Vilhjálmur Bretaprins frumsýndi nýtt útlit í myndskeiði sem birtist á sameiginlegum Instagram-reikningi hans og Katrínar prinsessu af Wales.
Í myndskeiðinu, sem sýnir hjónin óska breskum ólympíukeppendum hjartanlega til hamingju með árangurinn á leikunum, skartar Bretaprinsinn nokkuð myndarlegu skeggi og virðist afslappaður og ánægður með eiginkonu sína sér við hlið.
Vilhjálmur hefur ekki borið skegg í 16 ár. Hann þurfti að raka af sér skeggið þegar hann gekk í konunglega breska flugherinn árið 2008.
Yngri bróðir Vilhjálms, Harry, hertogi af Sussex, hefur lengi vakið athygli fyrir fallegt skegg og er Vilhjálmur sagður hafa öfundað bróður sinn lengi vegna skeggvaxtarins.