Halla Tómasdóttir kom sá og sigraði í forsetakosningunum sem fram fóru í gær - með klút um hálsinn og í ljósri dragt. Töluverðar umræður hafa spunnist í kringum klútinn. Hvers vegna var hún alltaf með þennan klút? Var hún að fela eitthvað eða var markmiðið að hefja nýja tískuvegferð? Einhverjir veltu því fyrir sér hvort eitthvað hefði komið fyrir hálsinn á henni sem þyrfti nauðsynlega að fela.
Fólkið sem hafði áhyggjur af þessu getur andað léttar. Halla var með klút í fyrstu kappræðum Rúv því hún var veik. Hún var með kvef og hafði vaknað algerlega raddlaus um morguninn. Hún vissi hinsvegar að hún yrði að mæta í þetta gigg, þrátt fyrir kvef og slappleika, og brá þá á það ráð að setja á sig klút til að vernda hálsinn. Stundum getur tískufatnaður bjargað fólki á ögurstundu. Verndað það og styrkt.
Klúturinn vakti mikla athygli og reyndar líka bleiki jakkinn sem hún klæddist þetta kvöld. Jakkinn og klúturinn voru keypt í versluninni Hjá Hrafnhildi og eftir að fréttir bárust að því hvað hún var glæsileg í þessum bleika jakka með gulltölum seldist jakkinn nánast upp. Sú sem skrifaði fréttina um bleika jakkann fékk holskeflu af leiðindum yfir sig og það sama má segja um manneskjuna sem klæddist jakkanum. Hún lét það hinsvegar ekki á sig fá og hélt áfram að vera með klúta um hálsinn og klæddist bleika jakkanum trekk í trekk eftir þetta.
Stuðningsmenn Höllu ákváðu að taka þetta klútagrín alla leið og hvöttu stuðningsmenn sína til þess að skarta klútum í gær. Það var því ekki þverfótað fyrir fólki með litla silkiklúta um hálsinn á kosningavöku Höllu sem fram fór í Grósku. Fyrr um daginn seldu stuðningsmenn Höllu klúta á kosningaskrifstofu hennar frá fataversluninni Hjá Hrafnhildi og seldust 120 klútar upp á tveimur klukkutímum.
Það getur vel verið að einhverjum finnist litlir silkiklútar kerlingarlegir en býr ekki lítil kerling innra með okkur öllum? Þarf ekki bara að umfaðma hana og leyfa henni að vera með. Og svo væri kannski allt í lagi að gangast við því því að hér væri ekki samfélag ef þessar kerlingar hefðu ekki staðið vaktina í gegnum aldirnar með því að elda mat úr engu og prjóna á ullarföt á fólkið sitt svo það yrði ekki úti?
Svo má velta því fyrir sér hvað vinnustyttingarkynslóðin hefði gert ef hún hefði verið Halla T. þennan dag. Vaknað með kvef og verið hálfraddlaus. Hefði hún harkað af sér og sett á sig klút? Hefði hún ekki bara hringt sig inn veika?
Og svona fyrir þá dyggu lesendur sem elska móð í öllum sínum fjölbreytileika þá voru til þrír bleikir Höllu T. jakkar Hjá Hrafnhildi á fimmtudaginn. Þeir voru staðsettir á fataslá á efri hæðinni við mátunarklefana.