Á tískupöllunum fyrir sumarið var flest látlaust, litir daufir og mynstrin fjarri því að vera æpandi. En þó kemur alltaf meiri litagleði með sumrinu og ekki veitir af hér á landi. Litir eins og hvítur, silfur, gull, kirsuberjarauður og nokkrar útgáfur af gulum verða áberandi í sumar.
Margir geta svo gleðst yfir því að kögur sást hjá stóru tískuhúsunum eins og Prada, Gucci og Rabanne sem er vísun í kúrekatískuna sem hefur verið vinsæl undanfarið. Þú kemst langt með það sem er sennilega í fataskápnum nú þegar, eins og hvítur stuttermabolur, gallaefni, flatbotna ballerínuskór, smá af rauðu og taska sem getur geymt allt það helsta.
Kögrið er komið aftur margra til mikillar gleði. Kögurjakkar, belti eða kjólar verða áberandi í sumar og þessi tíska tekur kúrekatískuna á næsta stig.
Það er alltaf eitthvað svo sumarlegt við gallaefni. Frasinn „öllu má nú ofgera“ á ekki við og flottast er að blanda nokkrum gallaflíkum saman, tösku og skóm.
Rauður hefur verið áberandi í vetur og heldur það áfram. Kirsuberjarauðir fylgihlutir munu gera mikið ef dressið er annars litlaust.
Þessir litir eru ekki aðeins fyrir jóla- og hátíðartímann heldur er vel hægt að gera þessa tísku sumarlega. Það skiptir ekki máli hvort það sé gull eða silfur, það má líka blanda því saman. Burt með allar reglurnar.
Hvítt er alltaf fallegt á sumrin og miklar líkur á að eitthvað hvítt leynist í fataskápnum. Heklaðar eða blúndu flíkur úr hvítu og beinhvítu verða áberandi.
Vel sniðinn dragtarjakki, helst einu númeri of stór, bjargar þér frá norðanáttinni og fer vel yfir sumarlegan kjól eða víðar gallabuxur.
Það eru margir tónar af gulum í tísku, smjörgulur og límónaðigulur þá helst. Liturinn fer vel með hvítu, svörtu og ljósbrúnu.