Röndótta rugby-peysan sem fjölmiðlamaðurinn Stefán Einar Stefánsson klæðist gjarnan hefur vakið mikla athygli síðustu daga. Svo mikla að þær Kristín Gunnarsdóttir og Ólöf Skaftadóttir, sem halda úti vinsæla hlaðvarpinu Komið gott, fjölluðu um hana í nýjasta þættinum sem kom út í gær. Þar segja þær Stefán Einar eiga sér augljósa tískufyrirmynd.
„Ég hef náttúrulega verið dálítið hrifin af því að hann hefur verið að taka að sér, eða er greinilega inspíreraður af hans tísku-íkoni sem virðist vera Wayne Rooney,“ segir Ólöf.
„Ég hef séð þegar þeir eru stundum með svona opin hlaðvörp eða live-podcöst, en þar er hann SES að vinna með ólíka liti af rugby-skyrtunni. Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um þetta. Ég er ekki að hafna þessu eða neitt svona en ég er bara að benda á hið augljósa og það er að hann er með stæl-íkon sem heitir Wayne Rooney.“
„Eins og þú segir með litina. Þetta er eins og Angela Merkel með jakkana, þetta er landamæraleysi í litavali,“ bætir Kristín við.
Peysan er frá Polo Ralph Lauren og fæst í Herragarðinum í nokkrum litaútfærslum.