Lét drauminn rætast þegar hún stóð á tímamótum

Aðalbjörg Reynis Eðvarðsdóttir er að sigla inn í sína fyrstu …
Aðalbjörg Reynis Eðvarðsdóttir er að sigla inn í sína fyrstu fermingarvertíð. Hún var að gera fermingargreiðslu þegar ljósmyndara bar að garði. mbl.is/Árni Sæberg

Aðalbjörg Reynis Eðvarðsdóttir, flugfreyja hjá Icelandair og hársnyrtir á Wave Hair salon, er spennt fyrir komandi fermingarvertíð. Hún hefur í nógu að snúast að greiða fermingarbörnum sem hún segir að séu með ákveðnar skoðanir. Í ár fermist einnig sonur Aðalbjargar en fjölskyldan byrjaði að leggja drög að veislunni fyrir áramót.

Aðalbjörg starfar bæði sem flugfreyja og sem hársnyrtir en hún lét gamlan draum rætast í kórónuveirufaraldrinum og hóf nám Tækniskólanum í hársnyrtiiðn. „Áður en ég byrjaði að starfa sem flugfreyja vann ég sem stílisti og blaðamaður hjá útgáfufélaginu Birtingi. Ég hef alltaf verið viðloðandi tísku og haft mikinn áhuga henni. Ég ég rak líka fatabúð í gamla daga sem hét Noi. Ég hef því bæði haft áhuga á fötum og hári. Ég hafði lengi hugsað það að læra hárgreiðslu en aldrei látið verða að því. Þegar kórónuveirufaraldurinn kom skellti ég mér í skóla,“ segir Aðalbjörg sem er svo lukkuleg að starfa í tveimur greinum sem henni finnst jafnskemmtilegar.

Náttúrulegt útlit hjá fermingarstelpum

Í hársnyrtináminu er farið vel yfir hárgreiðslur, bæði hvað varðar listgreinina sjálfa en líka hártískuna fyrr og nú. Aðalbjörg segir lykilatriði að undirbúa hárið vel og nota góð efni í hárið þegar það er þvegið og blásið. Undirbúningurinn skilar sér svo þegar hárið er til dæmis slétt eða krullað, þannig helst hárgreiðslan vel í hárinu.

Hvað er í tísku núna?

„Síðastliðin fimm ár hefur verið óbreytt hártíska. Það er miklu minna um greiðslur í dag en var hér áður fyrr. Þá voru meiri greiðslur og hárið oft sett upp. Í dag eru greiðslurnar hjá stelpum ofsalega náttúrulegar. Eins og við vitum þá fer tískan í hringi en ég myndi segja að hún hafi verið eins síðastliðin ár. Það er mjög mikið verið að að gera náttúrulegar krullur í hárið svo er oft sett flétta í hring ofarlega á hárinu með,“ segir Aðalbjörg sem segir skemmtilegt að leika sér með mismunandi tegundir af bylgju- og krullujárnum og mismunandi fléttum til dæmis fiskifléttum. Þá setja fallegar spennur eða blóm oft punktinn yfir i-ið.

Aðalbjörg segir gott að fara í prufugreiðslu. Þá gefst tími til að tala um hárgreiðsluna og fermingarfötin.

„Með því að sjá fötin fær maður innblástur líka. Þessi kjóll passar vel við svona fléttu. Það er gott fyrir mig en líka fyrir fermingarbarnið sjálft. Svo má ekki gleyma að krakkar í dag eru með margar hugmyndir út af samfélagsmiðlum. Auðvitað get ég komið með einhverja hugmynd en þau sjá oft eitthvað á Pinterest eða á Instagram. Þau vita alveg hvað þau vilja.“

Í þessari fermingarhárgreiðslu tók Aðalbjörg hárið upp að hluta með …
Í þessari fermingarhárgreiðslu tók Aðalbjörg hárið upp að hluta með fallegri fléttu sem kallast „waterfall“. Hún notaði svo keilujárn til þess að gera náttúrulega liði í hárið. mbl.is/Árni Sæberg

Eru stelpur enn að safna hári fyrir fermingu?

„Já, mér finnst það. Auðvitað eru líka stelpur með fallegt stutt hár. Þá er oft sett blómaspöng eða spennur í hárið.“

Hvenær byrja krakkar að lita hárið?

„Sumir vilja ekki lita hárið fyrr en eftir fermingu. En aðrir, strákar eða stelpur, vilja fá strípur. Þá myndi ég segja að það væru nokkrar strípur. Við erum ekki að tala um neitt svakalega mikið. Bara til að fá ferskleika í hárið. Það er sama í strípum í dag, það vilja allir fá þetta náttúrulega útlit.“

Hvernig er hártískan hjá strákunum?

„Það er mikil strákatíska sem er mikil breyting frá því sem var. Nú eru þeir komnir með sterkar skoðanir á því hvernig hárið á að vera. „Fade“-hárgreiðsla er í tísku hjá strákum,“ segir Aðalbjörg. Hún segir strákarnir einnig fá hugmyndir sínar frá þekktum knattspyrnumönnum.

Hvernig hárgreiðslu varst þú með þegar þú fermdist?

„Ég gleymi því aldrei. Það er mikil breyting frá því ég fermdist. Þá var allt túberað og mikið hársprey. Hárið hefði haldist alveg eins í viku það var svo mikið sprey. Það er mikil breyting frá þessu náttúrulega útliti sem er í tísku núna. Ég var með stutt hár í fermingunni minni. Það var mikið um stuttar klippingar. Túberað, stutt hár og blóm. Fermingarmyndin er ekki oft dregin fram,“ segir Aðalbjörg og hlær.

Falleg blóm eins og brúðarslör lífga upp á heildarútlitið á …
Falleg blóm eins og brúðarslör lífga upp á heildarútlitið á fermingardaginn. mbl.is/Árni Sæberg

Byrjuðu að skipuleggja ferminguna snemma

Einkasonurinn Kolbeinn fermist í ár og er mikil tilhlökkun fyrir deginum. „Undirbúningurinn gengur mjög vel. Það var búið að segja manni að vera mjög tímanlegur í einu og öllu. Bæði hvað varðar sal og veitingar. Ég byrjaði að huga að þessu vel fyrir jól. Eina sem þarf að græja eru fötin og mamma græjar hárið.“

Hvernig er að fylgjast með barninu fara í gegnum þennan vetur?

„Þetta eru mikil tímamót fyrir foreldra og barn að fara í gegnum ferminguna. Það er búið að vera mjög skemmtilegt að fylgja honum eftir í þessu. Fermingarfræðslan fer skemmtilega fram og foreldrarnir fá að taka þátt sem er breyting frá því að ég fermdist. Mér finnst það áhugavert og skemmtilegt.“

Aðalbjörg segir gaman að sjá hvað margt er í boði þegar kemur að veisluhöldum. Þau ætla hins vegar að fara einfalda leið þegar kemur að veislunni.

„Ég ætla að fara látlausa leið. Við leigðum lítinn, fallegan sal á Seltjarnanesi þar sem við búum og ætlum að vera með þessa klassíska kransaköku sem fermingaköku og snittur frá hverfisveitingarstaðnum Ráðagerði. Bara léttar veitingar,“ segir Aðalbjörg sem er laus við allt stress sem fylgir því stundum að halda fermingarveislur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda