Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem veltir „reykingahrukkum“ fyrir sér. Er hægt að gera eitthvað til að losna við þær?
Blessuð Jenna.
Ég er búin að fara í laser þrisvar á efri vörinni til að minnka hrukkur (ég hef aldrei reykt). Þessi meðferð hefur engan árangur borið. Er eitthvað annað hægt að gera til að minnka þessar hrukkur? Ég vil ekki fá fyllingu í varir.
Kveðja,
LI
Sæl og takk fyrir spurninguna.
Þessar línur kringum muninn sem á fagmálinu kallast „perioral lines“ og eru oft í daglegu tali ranglega kallaðar reykingarhrukkur geta verið erfiðar ef þær eru orðnar djúpar. Þetta er eitt algengasta vandamálið sem við fáum til okkar á húðmeðferðardeildina okkar á Húðlæknastöðinni.
Ég vil einmitt byrja á að segja að þessar línur tengjast ekki beint reykingum þó vissulega reykingar hafi ekki jákvæð áhrif á þær. Þetta eru línur sem myndast með aldri í húðinni sem byrjar að slappast yfir þessum stóra hringvöðva sem er í kringum varirnar á okkur.
Orsökin er margvísleg, tengist þó aðallega sólarnotkun yfir ævina og svo erfðum. Það er langfarsælast að byrja snemma að meðhöndla þessar línur og í rauninni best að fyrirbyggja að þær myndist því ef þær ná að verða mjög djúpar getur verið mjög erfitt að meðhöndla þær.
Ég gef mér að þínar línur séu orðnar djúpar þar sem þú nefnir að þú hafir farið þrisvar sinnum í laser og lítill árangur. Því miður nefnir þú ekki hvaða tegund af laser þú fórst í en það gæti gefið mér miklar upplýsingar. Í rauninni eru bara tvær lasermeðferðir sem virka á þessar djúpu línur og það er djúpur Erbium ablatífur laser eða CO2 laser. Þetta eru mjög kröftugar meðferðir þar sem húðin verður rauð og bólgin upp undir viku eftir meðferðina. Þessar meðferðir eru í boði hjá húðlæknum.
Það eru einnig aðrar meðferðir til sem geta hjálpað til og ég sjálf nota oft mjúk fylliefni oftast í blöndu með toxínum, sérstaklega ef það er ósk um að árangurinn komi fljótt. Þá er ég ekki að tala um í varirnar sjálfar, þó það geti vissulega hjálpað heilmikið til, heldur húðsvæðið kringum varirnar.
Stundum hjálpar það eitt og sér en er þá alltaf fremur tímabundinn árangur og þarf að endurtaka reglulega. Þess vegna hvet ég alla til að fara í djúpa laserinn því þó að árangurinn gæti tekið tíma að koma fram þá er hann áhrifaríkastur og gefur besta langtímaárangurinn. Hvet þig til að panta viðtal hjá sérfræðistöð, það er að segja meðferðarstöð sem er með húðlækna starfandi, til að fá meðferðarplan sem hentar þér.
Gangi þér vel!
Kveðja,
Jenna Huld Eysteinsdóttir.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Jennu Huld spurningu HÉR.