Læknaði sig af sjálfsofnæmi á átján mánuðum

Draumur Danielle um að sjá norðurljósin rættist í heimsókninni til …
Draumur Danielle um að sjá norðurljósin rættist í heimsókninni til Íslands. Ljósmynd/Elísabet Blöndal

Danielle Collins er frumkvöðull í andlitsjóga og hefur starfað í þeim bransa í yfir tuttugu ár. Þegar hún var rúmlega tvítug og nýútskrifuð sem kennari veiktist hún illa og var greind með sjálfsofnæmi. Hún var rúmföst og fór lítið sem ekkert út fyrir heimilið. Í kjölfarið kynntist hún jóga og lífið breyttist til hins betra.

Þetta var fyrsta heimsókn Danielle til Íslands en hún kom til landsins á vegum húðvörumerkisins BIOEFFECT þegar nýja augnkremið þeirra var kynnt til leiks. Ósk hennar við komu hingað til lands var að sjá norðurljósin sem rættist síðar sama kvöld.

„Ég ætlaði alltaf að verða kennari. En svo veiktist ég og fór frá því að vera einhver sem var alltaf mjög upptekin og stressuð í það að þurfa að hætta öllu. Ég var alls ekki fyrir neina heildræna nálgun eða jóga. En læknarnir sögðu mér að ég gæti lítið gert við sjálfsofnæminu, ég myndi annað hvort komast yfir það innan nokkurra vikna eða þurft að lifa með því alla mína ævi,“ segir Danielle.

„Mér var svo ráðlagt að prófa jóga. Það eina sem ég gat gert í upphafi var djúpöndun og léttar teygjur upp í rúmi því ég var svo þjáð. En um leið og ég byrjaði á þessu þá fór ég að læknast smám saman.“

Jóga átti hug hennar allan og trúði hún að það myndi hjálpa sér. „Ég hugleiddi, gerði öndunaræfingar, létt jóga, nálastungur og hitti lífsþjálfa. Ég vildi gera hvað sem er til að lækna sjálfa mig að innan og trúði því að það myndi smitast út á við. Ég tel mig hafa gengið í gegnum þetta að ástæðu því ég vildi alltaf hjálpa og kenna öðrum. Þetta breytti vegferðinni og sýndi mér hvað ég átti í rauninni að vera að gera.“

Danielle tókst að losa sig við sjálfsofnæmið að fullu á innan við átján mánuðum. „Ég fór frá því að vera rúmföst yfir í að vera heilbrigðari og ánægðari sem aldrei fyrr. Í kjölfarið fór ég að kenna slökun, jóga, hugleiðslu og bætti við mig þekkingu.“

Danielle er frumkvöðull í andlitsjóga.
Danielle er frumkvöðull í andlitsjóga. Ljósmynd/Elísabet Blöndal

Fáir möguleikar fyrir andlitið

Hún sótti meðal annars námskeið í jógakennslu, næringarfræði, andlitsnuddi og hefur reynt að bæta við sig einu námskeiði á hverju ári síðan þá. Hún fór fljótlega að taka eftir því að fólk spurði hana út í hvað hægt væri að gera fyrir andlitið með jóga.

„Fyrir tuttugu árum síðan voru fáir möguleikar. Það var ekki sama úrval af húðvörum, það voru engir samfélagsmiðlar og fólk gat ekki nálgast upplýsingar. Fáir voru að fá sér bótox eða sækja svipaðar meðferðir, ég veit hreinlega ekki hvort það var til þá, en það var mikið af fólki sem var hrifið af jóga og þessari heildrænu nálgun á fegurð. Ég man eftir því að hafa hugsað með mér þegar ég var að læra jógakennarann hversu fáránlegt það er að við lærum allt um líkamann frá hálsi og niður en við erum með 57 vöðva í höfðinu, andliti og hálssvæðinu sem við gerum í raun ekkert við. Svo ég fór að kanna málið betur,“ segir hún.

Danielle setti saman nokkrar æfingar sem hún prófaði í lok jógatímans. „Í lok hvers tíma gerðum við nokkrar mínútur af andlitsjóga og þannig byggði ég þetta upphaflega upp. Ég hef verið svo heppin síðan þá að geta kennt þetta um allan heim,“ segir hún og brosir.

Á síðustu tuttugu árum hefur Danielle gefið út tvær bækur, heldur reglulega vefnámskeið, deilir myndskeiðum á Youtube, er virk á samfélagsmiðlum og heldur viðburði um allan heim.

„Áður en ég átti börn hélt ég mun fleiri viðburði. Ég kenndi vikum saman á Maldive-eyjum sem var dásamlegt en síðustu tíu ár hef ég minnkað þetta. Ég vinn mjög mikið með húðvörumerkjum, bæði í Bretlandi og annarsstaðar eins og hér í dag.“

Hún náði að lækna sjálfa sig af sjálfsofnæmi með ýmsum …
Hún náði að lækna sjálfa sig af sjálfsofnæmi með ýmsum aðferðum. Ljósmynd/Elísabet Blöndal

Kýs ekki bótox eða fyllingarefni

Þegar hún fór að kenna andlitsjóga fyrst var enginn annar að gera þetta eins og hún að hennar mati. „Margir þættir koma frá hefðbundnu jóga og kínverskri læknisfræði svo auðvitað hefur fólk verið að nota þessar aðferðir um árabil. En enginn hafði sett þetta saman eins og ég, í eitthvað sem fólk gæti gert á auðveldan hátt heima hjá sér og með aðgengilegri umfjöllun og kennslu.“

Hvað tekur langan tíma að sjá árangur í andlitsjóga?

„Það er misjafnt eftir fólki og það er margt sem spilar inn í. Það mikilvægasta af öllu er að halda takti og hafa samræmi. Reyndar myndirðu alveg sjá mun eftir eitt skipti, þá tækir þú eftir því að húðin er frísklegri og það er minni spenna í vöðvum. En með því að gera smá á hverjum degi þá ferðu að sjá árangur eftir viku til tvær, fínni línur hverfa og andlitið er mótaðra. Ef að fólk er með dýpri hrukkur þá gæti það tekið nokkra mánuði að jafna það út. Þetta er alls engin skyndilausn en það sem þetta gerir er að húðin batnar með hverjum deginum.

Margir velja bótox eða fyllingarefni og þó ég sé að sjálfsögðu ekki á móti því þá er það ekki eitthvað sem ég geri sjálf. En þeir sem ákveða að fara þá leið sjá yfirleitt árangur mjög fljótt sem er síðan fljótt að hverfa. Þá verður að fara aftur.“

Heldurðu að það sé í alvöru hægt að hægja á öldrun húðarinnar?

„Það fer auðvitað eftir mörgu eins og hversu oft þú stundar andlitsjóga. Lífsstíllinn hefur líka gríðarleg áhrif. Stundum sé ég konu á sextugsaldri og tek eftir því að hún lítur út fyrir að vera fimm til tíu árum yngri eftir viku. En ég hef líka séð fólk um tvítugt sem sjá ekki jafn góðar niðurstöður og ég held að lífsstíllinn komi þar inn í. Þetta er heildræn nálgun og andlitsjóga er áhrifamikið en það þarf líka að hugsa um svefninn, minnka streitu, drekka nóg af vatni, borða hollan mat og vernda húðina fyrir sólinni.“

Hefurðu áhyggjur af gríðarlegum vinsældum bótox- og fyllingarefna í dag?

„Nei, svo sem ekki. Ég tek auðvitað eftir mikilli aukningu en kannanir sýna að þetta er vaxandi iðnaður. En á hinn bóginn er líka meiri áhersla á náttúrulega fegurð, snyrtivörumarkaðurinn er í miklum vexti og líka blíðari andlitsmeðferðir. Mér finnst það frábært því það þýðir að það er eitthvað fyrir alla. Þetta er kannski í fyrsta sinn í sögunni sem konur eiga val um hvað þær ákveða að gera við andlitið á sér, hvernig lífsstíl þær lifa og hugsa um líkamann sinn. Svo þegar kemur að bótox og fyllingarefnum, svo lengi sem að einstaklingurinn er mjög meðvitaður um þetta og fer til réttu húðlæknanna þá er það hans val. En ég býð upp á aðra og náttúrulegri lausn. Sumir af mínum viðskiptavinum gera bæði, bótox og andlitsjóga. En ég myndi þó segja að flestir sem stunda andlitsjóga eru að leita að öðrum náttúrulegri valkosti.“

Finnur tíma þegar börnin sofa

Hvernig er best að byrja?

„Ég mæli alltaf með að fólk byrji smátt, finni sér eina til tvær æfingar og aðeins í tvær til þrjár mínútur á dag. Koma þessu hægt inn í rútínuna, til dæmis þegar þú ert að þrífa þig í framan á kvöldin eða á morgnana. Svo ef þú getur byggt þetta upp í tíu til tólf mínútur á dag þá er það frábært. Ég er tveggja barna móðir og morgnarnir mínir eru erilsamir svo ég get lítið gert þá. En á kvöldin þegar börnin eru sofnuð þá hef ég meiri tíma fyrir lengri rútínu. Tíu mínútur á hverjum degi gera mjög mikið.“

Hvert ert markmiðið þitt?

„Ég vil að fólk sé besta útgáfan af sjálfum sér. Ég trúi því innilega er að það sjáist utan á okkur hvernig okkur líður innra með. Ég kenni þér að styrkja andlitsvöðvana og nudda húðina en þetta kemur mest innan frá. Ég vil hjálpa fólki með heilsuna og almenna vellíðan.“

Hún segir samfélagsmiðla hafa breytt heiminum hennar mjög mikið. „Þegar ég byrjaði eyddi ég miklum tíma í að koma mér að í tímaritum og sjónvarpsþáttum, þannig kom ég mér upphaflega á framfæri. En á síðustu tíu til fimmtán árum hefur þetta þróast í þá áttina að það er bókstaflega hægt að taka símann úr vasanum, taka upp myndskeið og hlaða því á vefinn á nokkrum mínútum.“

Aukin samkeppni með komu samfélagsmiðla hefur þó ekki haft áhrif á velgengni hennar. „Það skiptir miklu máli að vera trúr sjálfum þér og vera ekta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda