Flóki og Martin setja orku í flíkurnar

Flóki Floriansson Zink og Martin Halldórsson hanna flíkur og selja.
Flóki Floriansson Zink og Martin Halldórsson hanna flíkur og selja. mbl.is/Kristinn Magnússon

Flóki Floriansson Zink og Martin Halldórsson reka saman hönnunarmerkið [Capti]. Félagarnir eru báðir á lokaári í Verzlunarskóla Íslands og kynntust í gegnum sameiginlegan áhuga á hönnun og tísku.

„Við vorum báðir að leika okkur að hönnun hvor í sínu lagi. Ég var að vinna en við ákváðum að fara að vinna saman þegar við fundum að áherslurnar voru svipaðar,“ segir Martin.

Einu sinni voru stelpur aðallega að sauma. Hefur það breyst?

„Maður tekur alveg eftir því að það eru fleiri stelpur að dunda sér við þetta en við fáum ótrúlega góðar móttökur og fólk hefur gaman af því sem við gerum,“ segir Flóki.

„Það eru alltaf fleiri og fleiri strákar sem eru að sauma, nýlega hafa sprottið upp allskonar hópar af strákum sem bæði eru að hanna föt og breyta þeim,“ segir Martin.

Félagarnir eru fjölhæfir og hafa einnig hannað skart.
Félagarnir eru fjölhæfir og hafa einnig hannað skart. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mála flíkurnar

Fatnaðinn má nú fara að sjá á götum bæjarins, en stíllinn er áberandi og auðþekkjanlegur.

„Lúkkið sem við erum að vinna með kom til fyrir algjöra slysni. Ég fór og keypti mér notaðan jakka á nytjamarkaði og ætlaði að stytta hann. Saumurinn misheppnaðist eitthvað og var að trufla mig. Þannig að ég fór og málaði hann með heimabruggaðri aðferð og útkoman var skemmtilegt munstur. Ég mætti í jakkanum í skólann daginn eftir þar sem Martin sá hann. Okkur leist vel á hönnunina og fórum að pæla í möguleikum hennar og þróa hana áfram. Þá kom upp hugmyndin að framleiða allskonar flíkur í þessum stíl, allar með sín sérstöku einkenni. Okkur finnst þetta skemmtileg byrjun á hönnunarferlinum okkar og til að gera eitthvað nýtt,“ segir Flóki.

„Þegar maður gerir þetta í höndunum og með málningu þá verður hver flík sérstök og persónuleg. Okkar hugsun er að setja orku í flíkina. Þú getur það ekki nema með því að búa eitthvað til í höndunum með lifandi hreyfingu,“ segir Martin.

Strákarnir nota málningu í flíkurnar.
Strákarnir nota málningu í flíkurnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Félagarnir voru með pop up-markað í janúar þar sem þeir voru með um 50 flíkur til sölu en þeir taka einnig við sérpöntunum. Enn sem komið er er hönnunin áhugamál.

„Við erum báðir mjög skapandi og listrænar týpur. Við fáum því útrás fyrir þennan áhuga í gegnum þetta samstarf og því er þetta ekki vinna heldur líka áhugamál. En við sjáum fyrir okkur að við gætum þróað þetta yfir í framtíðarferil,“ segir Flóki. Þeir hafa báðir áhuga á að láta reyna á þetta á næsta ári en líka bæta við sig menntun í hönnun.

Töff.
Töff. mbl.is/Kristinn Magnússon
Merkið heitir Capti og stefna strákarnir langt.
Merkið heitir Capti og stefna strákarnir langt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hver flík er einstök

Félagarnir nota gamlar flíkur sem þeir gefa innblástur úr náttúru Íslands. Auk þess að hanna föt hafa þeir gert skartgripi og sérhannað rakvél fyrir rakara. Þeir hafa áhuga á að færa enn frekar út kvíarnar í alhliða lista- og hönnunarfyrirtæki. Á pop up-markaðnum í janúar stóðu þeir fyrir einskonar innsetningu. Þeir sækja frekar innblástur í listamenn en fatahönnuði eða tískugúrú. „Ég horfi til Damien Hirst. Hann hefur haft mikil áhrif á mig,“ segir Martin þegar hann er spurður út í hvert hann sækir innblástur.

Með hönnun sinni vilja þeir berjast gegn einsleitum tískuheimi Íslendinga þar sem margir klæðast eins flíkum. „Við erum að spila með að hver flík sé einstök og með vistvænan boðskap,“ segir Flóki.

Spurðir um íslenska hönnuði eru þeir sammála um að fatamerkið Aftur sé að gera góða hluti en merkið vinnur flíkur úr gömlum efnum.

Er einhver borg sem heillar ykkur þegar kemur að tísku?

„Ég held að Berlín væri toppurinn. Fólk er svo óhrætt að vera það sjálft. Það er ekkert upptekið af því hvað hinir eru að spá. Það tengist líka mikið næturlífinu þar og andrúmsloftinu,“ segir Flóki.

Martin er sammála en nefnir einnig skemmtilega menningu í Kaupmannahöfn og London.

„Maður sér mikinn mun á tískunni á Íslandi og í mörgum öðrum Evrópulöndum. Íslendingar eru að mínu mati íhaldssamari og varkárari í fatavali. Kannski er ástæðan líka sú að það er minna úrval af tískufatnaði hérlendis. Tískan verður því einsleitari og fáir sem standa út úr. Mér finnst maður sjá meiri frumleika og hugrekki erlendis þegar kemur að fatavali,“ segir Martin sem fór nýlega á tískuvikuna í Kaupmannahöfn, sem var áhugaverð upplifun.

Flóki og Martin segja marga á Íslandi klæða sig eins.
Flóki og Martin segja marga á Íslandi klæða sig eins. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda