Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni og á Húðvaktinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem langar að líta sérlega vel út í sumar þegar dóttir hennar gengur í hjónaband.
Komdu sæl.
Nú er dóttir mín að fara að gifta sig í sumar og mig langar til að líta vel út á brúðkaupsdaginn og langar að gera eitthvað „extra“ fyrir húðina. Hvaða húðmeðferðir henta konu um sextugt sem langar til að fá smá ljóma og gljáa fyrir stóra daginn? Er ég of sein að hugsa út í þetta?
Kær kveðja,
Helga, móðir brúðarinnar
Sæl Helga.
Nei, þú ert alls ekki of sein og margt hægt að gera. Nú er sumarið komið og sólin aðeins farin að skína okkur til mikillar ánægju. Þetta setur okkur aðeins skorður varðandi hvaða meðferðir henta þar sem lasermeðferðir eru meira meðferðir sem við gerum á haustin og á veturna þar sem húðin getur verið viðkvæm fyrir sólarljósinu í 1-2 vikur eftir meðferðina. Það eru aftur á móti margar húðmeðferðir sem er hægt að gera allan ársins hring án þess að hafa miklar áhyggjur af sólinni. Hér eru þær meðferðir sem ég get mælt með fyrir mæður brúðarinnar eða brúðgumans í vor/sumar:
- Profhilo og Fraxel 1940nm yfirborðslaser: Ég veit að ég sagði að það væri erfitt að gera lasermeðferðir á vorin/sumrin en þessi meðferð er bara svo öflug og áhrifarík að ég get ekki annað en nefnt hana fyrir móður brúðarinnar/brúðgumans. Meðferðin byrjar á því að sprauta hreinni hyaluronic sýru í húðina (Profhilo skinbooster) til að gefa henni raka og aukna þéttni og svo nokkrum vikum seinna (2-3 vikum) förum við með öflugan Fraxel laser yfir alla húðina sem vinnur á litabreytingum, eykur ljóma húðarinnar og einnig þéttni. Lokaniðurstaðan er ljómandi húð, jafnari húðlitur og aukin þéttni. Áhrifaríkust en að sjálfsögðu einnig dýrust.
- PRX-peel: Þetta „peel“ klikkar sjaldnast. Virkar eins og góð heiðarleg dísilvél þar sem hún veitir ekki einungis góðan ljóma og gljáa strax heldur örvar einnig kollagenið og þau áhrif koma seinna fram, eða eftir 2-4 mánuði. Einnig er hægt að auka enn frekar á áhrif þessa „peels“ með því að sprauta Profhilo skinbooster í húðina á sama tíma.
- Aquagold: Hér blöndum við saman míkrótoxíni og skinbooster með hyaluronic sýru og sprautum því svo inn í yfirborð húðarinnar með örlitlum gullnálum eins og í örnálarmeðferð. 2-3 vikum eftir meðferðina er kominn fínn gljái á húðinni, svitaholur minna sýnilegri, fínar línur mildari og jafnara yfirborð. Frábær meðferð til að undirbúa húðina fyrir stóra viðburði, farðinn liggur mun betur og verður náttúrulegri.
- Hydrafacial: Þessa meðferð er gott að gera rétt fyrir stóra daginn og bregst aldrei. Húðslípun og rakameðferð í einni meðferð, eins og demantshúðslípun á sterum! Færð ljómandi húð og fallegt yfirborð þar sem dauðar húðfrumur á ysta lagi húðarinnar eru fjarlægðar og raka þrýst í húðina. Kjörin meðferð til að gera rétt fyrir stóra daginn.
- Örnálameðferð: Einnig er vel hægt að meðhöndla með örnálarmeðferð (Dermapen/Skinpen) á sumrin þar sem þær meðferðir gefa ekki af sér jafn mikinn hita í húðina og lasermeðferðir. Þó hún sé ekki eins áhrifarík meðferð og húðlaserar þá getur hún örvað kollagenið og bætt áferð húðarinnar. Til að fá sem bestan árangur fyrir sextuga konu þá þarf nokkrar meðferðir, amk 3-4, með 4-6 vikna millibili. Örnálarmeðferð er líka mjög góð leið til að koma góðum raka í húðina og um að gera að nýta sér það dagana eftir meðferðina með góðum hyaluronic serumum.
Eins og þú sérð þá eru nokkrir valmöguleikar í boði og langbest að panta tíma í ráðgjöf til að setja upp rétt meðferðarplan fyrir þig.
Kær kveðja, Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Jennu Huld spurningu HÉR.