Flögguðu fegurðinni og gengu yfir Arnarfell í þjóðbúningum

Björk Eiðsdóttir, Birna Bragadóttir og Anna Sigríður Arnardóttir.
Björk Eiðsdóttir, Birna Bragadóttir og Anna Sigríður Arnardóttir.

Eftir að hafa upplifað allt of marga þjóðhátíðardaga þar sem týndar gasblöðrur, biðraðir og grátandi börn voru of plássfrek ákváðu þrjár vinkonur að búa til sínar eigin hefðir. Anna Sigríður Arnardóttir framkvæmdastjóri Spildu, Birna Bragadóttir forstöðumaður hjá Orkuveitunni og Björk Eiðsdóttir upplýsingafulltrúi Björgólfs Thors Björgólfssonar skipulögðu göngu yfir Arnarfell á Þingvöllum á 80 ára afmæli lýðveldisins þann 17. júní. Fjöldaframleidd útivistarföt viku fyrir íslenska þjóðbúningnum til að hylla Fjallkonur og þeirra fylgifiska.

Hulda Steingrímsdóttir, Karl Ægir Karlsson og Anna Sigríður Arnardóttir.
Hulda Steingrímsdóttir, Karl Ægir Karlsson og Anna Sigríður Arnardóttir.

Hvernig kom það til að þið ákváðuð að hóa saman fólki, helst í þjóðbúningum, til þess að labba á Arnarfell? 

„Þetta var nú bara eins og með flestar góðar hugmyndir. Hún fæddist á ógnarhraða hjá okkur Birnu þegar við vorum í golfmóti í síðustu viku og okkur var farið að ganga frekar illa. Þá fór hugurinn að reika til 17. júní og þess hvað við ætluðum að gera. Fjöll skipa stóran sess í okkar vináttu og úr varð þessi ganga á Arnarfell á Þingvöllum í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldisins. Okkur fannst ekki annað koma til greina en að labba í þjóðbúningum í tilefni þessara merku tímamóta,“ segir Anna Sigríður. 

„Við Birna höfum gengið ansi mörg fjöll saman á þessu ári en hún ákvað að ganga 50 fjöll á árinu í tilefni þess að við verðum fimmtugar síðari hluta árs. Mér fannst hugmyndin svo frábær að ég vildi ólm taka þátt og setja mér það sama markmið. Saman höfum við nú gengið á 27 ólíka tinda á árinu og samtölin farið um víðan völl. Vikuna fyrir 17. júní gengum við tvær saman á Meðalfell og þegar ég sagði henni frá því að ég stefndi á að halda veislu á þjóðhátíðardaginn til að sporna gegn ákveðnu stemningsleysi sem mér finnst hafa einkennt þann dag undanfarin ár, og helst klæðast upphlut, toppaði Birna hugmyndina með þessari frábæru hugmynd sem hún og Anna Sigga höfðu fengið í golfi kvöldið áður: Að ganga á fjall klæddar þjóðbúningum! Þannig var planið komið,“ segir Björk. 

„Anna Sigga hafði áhuga á að klæðast þjóðbúningi þennan dag og ég að ganga fjall í minni fimmtíu fjallasöfnun. Úr varð hátíðleg fjallganga í fullum þjóðbúningaskrúða í tilefni dagsins. Við gerðum líka grín af því að engin hefur beðið okkur um að vera fjallkonur þannig nú væri tímabært að taka málin í okkar eigin hendur og gerast okkar eigin fjallkonur og frá fleiri í lið með okkur. Áður en við kvöddumst á umræddu golfmóti þá var komin hugmynd að fjalli til að ganga og ég búin að útvega mér þjóðbúning. Kvöldið eftir áttum við Björk stefnumót í fjallgöngu á Meðalfell þar sem ég viðraði feimnislega hugmyndina fyrir henni. Þrátt fyrir að hafa þekkt hana í meira en 35 ár, þá vissi ég ekki af áhuga hennar á þjóðbúningnum. Hún tók því strax mjög vel í hana og við settum út boð til vina og ættingja um að koma með. Fjórum dögum síðar var hún komin í framkvæmd,“ segir Birna. 

Birna, Anna Sigríður og Björk fóru í fótabað í Þingvallavatni …
Birna, Anna Sigríður og Björk fóru í fótabað í Þingvallavatni eftir gönguna.

Laumaðist ein á fjall til að prófa gönguleiðina

Engin af þeim hafði gengið á Arnarfell en Birna ákvað að taka prufu þann 16. júní svona til öryggis. 

„Ég hef ekki gengið þessa leið áður en er búin að vera með augastað á fjallinu frá því að ég hóf fjallamarkmiðið mitt í upphafi árs sem felst í því að ganga 50 mismunandi fjöll á árinu og bjóða samferðafólki mínu að ganga með mér. Þegar hugmyndin kviknaði á að halda upp á 80 ára afmæli lýðveldisins með fjallgöngu í þjóðbúningi þá fannst mér ekki annað koma til greina en að ganga fjall á Þingvöllum, þar sem staðurinn skipar sérstakan sess í huga okkar Íslendinga. Arnarfell er staðsett á einstaklega fallegum stað við Þingvallavatn, gönguleiðin er fjölbreytt með fallegri fjallasýn og útsýni yfir þjóðgarðinn. Síðan er þetta eitt af þeim fjöllum sem var á listanum mínum og ég átti eftir að ganga.

Þar sem við vildum að bjóða fleira fólki að ganga með okkur í þjóðbúninginn þá varð fjallið að vera nokkuð aðgengilegt og auðvelt yfirferðar fyrir prúðbúið göngufólk. Kvöldið fyrir gönguna gerði ég mér ferð til Þingvalla til að kanna aðstæður og hvort það væri ekki örugglega gerlegt væri að fara þarna yfir í þjóðbúningum,“ segir Birna. 

Blaðamaður slóst í för með Birnu, Björk og Önnu Sigríði. …
Blaðamaður slóst í för með Birnu, Björk og Önnu Sigríði. Fremst á myndinni eru Pétur Blöndal og Sigurður Kári Kristjánsson.

Búningar úr ýmsum áttum

Anna Sigríður hefur klæðst þjóðbúningi á 17. júní síðustu þrjú ár en Björk og Birna hafa ekki lagt það í vana sinn. 

„Þegar maður er komin á bragðið þá er ekkert hægt að hætta því,“ segir Anna Sigríður og bætir við:

„Minn búningur er í eigu Önnu Þórarinsdóttur móðursystur minnar sem býr í Noregi en hún fékk búninginn í brúðkaupsgjöf frá fjölskyldunni árið 1985. Fyrir nokkrum árum sendi hún svo búninginn til Íslands og fól mömmu að geyma hann hér svo að konurnar í fjölskyldunni gætu notað hann, enda er hún mestmegnis í sínum norska búningi í Noregi. Ég er henni ævarandi þakklát fyrir að treysta okkur fyrir búningnum sínum enda er dásamlegt að klæðast honum,“ segir Anna Sigríður. 

„Ég klæddist þjóðbúningi stúlkna í eitt skipti þegar ég var 8 ára gömul. Ég man vel eftir þeirri stund þar sem amma mín var með mér og klæddist upphlut. Ég minnist að hafa fengið mikla athygli frá fullorðnu fólki yfir því hvað ég þótti fín í búningnum og við amma saman. Því miður á ég ekki mynd af okkur saman við það tilefni. Síðar klæddist ég við annað tækifæri bláum kirtli sem mér þótti óskaplega fallegur og gaman að klæðast. 

Peysufötin sem ég klæddist á 17. júní eru frá langömmu minni Guðrúnu Guðnýju frá Vestfjörðum, fædd 1893. Hún saumaði hann á sig sjálf. Ég hef ekki klæðst peysufötunum áður og því óvænt ánægja að búningur langömmu minnar skyldi smellpassa á mig þar sem ég er umtalsvert hærri í vextinum en hún var. Pilsið er þó nokkuð stutt sem hentaði sérstaklega vel í fjallgöngunni.

Bæði upplifði ég það hátíðlegt og valdeflandi að klæðast þjóðbúningum í fjallgöngu á Þingvöllum þennan dag í góðum félagsskap prúðbúins göngufólks. Við báðum nokkur þeirra að koma með þjóðlegt og fróðlegt innlegg í dagskrá göngunnar sem jók hátíðleikann og tengingu við náttúru og sögu. Pétur Blöndal sagði okkur frá sögu íslensku fjallkonunnar og flutti ljóð um hana frá ólíkum tímaskeiðum, Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur sagði okkur frá náttúru, sögu og staðháttum á Þingvöllum, Sigurður Kári Kristjánsson, eiginmaður minn, fræddi göngufólk um Lögberg og sögu staðarins. Að lokum flutti fjallkonan sjálf á Þingvöllum í ár Edda Björg Eyjólfsdóttir leikkona ljóð fjallkonunnar við fallega vík við Þingvallarvatn þar sem við fengum okkur huggulegt sparinesti í lautarferð,“ segir Birna. 

Á toppi Arnarfells viðraði vel til taka ljósmynd af þjóðbúningaklæddum …
Á toppi Arnarfells viðraði vel til taka ljósmynd af þjóðbúningaklæddum göngugörpum. Í efstu röð eru; Björk Eiðsdóttir, Birna Bragadóttir, Edda Björnsdóttir, Sigríður Steinarsdóttir, Halldóra Traustadóttir, Edda Hafsteinsdóttir, G. Sigríður Ágústsdóttir og Anna Sigríður Arnardóttir. Hulda Steingrímdóttir, Anna Kristín Kristjánsdóttir, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Sirrý Hallgrímsdóttir, Marta María Winkel Jónasdóttir, Sunna Jóhannsdóttir, Auður Arnarsdóttir og Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir.

Kynntist þjóðbúningastemningu í Noregi

Björk bjó í Noregi um tíma og segist hafa kynnst stemningunni sem fylgir því að klæðast þjóðbúningi á þjóðhátíðardegi Noregs 17. maí. 

„Þar klæðast ungir sem aldnir „bunad“ og gera sér glaðan dag frá morgni til kvölds. Það er mikill hátíðleiki sem ríkir þennan dag en líka ákveðinn léttleiki, svolítið ólíkt öllum þeim reglum og nánast heilagleika sem mér finnst vera í kringum okkar þjóðbúninga. En alla vega, ég hef aðeins öfundast út í frændur okkar þegar kemur að þessari hefð, og finnst einhvern veginn ekki ganga að við séum slíkir eftirbátar Norðmanna þegar kemur að stemningu,“ segir Björk. 

„Minn glæsilega 19.aldar búning fékk ég hjá snillingunum í Þjóðdansafélagi Reykjavíkur sem halda af þvílíkum dugnaði utan um þennan menningararf okkar og það í sjálfboðavinnu! Af hverju er slíkt þjóðþrifaverk ekki ríkisstyrk,“ spyr hún. 

Hafið þið lengi haft áhuga á þjóðbúningum?

„Allavega í nokkur ár. Fleiri vinkonur eru farnar að klæðast búningum á 17. júní og fyrst var þetta kannski pínu búningablæti í mér. En mér finnst þetta skemmtilegra með hverju árinu og svo er þetta falleg hefð,“ segir Anna Sigríður. 

„Það fyllti mig stolti að klæðast þjóðbúningi langömmu minnar og það er gaman að tengja við upprunann og söguna með þessum hætti. Þjóðbúningurinn er í raun tímalaus íslensk hönnun sem endist og gengur á milli kynslóða með vönduðu handbragði og þeirri alúð sem lögð hefur verið í verkið. Á tímum fjöldaframleiðslu er gaman að klæðast fatnaði með sögu þar sem hver og ein flík er einstök með sín sérkenni. Við ættum að vera stolt að klæðast þjóðbúningi við hátíðleg tækifæri og því ekki að ganga upp fjöll líka. Það er líka fegurð í því þegar búningur sem þessi öðlast nýtt líf með nýjum kynslóðum,“ segir Birna og Björk tekur undir: 

„Ég verð eiginlega að viðurkenna það. Ég fékk að klæðast upphlut ömmu minnar á peysufatadegi Kvennó og gleymi aldrei þeirri upplifun. Svo fékk dóttir mín að feta í þau fótspor í sama búning en nú stóð hann mér ekki lengur til boða og því var eina leiðin að leigja en hjá Þjóðdansafélaginu kemur maður sannarlega ekki að tómum kofanum,“ segir Björk. 

Hvers vegna skiptir máli að klæðast þjóðbúningum við hátíðleg tilefni?

„Það er bara svo gaman og þjóðlegt. Þetta endurnærir væntumþykjuna fyrir landi og þjóð,“ segir Anna Sigríður. 

„Það er mikilvægt að viðhalda menningararfinum og því ótrúlega fallega handverki sem íslenskar konur hafa unnið í aldanna rás. Svo á auðvitað alltaf að flagga fegurðinni en ekki láta hana rykfalla inni í skáp eins og ég held að sé því miður raunin um alltof marga búninga sem mögulega hafa gengið í erfðir og enginn notar,“ segir Björk. 

Var ekkert að erfitt að labba upp um fjöll í þessum klæðnaði?  

„Aldeilis ekki. Þessir búningar voru náttúrulega notaðir af íslenskum konum við leik og störf hér á árum áður og hann er ótrúlega lipur að ganga í. Pilsaþyturinn var allsráðandi á Arnarfelli á 17. júní og geggjað að labba um í lyngi og mosa og lyfta pilsinu í hverju skrefi,“ segir Anna Sigríður og Björk tekur í sama streng. 

„Pils eru mjög þægilegur göngufatnaður þó þessi hafi nú reyndar verið helst til síð, en við bara héldum þeim uppi eins og fínar frúr. Þess ber þó að geta að gangan var bæði stutt og létt og veðrið milt og gott svo þetta reyndist akkúrat passlegur klæðnaður.“

„Fyrirfram hafði ég með smá áhyggjur af því að erfitt yrði að ganga í síðu pilsi. Í raun var það bara nokkuð þægilegur göngufatnaður og síðan er einfalt mál að kippa pilsinu upp til að stíga ekki á faldinn. Það er nú líklega ekki í fyrsta sinn sem konur hafa fari í fjallgöngu í þjóðbúningi. Aðalmálið er auðvitað að vera í góðum gönguskóm. Við þann lúxus bjuggu formæður okkar ekki við,“ segir Birna. 

Pétur Blöndal eiginmaður Önnu Sigríðar flutti ættjarðarljóð.
Pétur Blöndal eiginmaður Önnu Sigríðar flutti ættjarðarljóð.

Einstök stemning

Hvað stóð upp úr frá deginum?

„Tímalaus hátíðleikinn og sú fallega stemmning sem myndaðist í hjá göngufólki að arka upp á fjall við þetta tækifæri. Ég verð að viðurkenna að ég fylltist stolti og fannst ég finna fyrir fallegri tengingu við fallega náttúru, menningu og sögu á þjóðhátíðardaginn. Persónulega fannst mér skemmtilegt að hafa náð að búa þannig um hnútana að mér tækist ljúka við að ganga upp fimmtugasta fjallið mitt á árinu í mínu fínasta pússi á þessum fallega og mikla hátíðardegi umvafin fjallkonum og vinum. Því mun ég aldrei gleyma,“ segir Birna. 

„Mér fannst standa upp úr hvað margir tóku vel í þessa skyndilegu hugmynd okkar vinkvennanna og hversu margir mættu í búning,“ segir Anna Sigríður. 

„Það verður ekki mikið hátíðlegra en að ganga prúðbúinn í íslenskri náttúru við Þingvelli í góðum félagsskap. Það var svo ekki verra að í hóp okkar var mikið hæfileikafólk sem flutti ættjarðarljóð og sagði sögur frá stofnun lýðveldisins, umhverfinu í kring og fleira,“ segir Björk. 

Anna Sigríður, Birna og Björk segja að gangan hafi fallið svo vel í kramið að farið verði aftur á fjall í þjóðbúningum á næsta ári. Hvað um búningana. Ætlið þið allar að vera í heimasaumuðum þjóðbúningum í næstu göngu? 

„Það kæmi mér ekki á óvart,“ segir Anna Sigríður. 

„Já heldur betur það er stefnan. Við erum nokkrar í hópnum nú þegar búnar að skrá okkur á námskeið til að sauma okkar eigin þjóðbúning. Við stefnum á að vígja hann að ári liðnu í þjóðhátíðargöngu,“ segir Birna. 

„Kannski ekki allir en við stöllur erum alla vega búnar að skrá okkur á námskeið hjá Heimilisiðnaðarfélaginu og stefnum á að sauma okkur búninga. Persónulega bið ég bara guð að vera með mér í þeirri vegferð – í versta falli veit ég þó hvar ég get leigt dýrðina,“ segir Björk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda