88 ára gömul amma Áslaugar Örnu saumaði nýja svuntu á þjóðbúninginn

Agnes Guðmundsdóttir, Aþena Lárusdóttir, Áróra Lárusdóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Katla …
Agnes Guðmundsdóttir, Aþena Lárusdóttir, Áróra Lárusdóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Katla Rut Magnúsdóttir og Rebekka Guðmundsdóttir.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra finnst gaman að klæðast þjóðbúningi við ákveðin tilefni. Hún skartaði búningi á 17. júní og hvatti vinkonur sínar til að gera slíkt hið sama. Hún hefur klæðst þjóðbúningum frá barnsaldri, fyrst fjögurra ára gömul árið 1994 og svo á Kristnihátíðinni á Þingvöllum árið 2000. Henni fannst líka viðeigandi að klæðast þjóðbúningi þegar hún fylgdi móður sinni, Kristínu Steinarsdóttur, til grafar árið 2012.

„Mér finnst mjög gaman að klæðast þjóðbúning við ákveðin tilefni. Búningurinn er svo tengdur sögu okkar og menningu ásamt því að vera búningur sem hefur þýðingu fyrir mig persónulega og tengsl við báðar ömmur mínar,“ segir Áslaug Arna.

„Ég hef verið dugleg að nota hann 17. júní og hvatt vinkonur mínar til að gera það líka sem eiga eða hafa aðgengi að búning. Þá hef ég notað hann á fleiri hátíðisdögum eins og þegar fullveldinu er fagnað. En líka í jarðarförum, ég klæddist honum til dæmis við svarta skyrtu og svuntu þegar ég fylgdi mömmu minni síðasta spölinn 2012,“ segir Áslaug Arna en móðir hennar, Kristín Steinarsdóttir kennari, féll frá eftir erfið veikindi þegar ráðherrann var 22 ára.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir var í svartri skyrtu þegar hún klæddist …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir var í svartri skyrtu þegar hún klæddist þjóðbúningi sínum þegar hún fylgdi móður sinni til grafar árið 2012.

Hver er sagan á bak við þinn þjóðbúning?

„Búningurinn minn er frá Áslaugu Sigurbjörnsdóttur ömmu minni, hún var hjúkrunarfræðingur og prestsfrú í Grundarfirði, en Elsa Pétursdóttir amma mín, sem er 88 ára, saumaði nýja svuntu í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldisins. Þar sem mig langaði í bláa og köflótta við búninginn minn. Litlu frænkur mínar sem voru með mér voru líka í búningum sem Elsa saumaði á mig og frænkur mínar 1994,“ segir Áslaug Arna.

Elsa amma Áslaugar Örnu starfaði við búningasaum í Íslensku óperunni í mörg ár og er sérlega handlagin. Árið 2000 saumaði hún fleiri þjóðbúninga á frænkurnar þrjár; Áslaugu Örnu, Agnesi og Rebekku, sem þá voru á aldrinum 8-10 ára gamlar. Þetta var fyrir Kristnihátíðina sem haldin var á Þingvöllum um aldarmótin.

Hér er Áslaug Arna með frænkum sínum, Rebekku og Agnesi …
Hér er Áslaug Arna með frænkum sínum, Rebekku og Agnesi Guðmundsdætrum á 17. júní 1994. Þá var Áslaug Arna fjögurra ára.

Hvað er hægt að gera til að ýta undir áhuga á þjóðbúningum?

„Ég vona að meiri áhugi kveikni á búningnum þegar hann er sýnilegri. Við eigum að vera stolt af sögu okkar, menningu og sjálfstæði. Þjóðbúningurinn er partur af þeirri sögu. Það er líka mikilvægt að hafa einhverjar útfærslur, kannski gætu peysuföt til dæmis verið aðgengilegri fyrir fleiri,“ segir hún.

Elsa Pétursdóttir, Eliza Reid, Guðni Th. Jóhannesson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, …
Elsa Pétursdóttir, Eliza Reid, Guðni Th. Jóhannesson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Rebekka Guðmundsdóttir og Agnes Guðmundsdóttir. Fremstar eru Katla Rut Magnúsdóttir, Áróra Lárusdóttir og Aþena Lárusdóttir. Elsa á heiðurinn af búningum stúlknanna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál