Í ár eru liðin 25 ár frá því að kvikmyndin Runaway Bride var frumsýnd í kvikmyndahúsum víðs vegar um heim. Stjörnuleikararnir Julia Roberts og Richard Gere fóru með aðalhlutverkin í rómantísku gamanmyndinni sem var leikstýrt af Gerry Marshall, þeim sama og leikstýrði leikurunum í kvikmyndinni Pretty Woman níu árum áður.
Runaway Bride fjallar um brúði, leikin af Roberts, sem hefur í þrígang yfirgefið brúðguma sína við altarið. Gere leikur blaðamann sem er sendur út af örkinni til að kynna sér málið nánar. Karakterar Roberts og Gere, Maggie Carpenter og Ike Graham, enda á að falla fyrir hvort öðru og ganga að lokum í hjónaband.
Kjóllinn sem Roberts klæddist í lokasenu kvikmyndarinnar er talinn einn fallegasti brúðarkjóll sem sést hefur á skjánum og hefur reglulega ratað inn á lista yfir ógleymanlega og tímalausa brúðarkjóla.
Búningahönnuður Runaway Bride var Albert Wolsky og hannaði hann alla brúðarkjólana sem Roberts klæddist, fyrir utan þann sem hún klæddist í lokasenu kvikmyndarinnar. Þann kjól fann Wolsky fyrir hreina tilviljun í verslun Saks Fifth Avenue í New York. Brúðarkjóllinn var hannaður af eþíópíska brúðarkjólahönnuðinum Amsale Aberra.
Í tilefni af 25 ára útgáfuafmæli Runaway Bride ætlum við að rifja upp brúðarkjóla Maggie Carpenter.