Haustið er komið hjá Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra sem var með litasamsetninguna upp á tíu á dögunum.
Þórdís klæddist ljósbrúnni ullarkápu, vínrauðri rúllukragapeysu undir og var með koníakslitaða leðurtösku. Kápan er að öllum líkindum frá ítalska tískuhúsinu Max Mara sem hefur framleitt þessa kápu í áraraðir. Kápan nefnist Pauline ullarkápa og er úr 100% doublefaced-ofinni ull. Kápan fæst í aðeins dekkri kamelbrúnum lit í versluninni EVU núna og kostar 129.995 krónur.
En hvað er doublefaced-ullarefni?
Yfirleitt þegar efni eru ofin þá er talað um réttu og röngu eða framhlið og bakhlið. En þegar doublefaced-efni eru ofin þá eru tvö lög af efninu ofin saman á þann hátt að efnið lítur alveg eins út báðum megin. Því þarf ekki fóður í yfirhafnir úr þessu efni. Þessi efni þykja sterkari, eiga að endast betur en eru yfirleitt dýrari.
Undir kápunni var Þórdís í vínrauðri rúllukragapeysu sem hún hefur eflaust keypt á ferðalagi. Mjög svipuð peysa er til í spænsku versluninni Massimo Dutti. Hún kostar rúmlega 7.500 krónur á vefsíðu Massimo Dutti og er úr 95% ull og 5% kasmír-ull.
Taska Þórdísar er frá Coach og er úr koníaksbrúnu leðri. Hún er nokkuð stór og ætti að rúma fartölvu. Taskan er þó ekki úr nýjustu línu tískuhússins sem hefur uppfært lógó-ið þessa árstíðina. Það er spurning hvort hún hafi keypt hana á Boozt, þar sem upptekna fólkið verslar fötin sín, en svipaða tösku frá Coach má finna þar á rúmlega 45 þúsund krónur.