Ekkert bindi, ekkert stress

Brúnir litir virðast vera í miklu uppáhaldi hjá Jóni Gnarr, …
Brúnir litir virðast vera í miklu uppáhaldi hjá Jóni Gnarr, að minnsta kosti hvað jakkafötin varðar. Samsett mynd

Jón Gnarr forsetaframbjóðandi skartar gjarnan íslenskri hönnun, t.d. ljósbrúnu jakkafatasetti frá Kormáki og Skildi. Aftur á móti klæðist hann sjaldan bindi.

Það kennir kannski ekki margra grasa í jakkafatatísku karlkyns forsetaframbjóðendanna. Herrarnir virðast flestir klæðast sömu dökku slim-fit kambgarns jakkafötunum. Kannski vilja þeir líta út á eins og Guðni Th. Jóhannesson forseti.

Þeir eiga fyrir vikið lítið roð í tískudrottningu eins og Ásdísi Rán, að minnsta kosti ekki hvað stílinn varðar. Nema kannski Jón Gnarr, sem hristir upp í leiknum.

Forsetaframbjóðendur í kappræðum á Rúv
Forsetaframbjóðendur í kappræðum á Rúv mbl.is/Arnþór

Tímalaus töffaraskapur

Þegar Jón tilkynnti framboð var hann búinn ljósbrúnu jakkafatasetti frá Kormáki og Skildi. Jakkafötin eru létt og sumarleg, og klæða frambjóðandann vel.

Svipuð jakkaföt má einmitt finna í nýrri sumarlínu Kormáks og Skjaldar.

Jón Gnarr situr fyrir svörum í Spursmálum næstkomandi föstudag.
Jón Gnarr situr fyrir svörum í Spursmálum næstkomandi föstudag. Skjáskot

Brúnir litir virðast vera í miklu uppáhaldi hjá forsetaframbjóðandanum. Jón hefur nefnilega einnig sést í brúnum tvíd-jakkafötum frá þýska herrafatamerkinu Pike Brothers, sem nú er orðið erfiðara að rekast á hér á landi.

Fatamerkið var á árum áður selt í versluninni Kickstart á Vesturgötu í Reykjavík sem lokaði dyrum sínum 2015. Verslunin bar slagorðið „Tímalaus töffaraskapur“ sem lýsir svo sem einnig fatastíl Jóns nokkuð vel. 

Jón Gnarr forsetaframbjóðandi fyrir kappræðurnar síðasta föstudag.
Jón Gnarr forsetaframbjóðandi fyrir kappræðurnar síðasta föstudag. mbl.is/Arnþór

Sleppir bindinu

En jafnvel í fínum jakkafötum sleppir Jón slifsinu, skilur frekar efsta hnappinn eftir óhnepptan – jafnvel efstu tvo – og þannig má endrum og sinnum sjá glitta í hálsmen undir skyrtunni.

En hvers vegna klæðist Jón aldrei bindi? Jón er þjóðinni kunnugur sem ákveðinn sprelligosi, eins og Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur orðaði það í Dagmálaviðtali, en hefur í raun ekki leyft sprelligosanum að skína í kosningabaráttunni, enda vill hann vera álitinn sem alvarlegur kostur í embættið.

Hér er Jón klæddur jakkafötum frá spænska merkinu Aragaza, beint …
Hér er Jón klæddur jakkafötum frá spænska merkinu Aragaza, beint frá Barcelona. mbl.is/Arnþór Birkisson

Passar bindisleysið þá ekki einmitt við þá ímynd sem Jón Gnarr vill skapa? Jakkafötin segja að honum sé alvara um forsetaframboðið en bindisleysið segir að hann sé afslappaður, ekkert of stífur.

Eða kannski hefur hann einfaldlega gleymt hvernig á að binda bindishnút, eins og margir ættu kannast við.

Miðaldra menn hættir að klæðast bindum

Það heyrir enn til undantekninga að Guðni Th. sé gómaður bindislaus en mögulega mætir Jón með nýja tískubylgju á Bessastaði, verði hann kjörinn.

Miðaldra karlmenn eru margir löngu farnir að sætta sig við bindisleysið. Spara slifsin frekar fyrir tilefni.

Stjórnmálamenn, þeir sem klæðast jakkafötum, leyfa stundum bindunum að fjúka.
Stjórnmálamenn, þeir sem klæðast jakkafötum, leyfa stundum bindunum að fjúka. Samsett mynd

Þá eru heldur engin stórtíðindi að forsetar klæðist jakkafötum án bindis. Í síðasta mánuði vakti það athygli þegar þrír forsetar Bandaríkjanna, tveir fyrrverandi og einn núverandi, náðust á sömu mynd – allir bindislausir.

Þrír forsetar, núll bindi. Barack Obama fyrrverandi Bandaríkjaforseti, Joe Biden …
Þrír forsetar, núll bindi. Barack Obama fyrrverandi Bandaríkjaforseti, Joe Biden Bandaríkjaforseti og Bill Clinton fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP

Örlög vasaklútsins

Er bindið dottið úr tísku? „Ekkert bindi“ virðist nefnilega orðið nýja bindið og slifsið mætir því sömu örlögum og vasaklúturinn. Ætli sjálfur jakkinn verði næstur? Kannski buxurnar?

Það er samt ekki hjá því litið að í bindinu felst einhver kraftur, eins og mátti sjá á blaðamannafundi í apríl þegar Bjarni Benediktsson tilkynnti sig forsætisráðherra. Þar voru forystumenn ríkisstjórnarinnar allir með bindi um hálsinn, smá í stíl við andarungana Ripp, Rapp og Rupp.

Ripp, Rapp og Rupp?
Ripp, Rapp og Rupp? mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda