Að undanförnu höfum við fengið að sjá fleiri bikinímyndir og færri skíðamyndir á samfélagsmiðlum og það þýðir aðeins eitt – það er komið sumar og tími til að draga fram uppáhaldssundfötin!
Í ár er sundfatatískan bæði fjölbreytt og skemmtileg og því ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þeir sem aðhyllast minimalískan lífsstíl munu ekki eiga í neinum vandræðum með að finna sér falleg sundföt, og ekki heldur þeir sem elska litríkar flíkur og mynstur.
Smartland tók saman það allra heitasta í sundfatatískunni í ár, en tískusérfræðingar eru sammála um að það séu fimm trend sem verði sérlega áberandi í sumar.
Minimalísk sundföt með stílhreinum línum og 90's yfirbragði eru áberandi um þessar mundir, en hvíti og svarti liturinn eru þar allsráðandi bæði í sundbolum og bikiníum.
Að undanförnu hafa skemmtileg smáatriði sem gleðja augað verið allsráðandi í tískuheiminum, allt frá slaufum yfir í steina og pallíettur. Sundföt eru ekki undanskilin því trendi og því megum við búast við því að sjá óvænt smáatriði í sundfatatísku sumarsins.
Í dag er hægt að fá sundföt með ýmiskonar áferð á, en það er akkúrat það sem setur oft punktinn yfir i-ið. Hekluð sundföt eru að koma sterk inn í sumartískuna í ár, en svo verður rykkt áferð einnig áberandi í sundfatnaði.
Mynstrin hafa verið með ótrúlega endurkomu í tískuheiminn á undanförnum mánuðum og þá sérstaklega dýramynstur eins og hlébarða- og blettatígurmynstur. Þá hafa blómamynstur einnig heillað ófáa og því ekki ólíklegt að mynstruð bikiní verði með því vinsælasta í sumar.
Úrvalið af sundfötum í mismunandi sniðum hefur sjaldan verið meira, en í ár virðast ákveðin snið vera meira áberandi en önnur. Þar má nefna túbusundboli og -bíkiní með engum böndum yfir axlirnar, sundföt með bandi yfir aðra öxlina og sundföt með ermar sem ná niður á upphandleggina.
Öll þessi snið eiga það sameiginlegt að leyfa öxlunum og bringunni að njóta sín!