„Ég mæli með að kíkja í skápinn hjá mömmu þinni“

Sigríður Margrét Ágústsdóttir deilir góðum tískuráðum en hún er sérstaklega …
Sigríður Margrét Ágústsdóttir deilir góðum tískuráðum en hún er sérstaklega hrifin af því að versla einstakar flíkur á nytjamörkuðum. Ljósmynd/Aðsend

Markaðsfræðingurinn, áhrifavaldurinn og tískuáhugakonan, Sigríður Margrét Ágústsdóttir vinnur við að framleiða markaðsefni fyrir samfélagsmiðla. Hún blandar saman fullkomlega töff en glæsilegum flíkum í fatastíl sínum.

Sigríður er mikill tískuunnandi en hún er með B.A. gráðu í vörumerkjahönnun frá Copen­hagen School of Design and Technology og lauk meist­ara­námi í markaðsfræði við Há­skól­ann í Reykja­vík fyrir rúmlega ári síðan. Hún deilir tískuástríðunni með kærasta sínum Guðmundi Ragnarssyni, sem er með B.A. gráðu í fatahönnun frá Listaháskóla Íslands. Sigríður segir að hún kaupi föt og fylgihluti mest á nytjamörkuðum því þar sé oft að finna muni sem eru alveg einstakir og geymi jafnvel áhugaverða sögu. Að fara á nytjamarkað getur því oft verið eins og að fara í fjársjóðsleit. 

Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?

„Ég myndi segja að ég sé með fjölbreyttan stíl og elska að prófa nýja hluti. Ég versla mikið á nytjamörkuðum og tengi það síðan saman við minn eigin kvenlega blæ.“

Sigríður klæðist mikið pilsum sem auðveldlega má klæða upp eða …
Sigríður klæðist mikið pilsum sem auðveldlega má klæða upp eða dressa niður. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig klæðir þú þig dags daglega?

„Það fer eftir því í hvernig skapi ég er! Mér finnst gaman að vera vel til höfð og fín en ef það er mikið að gera hjá mér og hef lítinn tíma á morgnana, þá vel ég oft bara góðar gallabuxur og einfaldan stuttermabol eða peysu við. Ég vel samt yfirleitt góða tösku, skart eða sólgleraugu til að „spice things up.“

Flottar gallabuxur eru oft undirstaða á góðri fatasamsetningu.
Flottar gallabuxur eru oft undirstaða á góðri fatasamsetningu. Ljósmynd/Aðsend

En þegar þú ert að fara eitthvað fínt?

„Aukahlutir eins og fallegar töskur og skart finnst mér setja punktinn yfir „i-ið“ þegar ég er að fara eitthvað fínt. Ég versla mikið notaðar töskur og skart, því það er alltaf svo einstakt og bera jafnvel einhverja sögu á bakvið sig.“

Sigríður í fallegu síðu blúndu pilsi.
Sigríður í fallegu síðu blúndu pilsi. Ljósmynd/Aðsend

Fyrir hverju fellur þú oftast?

„Ég fell langt oftast fyrir vönduðum og einstökum töskum.“

Sigríður með heklaða tösku sem móðir hennar á. Oft leynast …
Sigríður með heklaða tösku sem móðir hennar á. Oft leynast gersemar í fataskápnum hjá mömmu! Ljósmynd/Aðsend

Bestu fatakaupin og af hverju?

„Antik hálsmen sem ég keypti á nytjamarkaði á Alicante í fyrra á 1 Evru. Ég hef ég notað það mikið síðan þá og finnst það mjög einstakt og fallegt.“

Sigríður í sólinni með einstakt hálsmen sem hún keypti á …
Sigríður í sólinni með einstakt hálsmen sem hún keypti á nytjamarkaði á Alicante á eina Evru. Ljósmynd/Aðsend

Verstu fatakaupin og af hverju?

„Balenciaga-strigaskór sem ég keypti fyrir nokkrum árum. Þeir eru bara merkið og ekkert annað. Ég er að selja þá inn á Regn, ef einhver hefur áhuga,“ segir hún og hlær. 

Uppáhaldsskór/fylgihlutir?

„Chimi-sólgerlaugun mín sem ég keypti í Andrá. Þau eru klassísk og passa vel við allt, þau fylgja mér eiginlega hvert sem ég fer.“

Sigríður í góðum fíling með Chimi-sólgerlaugun sín.
Sigríður í góðum fíling með Chimi-sólgerlaugun sín. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér uppáhaldsmerki/búðir til að versla í?

„Uppáhaldsmerkin mín í augnablikinu er Saks Potts, Paloma Wool, GANNI og Jacquemus þetta eru öll ótrúlega áhugaverð og vönduð merki. Merki sem eru að gera eitthvað nýtt og sem gaman er að fylgjast með bæði í hönnun og markaðsmálum.“

Sigríður fann bæði kjólinn og Dior veskið á nytjamarkaði.
Sigríður fann bæði kjólinn og Dior veskið á nytjamarkaði. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér uppáhaldsliti?

„Í augnablikinu er ég mjög hrifin af brúnum bæði í fatnaði og förðun. Ég er með græn augu, og brúnn passar því mjög vel við mig. Mér finnst mikilvægt að vita hvað hentar manni best og hvað það er sem lætur manni líða vel í eigin skinni.“

Hægt er að færa fatastílinn upp á næsta stig með …
Hægt er að færa fatastílinn upp á næsta stig með því að finna hvaða litir virkilega henta t.d. augnlit og hárlit hvers og eins. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er á óskalistanum þínum fyrir sumarið?

„Taska frá spænska merkinu, Gimaguas.“

Hvaðan sækir þú innblástur þegar þú setur saman dress?

„Ég fæ innblástur frá fólkinu í kringum mig, sem hefur mismunandi og einstaka stíla. Einnig fæ ég mikinn innblástur í gegnum samfélagsmiðla eins og Pinterest, það eru margar hugmyndir sem spretta þar upp. Á Pinterest vista ég albúm fyrir hverja árstíð og tilefni, sem auðveldar mér svolítið lífið.“

Hvítur og aðrir ljósir tónar eru fullkomin litasamsetning fyrir gott …
Hvítur og aðrir ljósir tónar eru fullkomin litasamsetning fyrir gott sumar dress. Ljósmynd/Aðsend

Ef peningar væru ekki vandamál, hvað myndir þú kaupa þér?

„Mig hefur lengi langað í fallegt „vintage“ Cartier-úr.“

Hver finnst þér vera best klæddi einstaklingurinn allra tíma?

„Fyrsta manneskjan sem mér datt í hug er Díana prinsessa. Hún hafði ótrúlegan, einstakan og fallegan stíl. Hún var einstaklega glæsileg og góðhjörtuð, sem skein í gegn.“

Sigríður í pilsi sem hún heldur mikilð uppá en hún …
Sigríður í pilsi sem hún heldur mikilð uppá en hún fann það í fataskáp móður sinnar. Ljósmynd/Aðsend

Eitthvað í lokin sem þú villt bæta við varðandi sumartískuna?

„Ég mæli með að kíkja í skápinn hjá mömmu þinni, ömmu, frænku eða vinkonu og fá eitthvað fallegt í láni fyrir sumarið í stað þess að kaupa alltaf eitthvað nýtt! Ég fann þetta fallega pils í skápnum hennar mömmu, það er örugglega meira en 30 ára gamalt og ég fæ það oft í láni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál