Á dögunum fór ellefta þáttaröð raunveruleikaþáttanna Love Island í loftið og hafa þátttakendur þegar vakið mikla umræðu á samfélagsmiðlum. Athyglin hefur þó aðallega beinst að kvenkyns þátttakendum, en þær hafa verið harðlega gagnrýndar fyrir útlit sitt og sagðar líta út fyrir að vera mun eldri en þær eru í raun og veru.
Lýtalæknirinn Dr. Daniel Barrett heldur úti vinsælum TikTok-reikningi þar sem hann birtir efni sem tengist lýtalækningum og útliti. Hann var fenginn til að giska á aldur nokkurra þátttakenda og segja hvað hann héldi að þær hefðu látið gera við sig þegar kemur að fyllingarefnum og fegrunaraðgerðum.
Fyrsti keppandinn er Jess White. Barrett giskaði að hún væri 38 ára gömul og væri ekki náttúruleg, en hann sagði augljóst að hún hefði látið eiga við bæði varirnar á sér og nefið. Hann var hissa þegar hann komst að því að White er aðeins 25 ára gömul.
Næsti keppandi er Harriet Blackmore, en hann giskaði að hún væri 42 ára gömul og hefði látið eiga við kinnarnar, varirnar, nefið, augnhárin og augabrúnirnar, en hún væri líka með bótox. Barriett var hins vegar brugðið þegar hann komst að því að Blackmore er aðeins 24 ára gömul.
Því næst fékk læknirinn tvær myndir af Nicole Samuel, en önnur þeirra var tekin af ljósmyndara fyrir þættina á meðan hin var af persónulegum Instagram-reikningi Samuel. Barriett var í fyrstu efins um að þetta væri sama manneskjan á myndunum tveimur, en hann giskaði á að Samuel væri 35 ára og hefði látið eiga við varirnar á sér, tennurnar, nefið og væri með fyllingu í kinnunum. Samuel er hins vegar aðeins 24 ára, líkt og Blackmore.
Að lokum fékk Barrett að sjá mynd af Samönthu Kenny, en læknirinn giskaði á að hún væri 32 ára og hefði látið eiga við varirnar á sér, tennurnar, nefið og kinnarnar. Kenny er hins vegar 26 ára gömul, en ekki 32 ára.
Lýtalæknirinn var augljóslega hissa yfir aldri kvennanna, en þær voru allar töluvert yngri en hann gerði ráð fyrir og höfðu að hans mati allar látið eiga heilmikið við andlitið á sér með fegrunaraðgerðum.
„Þegar framkvæmd lýtaaðgerða og sprautun fyllingarefna er vitlaus getur það valdið því að þú lítur út fyrir að vera eldri,“ útskýrði Barrett að lokum.