„Kim Kardashian er ömurlegasta fyrirmynd kvenna“

Í ár mætti Kim Kardashian á Met Gala-hátíðina í kjól …
Í ár mætti Kim Kardashian á Met Gala-hátíðina í kjól eftir hönnuðinn John Galliano. AFP

Fyrr í vikunni mættu skærustu stjörnur heims á hina árlegu Met Gala-hátíð í New York-borg, en hátíðin þykir með stærstu tískuviðburðum heims. Raunveruleikastjarnan Kim Kardashian hefur sætt mikla gagnrýni eftir að hún mætti í níðþröngum kjól sem þrengdu svo að mittinu að hún virtist eiga erfitt með að ná andanum. 

Kardashian vakti einnig mikla reiði á síðasta ári þegar hún mætti á hátíðina í kjól sem var áður í eigu leikkonunnar Marilyn Manroe, en til þess að komast í kjólinn missti hún átta kíló á aðeins þremur vikum. 

Með marbletti á rifbeinunum eftir kjólinn

Sálfræðingurinn og einkaþjálfarinn Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga Nagli, birti pistil á Facebook-síðu sinni sem hefur vakið þó nokkra athygli.

„Kim Kardashian er ömurlegasta fyrirmynd kvenna að mati Naglans. Velkomið að telja mér hughvarf. Fyrir Met Gala ballið árið 2022 neitaði hún sér um grunnþörf mannsins í fóðri til að smokra sér í kjól af Marilyn Monroe.

Í ár gekk hún þó skrefinu lengra með að neita sér um enn mikilvægari grunnþörf sem er súrefni til að smokra sér í korsilettu. Af myndum að dæma virðast innyflin vera í kremju, rifbeinin í mauki og öndun virðist ekki vera í boði því lungun eru vakúmpökkuð með ekkert pláss til að þenjast um millimeter. Kim þurfti tvo aðstoðarmenn til að skakklappast upp tröppurnar til að komast inn á ballið og myndbönd bakvið tjöldin sýna marbletti á rifbeinunum. Með herkjum gat hún rétt kreist fram brosviprur því þjáningin úsaði af andlitinu.

Þessi kona er með 363 miljón fylgjendur á Instagram og líklega valdamesti áhrifavaldur fyrir konur á öllum aldri. Við sem erum eldri en tvævetur getum flest séð í gegnum þetta endemis rugl og afskrifað sem fullkominn galskap.

En yngri kynslóðin með sinn óþroskaða framheila fá skilaboð um að þú átt ekki að njóta þín á balli með að klæðast þægilegum fatnaði. Þú átt heldur ekki að fara vel nærð á ball til að hafa orku í dans og gleði. Þú átt að svelta og þjást og varla geta hreyft þig um millimeter nema með aðstoð. Varla geta gubbað upp einu orði því þú nærð ekki andanum. Þú getur ekki komið niður matarbita á ballinu því maginn er reyrður í drasl. Gleymdu því að brosa... hvað þá hlæja. Og klæðast fatnaði frá Viktoríutímanum sem táknaði kúgun feðraveldis sem vildi móta kvenlíkamann í líkamlega vonlaust form.

En árið 2024 vill Kim endurvekja óraunhæfar, óheilbrigðar hugmyndir um líkamlegt útlit kvenna sem hreinlega eru hættulegar heilsunni. Að klæðast korsilettu olli yfirliðum, rýrnun bakvöðva, afmyndun á hryggjarsúlu, fæðingargalla barna og meltingartruflunum. En það vill svo til að Kim selur einmitt níðþrönga húðlitaða sundboli innanundir fatnað til að stramma allt upp. Kim sendir skilaboð um að líkaminn þinn sé skrautmunur eins og Omaggio vasi eða Iittala kertastjakar. Þú átt bara að standa grafkyrr og láta horfa á þig. Það sé þitt framlag til heimsins.

Bölsóti lokið..... sit hér í þægilegum joggingbuxum, víðum stuttermabol og Sloggi brjóstatopp að pikka á lyklaborðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda