Hannar einstök föt úr flóknum munstrum en er sjálfur mest í svörtu

Sævar Markús Óskarsson.
Sævar Markús Óskarsson.

Sævar Markús Óskarsson rekur íslenska tískuhúsið SÆVAR MARKÚS. Hann hannar ekki bara fötin í línunni heldur einnig efnin og leggur hann mikinn metnað í munsturgerð og snið. Stundum stendur hann vaktina í Apotek Atelier á Laugaveginum þar sem hann og selur vörur sínar ásamt Halldóru Sif sem rekur íslenska tískuhúsið Sif Benedicta.

Sævar Markús hefur verið hrifinn af slæðum og klútum síðan hann var lítill drengur og fékk að skoða í klæðaskáp mömmu sinnar og ömmu. Amma hans var mikil slæðukona.

„Slæðuáhugi kom bæði frá ömmu og einnig mömmu minni, en ég man eftir að hún setti ávallt silkiklút um hálsinn á mér þegar ég var veikur sem barn. Þannig að mér þykir kannski sérstaklega vænt um þennan fylgihlut,“ segir Sævar Markús.

Slæður voru töluvert í umræðunni í tengslum við forsetaframboð Höllu Tómasdóttur, nýkjörins forseta Íslands. Þegar hann er spurður að því hvort sala á

slæðum hafi snaraukist síðan Halla Tómasdóttir var kosin segist hann finna mun.

„Salan hefur aukist en klútarnir hjá okkur eru þó ekki uppseldir þótt þeir hafi tekið stökk í sölu,“ segir hann.

Hér má sjá munstur úr nýjustu línunu frá Sævari Markúsi.
Hér má sjá munstur úr nýjustu línunu frá Sævari Markúsi.

Byrjaði að safna klútum á unglingsaldri

Hvernig á að nota klút án þess að hann verði of kerlingarlegur?

„Ef fólk er í einhverri óvissu með það er hægt að koma í heimsókn og þá getum við sýnt fólki hvernig á að hnýta klút. Það er hægt að leika sér með þetta ferhyrnda form og leggja efnið saman og leika sér. Ef fólk er með minni klúta er þetta auðveldara því þá þarf bara að binda saman,“ segir Sævar Markús og tekur klút og brýtur hann eins og servéttu þannig að hann verði eins og þríhyrningur í laginu. Svo brýtur hann klútinn saman þannig að hann myndi lengju áður en hann er hnýttur um hálsinn.

Hefur þú upplifað svona klútaæði áður?

„Nei, ekki beint. Ég get ekki sagt það.“

Er það ekki rétt skilið hjá mér að þú hafir alltaf verið með einhverjar útgáfur af klútum í fatalínum þínum? Þú ert svona klútatýpa - er það ekki?

„Ég byrjaði að safna silkiklútum þegar ég var unglingur. Ég sá svona klúta fyrst hjá ömmu og fannst gaman að skoða þá. Þegar ég bjó í París fannst mér gaman að dunda mér við það að gramsa á antikmörkuðum. Ég fór kannski í gegnum kassa af 300 slæðum og sigtaði út silkiklúta frá Hermés og YSL eða eitthvað þannig. Þetta er fylgihlutur sem mér finnst alltaf fallegur,“ segir han

Sævar Markús hannaði föt á frönsku söngkonuna Melody Prochet fyrir …
Sævar Markús hannaði föt á frönsku söngkonuna Melody Prochet fyrir tónleikaferð hennar.

Fann sig í París

Sævar Markús bjó í París á árunum 2007 og 2008.

„Ég naut þess mikið að búa þar og fer reglulega til Parísar og er hugurinn ávallt að flytja þangað aftur við tækifæri, en það kemur allt saman í ljós. Þar sem ég hef mikinn áhuga á sögu og rannsaka mikið fortíðina oft í tengslum við mína eigin vinnu, þá má hiklaust finna áhrif frá til dæmis Yves Saint Laurent sem hefur ávallt verið mitt uppáhald til dæmis.“

Hvers vegna ertu alltaf sjálfur í svörtu?

„Ég er persónulega sjálfur næstum ávallt í svörtu en á hins vegar mikið af allskyns fatnaði. Nú í dag þykir mér best að vera í fremur hlutlausum og klassískum fatnaði og vanda valið. Einnig hef ég mjög gaman af að safna vintage-fatnaði og hef síðustu ár verið að kaupa vintage-flíkur frá Dries Van Noten, Tom Ford, YSL, Valentino og ýmsum öðrum,“ segir hann.

Finnst þér skipta máli að klútar og slæður séu úr silki?

„Ég persónulega vel að gera aðeins slæður úr silki eða þá hef gert slæður úr blöndu af silki og ull eða silkimodal-blöndu.“

Hér má sjá handsaumuð munstur í flíkum eftir Sævar Markús.
Hér má sjá handsaumuð munstur í flíkum eftir Sævar Markús.

Með sömu framleiðendur og Fendi

Hvað er að gerast í hönnuninni þinni núna. Hvað ertu að hugsa?

„Ég er að klára vörur fyrir haustið en það er langt komið og er verið að klára prufuflíkur og öll mynstur eins og stendur. Fyrir veturinn er ég loksins að koma með jakka, buxur, kápur og annað sem ég hef ekki verið að framleiða, en ég hef loksins fundið framleiðanda á Ítalíu sem meðal annars sér um að framleiða fyrir Fendi. Þau vildu endilega

framleiða fyrir mig og eru til í að gera flíkur í minna upplagi því ég hef engan áhuga á að framleiða of mikið af fatnaði og er einnig mikið að vinna með mjög vönduð svokölluð „deadstock“-efni frá Ítalíu, frá efnaframleiðendum sem meðal annars framleiða efni fyrir YSL, Gucci og fleiri merki,“ segir hann og bætir við:

„Núna í haust er ég reyndar fyrst að fara bjóða upp á sérstakar flíkur sem verða þá sérpantaðar, þar sem ég er þá mikið að vinna með útsaum, en ég var til dæmis að vinna með það í fyrra þegar ég var að klæða frönsku söngkonuna Melody Prochet á tónleikaferð hennar,“ segir hann.

Sævar Markús hefur alltaf sérsaumað mikið af fatnaði á fólk.
Sævar Markús hefur alltaf sérsaumað mikið af fatnaði á fólk.

Sævari Markúsi finnst skipta máli að nota alveg sérstök efni frá Ítalíu og þar eru örfáir kjólar gerðir úr sama efni. Hann hefur alltaf sérsaumað flíkur fyrir fólk og mun halda því áfram.

„Þá er hægt að panta og verða þeir þá alfarið gerðir hér á Íslandi og mestmegnis unnið að þeim á vinnustofu í Reykjavík.“

Vinnur með til að fjármagna hönnunarfyrirtækið 

Er hægt að lifa af þessu? Ertu með fjárfesta?

„Ég er að vinna aukalega með þessu. Ég er ekki með fjárfesta. Er bara ég sjálfur að sinna þessu og hef tekið hæg skref. Þegar maður vinnur þannig. Ég geri ekki stórt upplag af neinu og efniskostnaður og annað er dýrt því ég vel vönduð efni. Öll ullarefnin og það sem ég er að vinna með er sérpantað á Ítalíu og öll efnin eru sérprentuð fyrir mig. Vörurnar sem ég er með í búðinni núna eru úr flóknum munstrum. Þá þarf munstrið að passa saman. Ég er með faldar hneppingar og það skiptir máli upp á millimetra hvernig hlutirnir eru gerðir. Þú þarft að brjóta upp munstrið, pressa það aftur niður og prenta það eftir kúnstarinnar reglum. Ég er alltaf í öllu svörtu sjálfur. Það væri náttúrlega miklu þægilegra að hafa bara allt svart. Ég þarf alltaf að gera hlutina svolítið flóknari,“ segir hann og hlær.

„Ég er að bæta við áferðarkenndari efnum og einlitum efnum. Það verður meira úrval. Það koma alveg konur hingað inn og eru mjög hrifnar af munstrunum en tengja kannski ekki við þau.“

Eru íslenskar konur hræddar við munstur?

„Ekkert endilega. Það eru alltaf einhverjar sem eru þannig. Mér finnst vera miklu meiri litagleði og aðrir íslenskir hönnuðir, eins og Hildur Yeoman, Anita Hirlekar, Sif Benedikta, EYGLO og Another Creation, hafa sýnt að íslenskar konur vilja klæðast litum og munstrum og eru að gera margt fallegt. Konur þurfa að koma og máta og skoða.“

Hvað getum við gert sem samfélag til að ýta undir íslenska hönnun?

„Koma og kynna sér hana og kaupa hana. Það hjálpar alltaf til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál