Vinsældir Ozempic, blóðsykurslyfið sem hefur tröllriðið heiminum síðustu vikur og mánuði, hafa náð nýjum hæðum.
Tískumerkið Namilia frumsýndi nýja fatalínu á dögunum og er hún hálfgert ástarljóð til lyfsins sem nýtist einnig til grenningar og þyngdarstjórnunar.
Fatalínan var kynnt í Berlín yfir helgina og gengu þvengmjóar fyrirsætur tískupallana í flíkum og með fylgihluti með áletrunum á við „I Heart Ozempic“ og „Will Fuck For Ozempic“.
Netverjar hafa margir hverjir lýst yfir óánægju sinni með fatalínuna og segja það óviðeigandi að dásama blóðsykurslyf og megrunarkúltur sem elur á ranghugmyndum um heilbrigði.
Mikil aukning hefur verið í notkun megrunarlyfja á borð við Ozempic, Saxenda og Wegovy síðustu misseri. Hollywood-stjörnur, þar á meðal Oprah Winfrey, Mindy Kaling, Sharon Osbourne, Whoopi Goldberg og Kelly Clarkson, hafa viðurkennt að hafa notfært sér slík lyf til að grennast.