Hönnuðurinn Kei Toyoshima á heiðurinn af nýrri línu frá íslenska útivistarmerkinu 66°Norður. Toyoshima er hönnuður hjá Louis Vuiotton en hann hefur einnig starfað fyrir Bottega Veneta og fleiri þekkt tískuhús. Hann er japanskur og var ráðinn inn sem listrænn stjórnandi hjá 66°Norður og er þessi nýja lína afrakstur þess samstarfs.
Vörulínan er tileinkuð kríunni og ferðalagi hennar með skírskotun í lífstíl ferðalanga í huga. Krían hefur verið áberandi í áratugi á fatnaði fyrirtækisins og er engin breyting þar á en Kríu logo-ið og 66°Norður á íslensku í formi texta eru áberandi á flíkum og einnig má finna grafískt mynstur byggt á kríueggjum.
Vörulínan er að mörgu leiti nýstárleg en er þó söm við sig og heldur í gamlar hefðir en fyrirtækið var stofnað 1926. Í línunni má finna vörur sem hægt er að klæðast á réttu og röngunni með mismunandi útliti og notagildi líkt og Ægisíða úlpan og Ægisíða jakkinn.
Einnig má finna vörur sem byggðar eru á vinnufatnaði og úlpum sem hafa verið í vörulínum 66°Norður í gegnum tíðina.