Sjálfbærni er í tísku og það hefur ekki farið fram hjá ofurfyrirsætunni Naomi Campbell. Fyrirsætan vakti mikla athygli á kvikmyndahátíðinni í Cannes í vikunni í kjól sem hún klæddist fyrst árið 1996.
Kjóllinn er frá franska hátískumerkinu Chanel en það var tískugoðsögnin Karl Lagerfeld sem var listrænn stjórnandi Chanel þegar kjóllinn var hannaður. Það var Campbell sjálf sem sýndi kjólinn á tískupallinum árið 1996.
Þó kjóllinn sé að nálgast þrítugsaldurinn mætti halda að Campbell hefði fengið hann beint af tískupallinum á dögunum, svo vel á hann við í dag. Ástæðan er sú að tíska tíunda áratugarins hefur svifið yfir vötnum undanfarin ár. Örlitlar breytingar voru gerðar á kjólnum en Campbell og stílisti hennar Law Roach ákváðu að sleppa síða undirkjólnum. Í dag þykir ekkert mál að klæðast efnislitlum nærpjötlum undir hálfgegnsæjum kjól.
Naomi Campbell var ekki sú eina sem klæddist Chanel í Cannes í vikunni. Íslenska leikkonan Elín Hall gerði það einnig.
Um leið og Campbell klæddist kjólnum í Cannes birti hún gamlar myndir af sér í kjólnum eins og sjá má á Instagram-síðu hennar hér að neðan.