Hrafnhildur Lúthersdóttir, fyrrverandi ólympíufari í sundi og rekstrarstjóri hjá Iceland Soccer Travel, hugsar vel um húðina. Húðrútínan breyttist eftir að hún hætti að keppa í sundi.
Hrafnhildur byrjaði að mála sig þegar hún var í kringum 16-17 ára aldurinn en þá var það ekki mikið meira en maskari. „Ég var alltaf svo mikið í sundi og fannst það ekki taka því að mála mig ef ég þurfti svo að taka það allt af áður en ég fór á æfingu. En jú, ætli maður hafi ekki eitthvað leikið sér með málningardót móður sinnar þegar maður var yngri. Ég hef samt litað á mér augabrúnir og augnhár alveg síðan ég var 16 eða 17 ára. Ég er svo ljós í yfirlitum að ef ég geri það ekki lít ég bara út fyrir að vera veik,“ segir Hrafnhildur þegar hún er spurð hvenær hún byrjaði að mála sig.
Breyttist húðrútínan eða förðunarrútínan þín eftir að þú hættir að keppa í sundi?
„Húðrútínan breyttist mjög mikið. Ég tók mig miklu meira á að þrífa húðina almennilega og bera á mig góð krem, af því aftur, ég hugsaði svo mikið um sundið. Það tekur því ekki að setja krem ef ég er að fara á morgunæfingu, þá verður húðin bara sleip og gleraugun og sundhettan renna af. Svo tek ég mig alveg til og mála mig oftar núna en ég gerði áður.“
Hvernig hugsar þú um húðina í dag?
„Ég reyni að hugsa um húðina eins vel og ég get. Ég skola húðina með vatni á morgnana og set á mig krem og sólarvörn. Svo á kvöldin geri ég tvöfalda hreinsun, nota CeraVe Oil Cleanser fyrst og svo e.l.f. Holy Hydration Daily Cleanser. Ég enda á að setja gott augnkrem og andlitskrem. Þegar ég man eftir því og er í stuði þá bæti ég Drunken Elephant A-Passioni Retinol og Augustinus Bader augnhára- og augabrúna-serum inn í rútínuna líka.“
Hvernig málar þú þig dags daglega?
„Dags daglega er ég voðalega lítið máluð. Í mesta lagi set ég á mig smá hyljara og maskara, Benefit 24-Hour Brow Setter og bæti smá Tanologist Self Tan Drops í andlitskremið til að fá smá lit í andlit og bringu. Ég elska reyndar kinnalit því það getur poppað mann upp án þess að þurfa mikið til, og elska þá NARS Orgasm og Tarte Paaarty-kinnalitina; setja á kinnar og smá á augnlokin sem augnskugga og þá er maður „good to go“.
En þegar þú ferð eitthvað spari?
„Þá set ég nú aðeins meira á mig. Ég er samt ekki mikið fyrir að vera stífmáluð þar sem ég hef aldrei almennilega fundið vöru eða tækni til að koma í veg fyrir að húðin mín þorni alveg upp, þannig að ég elska frekar að nota „skin tint“ eða „cc krem“ fyrir smá lit og til þess að hylja. Svo nota ég nú alveg „contour“ og kremaðan kinnalit, „highlighter“ og augnskugga þegar ég er að fara rosa fínt eða gef mér tíma til. Ég elska að nota augnskugga sem augnblýant líka, það er aðeins meira fyrirgefandi en augnblýantur. Þá getur maður líka leikið sér aðeins meira með liti, notað bara brúnan ef maður vill eitthvað meira lúmskt til dæmis, eða farið í bláan ef maður vill breyta eitthvað til.“
Áttu uppáhaldssnyrtivöru?
„Ég elska e.l.f. húðvörurnar. Þær hafa virkað best á mína húð og svo eru þær ekkert of dýrar. Ég þurfti alltaf að flytja þær inn á sínum tíma, kaupa helling þegar ég fór til Bandaríkjanna í frí eða biðja vini og vandamenn um að koma með handa mér, þannig ég var mjög ánægð þegar ELF vörurnar komu í Krónuna!“
Hefur þú gert einhver förðunarmistök?
„Ég held ég hafi ekki gert mörg förðunarmistök, nema að setja meik á þurra húð, og ofgera augabrúnirnar. Mér fannst alveg gaman að gera smá tilraunir þegar ég var heima og hafði tíma þegar ég var yngri, en svo fann maður bara eitthvað sem var fljótlegt og auðvelt og hélt sér við það.“
Er einhver snyrtivara á óskalistanum fyrir sumarið?
„Summer Fridays-vörur. Mér finnst þær fallegar og góðar, og svo eru þær vegan og cruelty free sem er alltaf gott að sjá og finna. En svo ég styðji íslenskar vörur líka, þá eru Sóley Organics í uppáhaldi hjá mér, þá sérstaklega Græðir smyrsl, svo ótrúlega gott fyrir húðina.“