Óhugnanlegt magn eiturefna í vörum frá Temu, Shein og AliExpress

Óhugnanlegt magn eiturefna hefur fundist í vörum frá netsölurisunum Temu, …
Óhugnanlegt magn eiturefna hefur fundist í vörum frá netsölurisunum Temu, Shein og AliExpress. AFP

Mikið magn eiturefna fannst í rannsókn suðurkóreskra yfirvalda á vörum frá netsölurisunum Temu, Shein og AliExpress. Fram kemur á vef AFP að bæði skór og sandalar frá fyrirtækjunum hafi mælst með óhugnanlegt magn eiturefna, eða allt frá 11 til 299 sinnum hærra magn en löglegt er. 

Netsölurisarnir hafa notið gríðarlegra vinsælda að undanförnu, en þeir eiga það sameiginlegt að bjóða upp á fjölbreytt úrval af vörum, frá fjölmörgum söluaðilum, á verði sem er lygilega lágt. Margir hafa gagnrýnt vörurnar fyrir léleg gæði og hefur grunur verið á að sumar þeirra séu framleiddar við óviðunandi aðstæður. 

Efnin geti haft skaðleg áhrif á heilsuna

Í rannsókninni voru alls 144 vörur prófaðar frá netsölurisunum þemur og í ljós kom að margar þeirra uppfylltu ekki lagalega öryggisstaðla. Mikið magn af þalötum (e. phthalates) fundust í sumum Shein skóm, en efnið er notað í plast til að mýkja það og gera sveigjanlegra. 

Í einu Shein skópari var magn efnisins til að mynda 299 sinnum hærra en leyfilegt hámark samkvæmt lögum, en þalöt er á lista yfir varasöm efni sem geta verið skaðleg fyrir heilsu og umhverfi á vef Umhverfisstofunnar Íslands. Þar kemur fram að þalöt geti haft áhrif á hormónastarfsemi, frjósemi og insúlínviðnám, en einnig aukið líkur á offitu, astma og ofvirkni/athyglisbrest. 

Þá fannst einnig hærra magn eiturefna en leyfilegt er í vörum frá Temu. Til dæmis voru þar á sölu sandalainnlegg með 11 sinnum hærra magni af blýi en leyfilegt er. Blý getur aukið líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, krabbameini, æxlunarvandamálum, kvillum í ónæmiskerfinu, truflað nýrnastarfsemi, skaðað taugakerfið, valdið blóðleysi eða skorti á rauðum blóðfrumum.

Fundu einnig eiturefni í barnavörum og -fötum

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem mikið magn eiturefna finnst í vörum frá netsölurisunum, en í maí síðastliðnum var greint frá því á AFP að suðurkóresk yfirvöld hefðu fundið Shein skópar sem innihélt 428 sinnum leyfilegt magn þalöta. Þá mældist einnig mikið magn eiturefna í vörum eins og barnaskóm, leðurtöskum og beltum frá fyrirtækinu.

Í júní síðastliðnum var svo lögð fram krafa frá Evrópusambandinu um að Shein og Temu útskýri til hvaða aðgerða þeir hyggist grípa til að vernda neytendur, þar á meðal vörn. 

Vörur frá netsölurisunum eru ekki einungis taldar geta verið slæmar fyrir heilsuna heldur líka fyrir umhverfið. Íslenskar endursöluverslanir, eins og Hringekjan og Rauði Kossinn, hafa í auknu mæli hætt að taka á móti vörum frá verslunum eins og Temu og Shein. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál