Yfirskyrtan eða þykk skyrta er flík sem á heima í fataskáp karlmanna. Hún er mjög klassísk, það er hægt að nota hana ótal marga mismunandi vegu og er uppáhald margra.
Er þetta skyrta eða jakki? Í raun bæði. Það fer eftir veðri og síðan efninu í skyrtunni. Í verslunum landsins er breitt úrval en það eru nokkrir hlutir sem þarf að hafa í huga.
Ef þessi skyrta á að vera notuð í vinnu og við fínni tilefni þá er gott að eiga stílhreina, einlita skyrtu úr ullarefni yfir vetrartímann. Þá er nóg að fara í þægilegan stuttermabol undir og í frakka yfir ef það er kalt úti. Köflótt skyrta í þessum stíl á svo yfirleitt betur við um helgar þegar fötin eru örlítið afslappaðri. Skyrtur sem þessar eru yfirleitt hnepptar en svo er hægt að finna útgáfur með rennilás sem gerir skyrtuna sportlegri.