spúútnik er að sjálfsögðu í uppáhaldi og er hálfur fataskápurinn minn þaðan. Nýlega hefur Paloma Wool vakið mikinn áhuga hjá mér, svo er Skims í miklu eftirlæti þar sem þau eru með tímalausar, klassískar og kósí vörur.“
Hvernig málar þú þig dagsdaglega?
„Ég er með sömu rútínu á nánast hverjum degi. Mér finnst frábært að vakna á morgnana og dunda mér að mála mig, smá svona „me time“ áður en dagurinn byrjar. Rútínan er stutt og góð, en ég nota hyljara, sólarpúður, kinnalit og maskara dagsdaglega.“
En þegar þú ferð eitthvað fínt?
„Rútínan er frekar svipuð en þegar ég fer eitthvað fínt þá gef ég mér meiri tíma og bæti við Flawless Filter-ljómagrunninum frá Charlotte Tilbury. Svo set ég alltaf eyeliner og stundum rauðan varalit ef ég er í stuði!“
Áttu þér uppáhaldssnyrtivörur?
„Bang-maskarinn frá Benefit er klárlega í uppáhaldi hjá mér, en það er alltaf eins og maður hafi bætt við gerviaugnhárum eftir að hafa sett hann á sig. Svo er það Flawless Filter-ljómagrunnurinn frá Charlotte Tilbury og Superliner-eyelinerinn frá L'Oréal.“
Hvað er á óskalistanum í snyrtibudduna?
„Mig hefur alltaf langað til að prófa Paula’s Choice BHA exfoliator, en ég hef heyrt góða hluti um hann og langar til að bæta húðrútínuna mína. Svo vantar mig nýtt púður og Instant Retouch Powder frá Fenty Beauty er langbest.“