Fanney Ingvarsdóttir, áhrifavaldur og markaðsfulltrúi hjá BIOEFFECT, gifti sig í Reykjavík í lok ágúst á þessu ári. Brúðarkjólinn fékk hún í verslun hér á landi en hún hélt lengi vel að hún þyrfti að fara til útlanda til að finna hinn fullkomna kjól. Þótt hún hafi haft skýra hugmynd í upphafi um hvaða kjól hana langaði að klæðast breyttist það mikið þegar hún fór að máta mismunandi snið.
„Ég hafði augastað á nokkrum kjólum en sniðin á þeim voru öll mjög ólík. Draumakjóllinn minn var lengi langerma silkikjóll, stílhreinn en elegant með fallegum smáatriðum á ermunum. Skemmst er frá því að segja að kjóllinn sem ég gifti mig í var svo nánast andstæðan við hann,“ segir Fanney.
Hún segist þó ekki hafa haft mjög sterkar skoðanir í upphafi en lært mikið. „Skoðanir mínar breyttust kannski ekki sérlega mikið, ég var ekki með nægilega sterkar skoðanir fyrir svo ég held það sé eðlilegra að orða það svoleiðis. Ég lærði í hverju mér leið best og spáði mikið í efni og smáatriði, hvað ég vildi og hvað ég vildi ekki. Þegar úrvalið er mikið þá spilar „gut-feeling“ stóran hluta í þessari ákvörðun.“
Fanney segist hafa mátað marga mismunandi kjóla. „Í minni fyrstu heimsókn mátaði ég mismunandi kjóla í ólíku sniði. Ég fór í Loforð þar sem Íris og Ásdís höfðu fundið kjóla fyrir fyrstu heimsóknina mína og tilgangurinn með því var að finna í hverju mér liði best. Kjóllinn sem mér þótti heillandi á mynd er ekki endilega flottasti kjóllinn þegar komið er í hann og kjóllinn sem ég hefði ekki endilega gripið mann í fyrstu er stundum kjóllinn sem kemur hvað mest á óvart,“ segir Fanney.
„Pælingarnar sem maður er með í upphafi breytast iðulega þegar byrjað er að máta og því er mikilvægt að fara inn í ferlið með opinn hug og byrja á að finna rétta sniðið sem hentar.“
Hvar fannstu kjólinn að lokum?
„Í Loforði. Ég fór til þeirra strax í upphafi og var frekar blaut á bak við eyrun og vissi lítið hversu gott úrval væri í boði á Íslandi. Ég var fljót að átta mig á því að þar var allt sem ég þurfti og meira til, þjónustan og vinnubrögðin algjörlega til fyrirmyndar og úrvalinu aldeilis ekki ábótavant. Í minni fyrstu heimsókn fann ég kjólinn, þegar ég bjóst hvað minnst við því. Ég var með mömmu, systrum mínum og nánustu vinkonum og allar með tölu voru sammála um að kjóllinn væri fundinn. Ég svaf auðvitað á því dágóðan tíma og satt best að segja þótti mér heldur erfitt að hugsa að mögulega væri þetta bara ákveðið – mér leið eins og þessi ákvörðun hefði þurft að vera erfiðari. Ég fór aftur í Loforð rúmlega mánuði síðar, mátaði enn fleiri snið en hver mátun gerði mig öruggari með ákvörðunina, mér snerist aldrei hugur.“
Eftir fyrstu mátun var hún með það á bak við eyrað að mögulega væri brúðarkjóllinn fundinn. Hún fór því beint og heimsótti heimasíðu framleiðandans til að skoða kjólinn betur. „Myndirnar sem ég fann af kjólnum höfðuðu í sannleika sagt alls ekki til mín og ef ég hefði séð þær áður hefði ég mögulega útilokað kjólinn fyrir fram. Sem undirstrikar aftur að fara inn í ferlið með opinn hug. Myndir segja alls ekki allt.“
Þú skiptir um kjól í miðri veislu, hver var ástæðan fyrir því?
„Já, ég tók þá ákvörðun heldur seint í ferlinu. Það stóð ekki til hjá mér að skipta um kjól en eftir því sem nær dró brúðkaupi fór hugurinn að reika þangað. Bæði dönsuðum við brúðardans, sem hefði verið erfitt í síða kjólnum, eins fannst mér tilhugsunin að standa í fína brúðarkjólnum mínum í brjáluðu partíi á dansgólfinu um kvöldið, fá jafnvel yfir mig óvænt rauðvínsglas, töluvert eðlilegra í „partívænni“ kjól. Ég skipti fyrir brúðardansinn og partíið hófst á dansgólfinu strax í kjölfarið. Mér fannst það ótrúlega skemmtilegt móment að koma fram í nýja kjólnum.“
Fyrsta mátunin fór fram í desember í fyrra. Í lok janúar þessa árs fór Fanney aftur í mátun og negldi ákvörðunina niður. Í kjölfarið tóku við mælingar og kjóllinn loks pantaður. „Kjóllinn lenti svo hjá Loforði snemma í júlí minnir mig. Ég mæli með að vera tímanlega því biðin eftir að kjóllinn er pantaður er oft nokkrir mánuðir.“
Varstu ánægð með ákvörðunina sem þú tókst að lokum eða hefðirðu viljað gera eitthvað öðruvísi?
„Svo sannarlega, ég hefði ekki getað verið ánægðari. Mér fannst kjóllinn nánast eins og sniðinn á mig og draga fram það besta. Mér leið ótrúlega vel í honum. Efnið fannst mér elegant, það gerði mikið fyrir mitt auga og eins þótti mér skemmtilegur fídus hvernig hann kom með óvæntum smáatriðum. Kjólnum fylgdi aukapils sem hægt var að festa aftan á kjólinn. Ég gekk inn kirkjugólfið með pilsið á. Fyrir vikið var kjóllinn meiri, með lengra slör og aðeins meiri dramatík. Þegar við komum í veisluna tók ég svo pilsið af, sem mér þótti passa betur þar. Mér fannst kjóllinn endurspegla mig og minn stíl að mörgu leyti og ég er svo þakklát fyrir að hafa fundið slíkan kjól. Kjól sem ég sé fyrir mér að ég muni horfa á í framtíðinni og alltaf þykja fallegur. Klassískur en í senn elegant, með fallegum smáatriðum og algjörlega tímalaus.“
Hvaða ráð myndirðu gefa öðrum sem eru að fara af stað í þetta ferli?
„Ég myndi alltaf segja að byrja á að máta mismunandi snið og finna í hverju þér líður best. Þegar þú ert nokkurn veginn komin með hugmynd að því nærðu að útiloka ansi margt og einblína á úrvalið af þessu tiltekna sniði. Eins og ég hef nefnt finnst mér ótrúlega mikilvægt að fara inn í ferlið með opinn hug því kjóllinn sem þú varst búin að sjá fyrir þér er ekki endilega sá sem kemur best út þegar þú byrjar að máta. Mitt ráð er fyrst og fremst að velja snið sem þér líður vel í. Það er mikilvægast af öllu, og fá góðar og faglegar ráðleggingar frá fagfólki. The „gut feeling“ hefur sjaldnast rangt fyrir sér.“