Húðflúrlistamaðurinn og verslunareigandin Benedikt Andrason hefur haft áhuga á tísku frá unga aldri, en hann er lítið fyrir að fylgja nýjustu tískustraumum og elskar að kaupa vönduð notuð föt sem hafa sál.
Benedikt rekur verslunina Nebraska sem er fataverslun, veitingastaður og vínbar, en samhliða því starfar hann sem húðflúrlistamaður og er sjálfur með þó nokkur húðflúr – svo mörg að hann hefur misst töluna á þeim.
Hefur þú alltaf haft áhuga á tísku?
„Já, frá því að ég man eftir mér hef ég fylgst með hvernig fólk klæðir sig. Mér finnst yfirhöfuð „trend“ ekki beint spennandi heldur frekar persónuleg tjáning í gegnum klæðaburð.“
Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?
„Ég klæðist fötum með mismunandi áferð; litum og „washing“-áferð frekar en áberandi merkjavöru. Ég elska að skoða nytjamarkaði og kaupi mikið notuð föt – ekki endilega í sparnaðarskyni heldur vegna þess að mér finnst notuð föt hafa sál. Ég leita eftir gæðum og notagildi, ég skoða efnisinnihald og efnasamsetningar, hvar flíkin er framleidd og hvaða skilaboðum vörumerkið er að koma á framfæri.
Bakgrunnurinn minn liggur helst í brettamenningu og rapptónlist sem hefur haft mikil áhrif á stílinn minn í gegnum tíðina. Ég sæki stundum innblástur í Mickey Rourke, ég fíla hvað hann er kaótískur og sjálfsöruggur, það besta kemur oft úr ringulreiðinni.“
Hvernig klæðir þú þig dagsdaglega?
„Ég byrja á að horfa út og sjá hvernig veðrið er og þá get ég sirka séð hvað ég ætla að fara í. Ég er ekki týpan sem þjáist fyrir útlitið með því að klæða mig of lítið eða eitthvað svoleiðis – staðalbúnaður á Íslandi er góð dúnúlpa og ég er að nota eina geggjaða frá C.P. Company núna sem ég elska. Ég reyni að ofhugsa ekki „outfit“, frekar vera „effortless“.“
En fyrir fínni tilefni?
„Ég á það til að fara í aðeins víðari föt við fínni tilefni – „plain“ dökkar jakkafatabuxur, hálfrennda ullarpeysu, stóra spariskó og renndan leðurjakka til dæmis.“
Bestu fatakaupin?
„Fyrir ekki svo löngu fékk ég ónotaðan renndan „vintage“-leðurjakka frá BOSS í Extraloppunni á eitthvert klink. Hann er eins og klipptur út úr Sopranos-þætti, mjög góð kaup.“
En verstu fatakaupin?
„Ég man ekki eftir einhverju ákveðnu en ég þoli ekki þegar föt hnökra.“
Áttu þér uppáhaldsskó?
„Kiko Kostadinov Tonkin Boots eru í uppáhaldi eins og er.“
En fylgihlut?
„Já, ég á tvo hringi sem frændi minn Daníel Wirkner smíðaði og gaf mér sem ég hef notað nánast daglega síðan. Þeir hafa mikið tilfinningalegt gildi fyrir mig.“
Hvernig kom það til að þú ákvaðst að opna fataverslun?
„Ég vissi að mig langaði að búa eitthvað til og vinna fyrir sjálfan mig, ég hafði flakkað á milli alls konar mismunandi starfa og fann mig hvergi. Á þessu tímabili var ég tíður gestur í búðinni hans Guðmundar Jörundssonar vinar míns á Lækjartorgi og okkur hafði langað að vinna saman í einhvern tíma. Við ákváðum að opna Nebraska sem er fataverslun, veitingastaður og vínbar og ég er virkilega ánægður með útkomuna.“
Benedikt starfar einnig sem húðflúrlistamaður og er í dag með þó nokkur húðflúr. Þegar hann var 18 ára fékk hann sér fyrsta húðflúrið á ferðalagi með félögum sínum í Miami. „Við vorum þrír æskuvinir sem var ómögulegt að sundra frá því við vorum saman hjá dagmömmu. Við gerðum allt saman og fengum okkur allir sama húðflúrið í ferðinni. Góðir tímar!“ segir Benedikt.
Hvað ertu með mörg húðflúr í dag?
„Ég er ekki alveg með töluna á því, ég er með svo svakalega mikið af minni flúrum út um allt. Ætli þetta sé ekki orðin þriggja stafa tala. Því fleiri flúr sem ég fæ mér, því minna skiptir sagan eða merkingin á bak við þau máli. Ég vel oftast það myndmál sem ég tengi við frá viðkomandi flúrara.“
Hvenær byrjaðir þú að gera húðflúr á aðra?
„Það var í Asíureisu sem ég fór í með þáverandi kærustu og vini mínum Chris sem húðflúrsáhugafólk þekkir eflaust undir nafninu Sleepofer. Við hittum eldgamlan tannlausan mann sem var að handsmíða húðflúrsvélar í úthverfi Hanoi-borgar í Víetnam og ég gat ekki annað en keypt vél af honum. Þá byrjuðum við að húðflúra gestina á hostelinu okkar úti á svölum. Þannig byrjaði það.“
Hefurðu flúrað sjálfann þig?
„Já, nokkrum sinnum. Ég man að síðast gerði ég stórt flúr á lærið á mér og það tók svo langan tíma að mér er ennþá illt í bakinu eftir það.“
Hver er lengsta „session“ sem þú hefur setið með viðskiptavin?
„Ég er svo heppinn að gera mest millistór flúr, ég er lítið fyrir stærri verkefni. Það lengsta er sennilega sex til sjö klukkustundir á bakinu, en þá var félagi minn orðinn hvítur og gat ekki meir.“
Áttu þér uppáhaldsflúr sem þú hefur gert?
„Þau eru nokkur – það þurfa ekkert endilega að vera bestu flúrin, stundum er það manneskjan sem fékk sér það sem stendur upp úr.“
Hver er besti staðurinn til að fá sér húðflúr?
„Það getur farið eftir hverjum og einum, en svona almennt myndi ég segja að sársaukalega séð sé utanverður handleggurinn skásti kosturinn, en þetta er allt vont.“
En versti staðurinn?
„Þeir eru nokkrir – hræðilegt inni í hnésbótunum, handarkrikunum, náranum, rifbeinunum, höfðinu og ótrúlegt en satt þá er rassinn líka á þessum lista.“
Hvað er fram undan hjá þér?
„Síðustu misseri hef ég verið að undirbúa útgáfu nýs lífsstílsmerkis, en með mér í því eru Bergþór Másson, Aron Kristinn Jónasson og Logi Pedro Stefánsson – það er mjög skemmtilegt og spennandi verkefni. Auk þess hef ég verið að stunda nám í stafrænum markaðsfræðum sem er sérstaklega gagnlegt þegar maður er í eigin rekstri.“