Kominn aftur í hárbransann eftir tveggja ára hlé

Ásgeir notar sköpunargleðina á sýningum sem þessum.
Ásgeir notar sköpunargleðina á sýningum sem þessum. Ljósmynd/Axel Þórhallsson

Ásgeir Hjartarson hárgreiðslumeistari hefur verið heillengi í hárgreiðslubransanum. Hann lærði hárgreiðslu í Iðnskólanum, starfaði hér á landi en einnig í Mílanó í Ítalíu. Þá opnaði hann hárgreiðslustofu árið 2002. Hann sinnti mörgum mismunandi verkefnum en fyrir nokkrum árum skipti hann um gír og opnaði veitingastað. Nú er hann kominn aftur í hárbransann eftir tveggja ára hlé og lokaði nýverið viðburði á vegum Hársnyrtifélags Norðurlands með hressandi tískusýningu.

„Ástæðan fyrir því að ég er kominn aftur í hárbransann er sú að þetta er mín ástríða. Að skapa og vesenast í tísku og öðru sem tengist faginu. Ég prófaði veitingarekstur og opnaði stað sem var gamall draumur en ákvað svo að láta gott heita. En það fer bara í gamla góða reynslubankann,“ segir Ásgeir sem klippir nú á Ungrú Reykjavík í miðbænum.

Ísabella Þórólfsdóttir sá um förðunina í samstarfi við Ásgeir.
Ísabella Þórólfsdóttir sá um förðunina í samstarfi við Ásgeir. Ljósmynd/Axel Þórhallsson

Ímyndunaraflið fær að njóta sín

„Ég hef verið heppinn í gegnum tíðina með spennandi verkefni og hef mundað skærin og greiðuna á ýmsum vígstöðum ásamt því að vera með mínar eigin sýningar. Ég hef unnið við tónlistarmyndbönd, bíómyndir, tónleika, ljósmyndatökur, tískublöð, fyrstu uppfærslu Töfraflautunnar í Hörpu, verið með minn eigin tískuþátt, tekið þátt í listviðburðum með mína eigin hönnun og svo mætti lengi telja.“

Hann segir mikilvægt að geta tekið þátt í hársýningum eins og þessari á Akureyri á dögunum.

„Sérstaklega fyrir mig þar sem ég fæ ekki oft tækifæri á því að gera svona útlit. Þar sem ég get látið ímyndunaraflið ráða og hleypa listagyðjunni af stað. Ég einfaldlega elska að gera svona sýningar.“

Geturðu sagt mér aðeins frá sýningunni?

„Ég var beðinn um að loka viðburði á vegum Hársnyrtifélags Norðurlands, Halldórs Jónssonar heildsala & Sebastian Pro-vörumerkisins á Íslandi. Ég var með þrjár fyrirsætur í avant-garde stíl. Ég fæ innblástur alls staðar en þessi tilteknu útlit endurspegluðu það sem mér finnst flott en að sama skapi vildi ég hafa þær ólíkar,“ útskýrir Ásgeir. „Ég hefði ekki getað framkvæmt þetta nema fá hina og þessa hluti lánaða frá vinum mínum.“

Rauði kjóllinn er frá Ýr - Another Creation.
Rauði kjóllinn er frá Ýr - Another Creation. Ljósmynd/Ásgeir Þórhallsson.

„Tjull-hanakamburinn var óður til fegurðinnar. Ég varð að hafa einn hanakamb í sýningunni til að standa undir nafni,“ segir Ásgeir og brosir.

Ljósa stykkið er frá fatahönnuðinum Sigurey Reynis.
Ljósa stykkið er frá fatahönnuðinum Sigurey Reynis. Ljósmynd/Axel Þórhallsson

„Ljósi kjóllinn og franska slörið er innblásið af John Galliano fatahönnuði. Ég held alltaf mikið upp á hann og hef alltaf langað til að gera útlit með frönsku slöri. Útlitið föndraði ég sjálfur þar sem ég fann ekki neitt hér á landi sem hentaði.“

Ásgeir föndraði grímuna fyrir þetta útlit.
Ásgeir föndraði grímuna fyrir þetta útlit. Ljósmynd/Axel Þórhallsson

„Þriðja módelið er svo algjör spegill á mig sem hárgreiðslumeistara þegar ég fer í listagírinn. Mikið pönk, rokk og ról, aggressívt-útlit. Ég reif forláta jakka sem ég átti og setti keðjur og dót á hann. Svo gerði ég grímuna algjörlega sjálfur úr hinum ýmsu skartgripum sem mér áskotnaðist. Þetta er innblástur frá Alexander McQueen sem ég dýrka. Einnig var ég undir áhrifum frá Kanye West og Lady Gaga,“ segir Ásgeir. 

En hvernig er hártískan fyrir hátíðarnar?

„Hún er frekar látlaus að mínu mati. Það eru mikið af konum sem vilja rómantíska liði í hárið. Há og lág tögl eru alltaf vinsæl og jafnvel má setja fallegan borða utan um til hátíðarbrigða. En númer eitt, tvö og þrjú er að vera með fallega klippt hár, heilbrigt og glansandi. Allar greiðslur þurfa að vera í þannig formi að þær fari manneskjunni vel miðað við andlitsfall.“

Ásgeir ásamt fyrirsætunum Jónu Dóru Hólmarsdóttur, Lilju Kristjánsdóttur og Andie …
Ásgeir ásamt fyrirsætunum Jónu Dóru Hólmarsdóttur, Lilju Kristjánsdóttur og Andie Axels. Ísabella Þórólfsdóttir sá um förðunina. Ljósmynd/Axel Þórhallsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda