Dreymir um að sauma sér þjóðbúning

Þóra Margrét Baldvinsdóttir klæddist 20. aldar búningi á 17. júní. …
Þóra Margrét Baldvinsdóttir klæddist 20. aldar búningi á 17. júní. Búninginn fékk hún lánaðan hjá Annríki í Hafnarfirði. Samsett mynd

Þóra Margrét Baldvinsdóttir, innanhússtílisti og eiginkona Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, hefur mikinn áhuga á þjóðbúningum. Í nokkur ár hefur hana langað til að sauma sér sinn eigin búning en ekki látið verða af því en það gæti orðið breyting á því. 

Þóra Margrét Baldvinsdóttir klæddist 20. aldar búningi á 17. júní. …
Þóra Margrét Baldvinsdóttir klæddist 20. aldar búningi á 17. júní. Hér er hún ásamt eiginmanni sínu, Bjarna Benediktssyni.

Hefur þú oft klæðst þjóðbúningi?

„Nei, ekki oft því miður. Ég var í 19. aldar búningi á 17. júní árið 2017 þegar Bjarni var forsætisráðherra. Ég leigði hann hjá Þjóðdansafélagi Reykjavíkur í Mjóddinni. Ég gerði einu sinni tilraun til að sauma mér minn eigin búning. Við vinkonurnar fórum í Annríki í Hafnarfirði og fórum á þriggja tíma kynningu á námskeiðinu,“ segir Þóra og játar að ekkert hafi svo orðið af því að fara á námskeiðið sjálft. 

Aðspurð um hvort það sé hefð fyrir því í hennar fjölskyldu að fólk klæðist þjóðbúningum segir hún svo ekki vera. 

„Svona búningar hafa ekki verið til, hvorki í minni né Bjarna fjölskyldu. Þegar ég klæddist 19. aldar búningnum hjálpuðu þær mér í Annríki og lánuðu mér búning,“ segir hún.

Þóra ber Hildi Rosenkjær klæðskera, kjólameistara og sagnfræðingi í Annríki vel söguna og hefur hún leitað til hennar í þessi tvö skipti sem hún hefur klæðst búningi. Á 17. júní klæddist Þóra 20. aldar faldbúningi. 

„Hún rekur ótrúlegt starf og heldur utan um sögu þjóðbúningsins frá upphafi. Í Annríki sýnir hún búningana og á 17. júní var hún búin að stilla upp 20 gínum frá mismunandi tímum. Hún er svo fær í þessum saumaskap. Hún var svo elskuleg að lána mér búning sem hún á. Þetta er einni fyrsti búningurinn sem hún saumaði á sig og er búningurinn orðinn 30 ára. Ég var í upphlut frá henni, í pilsi við frá Margréti Hallgrímsdóttur fyrrum Þjóðbókarverið og með skart frá Margréti Hallgrímsdóttur og Hildi. Þetta var blanda frá þeim stöllum. Ég var með gamalt sjal við sem ég fékk hjá Hildi. Það er ekki hægt að fara í einhverja lufsu yfir sem maður á inni í skáp,“ segir Þóra og hlær. Hún segir að Hildur sé fróð um öll þessi formlegheit sem fylgja þjóðbúningum. 

„Hildur veit hvernig húfan á að sitja og allt þetta. Það er fróðlegt að fara í kennslu hjá henni. Búningurinn er geymdur í sýruþvegnum pappír svo hann skemmist ekki. Ég er búin að vera að hugsa með sjálfri mér í mörg ár að ég þurfi að eignast svona búning sjálf,“ segir hún.

Guðrún Hafsteinsdóttir, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir, Áslaug …
Guðrún Hafsteinsdóttir, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Þóra Margrét Baldvinsdóttir. Myndin var tekin á 17. júní í ár.

Fannst þetta púkalegt en ekki lengur

Hefur þig langað í þjóðbúning síðan þú varst lítil stelpa eða er þetta nýtilkomið?

„Mér fannst þetta svo púkalegt þegar ég var yngri. Kannski er það vegna þess að þetta hefur ekki verið hefð í minni fjölskyldu. Í dag finnst mér svo gaman að sjá konur á öllum aldri klæðast þjóðbúningum. Ég væri til í að það væri aðgengilegra að eignast slíkan búning. Það er ekki hægt að labba út í búð og kaupa svona. Ég veit að Hildur í Annríki hefur áhyggjur af því að þessi handavinna sem prýðir búningana glatist ef við höldum ekki í þessar gömlu hefðir. Þetta er menningararfur sem má ekki glatast,“ segir hún. 

Þessi mynd var tekin af Þóru árið 2017. Hér er …
Þessi mynd var tekin af Þóru árið 2017. Hér er hún í 19. aldar búningi sem hún fékk leigðan hjá Þjóðdansafélagi Reykjavíkur sem á eitt stærsta þjóðbúningasafn landsins.

Hvað kemur í veg fyrir að fólk geti eignast sinn eigin þjóðbúning?

„Þeir eru dýrir. Það er ekki á færi allra að eignast skartið. Í gamla daga fengu stúlkur skart í fermingargjafir og svo var búningurinn saumaður á þær þegar þær voru búnar að taka út vöxt. Þetta er að týnast í dag.“

Bjarni Benediktsson, Þóra Margrét Baldvinsdóttir, Þóra Einarsdóttir sem var fjallkonan …
Bjarni Benediktsson, Þóra Margrét Baldvinsdóttir, Þóra Einarsdóttir sem var fjallkonan 2017 og Guðríður Lína Bjarnadóttir.
Þóra Margrét Baldvinsdóttir, Guðríður Lína Bjarnadóttir og Þóra Einarsdóttir árið …
Þóra Margrét Baldvinsdóttir, Guðríður Lína Bjarnadóttir og Þóra Einarsdóttir árið 2017. Guðríður Lína var í búningi frá ömmu Guðríði.
Hjónin Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Þóra Margrét Baldvinsdóttir.
Hjónin Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Þóra Margrét Baldvinsdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál