Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur er með ólæknandi fatadellu. Hún passar fötin sín eins og gull og lætur stagla í þau þangað til þau eiga ekkert eftir. Hún segist hafa fengið mikinn skvísu-innblástur frá Vigdísi Finnbogadóttur og segir að fataáhugi hafi hjálpað henni að klæða sögupersónur í gegnum tíðina, ekki síst í nýjasta verki sínu, Skálds sögu, en hún hefur þeyst um ritvöllinn í 60 ár.
„Nú spyrðu mig í þaula, eins og mamma hefði sagt. Ég tek svo lítið eftir þessu fæðingarári mínu, held bara áfram að gera það sem ég hef alltaf gert. Bara leitt ef ártalið flækist fyrir öðrum en mér þegar kemur að því að meta verk mín. Almennt sýnist mér ekkert í lífinu vera eins og maður hugsanlega sér það fyrir. Svo ég nefni það að missa foreldri. Alveg sama hvað viðkomandi foreldri væri gamalt, örvasa, þetta eru stór og sorgleg kaflaskil fyrir afkvæmið, miklu stærri og meiri en hægt er að gera sér í hugarlund fyrir fram. Og þegar bæði eru farin er afkvæmið munaðarlaust, sama hvað það er rígfullorðið,“ segir Steinunn spurð að því hvernig það sé að eldast, en hún er fædd 1950 og varð 74 ára í ágúst.
Ætlar þú að skrifa endalaust?
„Ég hef aldrei ætlað mér neitt á minni skáldskaparævi. Annað en að gera hvert verk úr garði eins vel og ég get, þótt það ætli að gera mig vitlausa. Ýmislegt ætlaði ég mér ekki. Ég ætlaði mér til dæmis ekki að verða skáld út í eitt þótt ég væri orðin þriggja bóka höfundur, eins og ég segi frá í Skálds sögu. Núna ætla ég mér ekki að halda áfram að skrifa, ekkert sérstaklega, en það bendir allt til þess að ég muni gera það samt sisona, þangað til ég dett um koll, af því að mig langar til þess, af því að það gerir lífið þess virði að lifa því.“
Steinunn hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna BÓL sem kom út í fyrra, fyrst skrifandi kvenna til að fá verðlaunin öðru sinni.
„Mér finnst það vera nokkurs konar sigur fyrir okkur, ekki bara mig. Í fyrra skiptið var verðlaunabókin Hjartastaður. Þessar skáldsögur báðar eiga það sameiginlegt, reyndar eins og flestar mínar, að söguhetjan er kona í kröppum dansi. En mig langar til að trúa því að ég hafi á minn hátt lagt af mörkum til að kortleggja kvendóminn. Vonandi smá lóð á vogarskálar kvenfrelsis,“ segir Steinunn, sem klæddist við verðlaunaafhendinguna kímonó sem keyptur var í Tókýó 1993.
„Ég þurfti að láta lappa upp á kímonóinn hér í Senlis, laga saumsprettur,“ segir Steinunn, sem býr í þessum franska smábæ hluta af árinu. „Ég sæki stíft til skraddara, svo stíft að það hefur komið fyrir oftar en einu sinni og tvisvar að þeir hafi neitað mér um þjónustu þar sem viðkomandi flík væri of langt gengin fyrir viðgerð. Það er ekki bara af aðsjálni sem ég læt gera við fötin okkar hjóna. Mér finnst gaman að veita skraddaranum vinnu og svo sparar það tímann í búðinni. Ég hef nú orðið talsvert minna gaman af því að froðsa í fatabúðum heldur en hér fyrr meir. Þorsteinn minn er algjörlega frábitinn slíkum stofnunum og rifjar upp með hrolli þegar ég nánast ýtti honum inn í eina útsöluna hér í Senlis. En þaðan fór hann með fatabunka á niðursettu verði sem entist svo árum saman. Varðandi minn klæðnað er Þorsteinn svo óheppinn að hafa mjög glöggt auga fyrir því hvað klæðir mig og hvað ekki, þannig að hann hefur stundum þurft að kveljast sem dómari í kvenfatabúðum,“ segir Steinunn og heldur áfram:
„Nú, áfram með Bessastaðakímonóinn, undir honum var ég líka í sögulegri flík, plíseruðum síðkjól sem ég keypti í COS í Strassborg, þegar ég bjó þar. Svo kom útsala og ég keypti mér tvo í viðbót fyrir kanil, og á nú svona kjól bæði í Frans og á Íslandi. Ég hef notað þá grimmilega í mörg ár, bara hent einhverju yfir sem mér leist á, peysu, jakka, híalíni. Það er fín strategía að kaupa meira en eitt af því sem maður veit að muni nýtast. Sparar tíma. Sparar peninga,“ segir hún.
Varstu lengi að velja þér klæðnað fyrir kvöldið?
„Ég hugsaði mig nú um því ég vildi ekki vera Bóli til minnkunar og var sátt þegar mér hafði dottið þessi dýrðarinnar kímonó í hug. Sem er þar að auki ekki ófrumleg hugmynd. Svo höfðu mér áskotnast Chanel-eyrnalokkar úr skranbúðinni og ég ákvað að tjalda þeim við þetta hátíðlega tækifæri.“
Það er alltaf ákveðinn hópur, svolítið hávær hópur, sem vill alls ekki að það sé verið að tala um klæðaburð fólks þrátt fyrir að hann sé stór hluti af leiknum. Þú hefðir væntanlega ekki mætt í náttfötum á Bessastaði?
„Ég er meðvituð um að hið ytra skiptir máli. Ef það koma myndir af manni sem eru ekki í lagi, ef maður er asnalega til fara, þá fær það athyglina sem aflaga fer. Tekur athyglina frá aðalatriðum. Það sem skiptir máli fer um leið forgörðum. Þannig lagað eru föt ekki hégómi. Það er spursmál um lífsgæði að vera í þægilegum fötum sem eru passlega heit eða köld. Getur forðað manni frá lungnabólgu og sólsting,“ segir Steinunn.
Steinunn segir að það þurfi að tala um fatnað og játar að vera með fatadellu.
„Sjálf er ég með fatadellu. Það segi ég beinlínis í nýju bókinni minni Skálds sögu og að það hafi komið sér vel þegar ég er að konstrúera sögupersónur. Að geta lýst þeim, líka gegnum klæðaburðinn. Ég lýsi því til dæmis í ræmur hvaða fötum LínLín klæðist í sinni örlagaríku ferð austur í Ból, alveg úthugsaður klæðnaður hjá henni fyrir þennan leiðangur. Ég þarf að hitta rétt á það hverju sögupersónurnar mínar klæðast, eftir hugarástandi, árstíðum. Hvað smekkur þeirra segir um persónuna. Varðandi mína fatadellu get ég bætt því við að hún hefur nú ekki haldist alveg konstant. Til dæmis er ég núna komin niður á það að nota sömu útifötin meira og minna á viðkomandi árstíð, það sparar umhugsun, sparar tíma. Að talað sé um hvað föt og skór kosta, þá hef ég ekki athugasemd við það. Um leið, þótt ég ætti alla heimsins peninga finnst mér að mér myndi ekki líða vel með að kaupa eitthvað utan á mig sem kostaði formúu nema bara að það væri verið að gera mig að forseta alheimsins og ég ætti allt undir því að skáka einhverjum keppinautum í glysi og gulli. Ég vona að ég yrði alltaf þannig þenkjandi að ég myndi þá frekar gefa fátækum afganginn,“ segir hún og játar að hún geti horft á Rear Window eftir Hitchcock bara til að sjá unaðsfötin sem yndisþokkadísin Grace Kelly klæðist.
Hvað hrífur þig við fallegar flíkur?
„Falleg flík er listaverk. Eitt einkennir hana sem alvörulistaverk, og það er nákvæmni. Flíkin er nákvæmlega úthugsuð í formi og lit, og frágangurinn er óaðfinnanlegur. Öll smáatriði smellpassa. Ég vil vera í fötum sem eru úr góðum efnum. Náttúruefnum eins og ull, silki, hör, bómull. Ég notast aðeins við gerviefni þegar ég er að ferðast og þarf að koma fram, og passa að vera ókrumpuð, en það er ferlegt að vera í fötum úr gerviefni sem þarf að þvo eftir hvert skipti út af svitalykt,“ segir Steinunn og nefnir að hún þoli ekki litleysi, hvort sem það er í fatavali eða í innanhússmálum. „Varðandi svart, þá hef ég átt nokkrar úrvalsflíkur í þeim lit, en ég er minna og minna fyrir að klæða mig í svart. Svo er það húmorinn, hann má ekki vanta þegar maður setur eitthvað utan á sig. Ekki að hafa allt of mikið samræmi, hafa eitthvað sem stingur í stúf, þó ekki um of kannski.“
Það reynir kannski ekki mikið á það hjá rithöfundum dagsdaglega hvernig þeir eru til fara en svo koma bókmenntahátíðir og kynningar á verkum. Þá þarf höfundurinn að vera sómasamlegur. Hvernig hefur þú masterað þetta?
„Það getur verið átak að finna sér eitthvað rétt til að fara í og þvílík plága að pakka í töskuna. Ég legg upp úr því að vera í lagi þegar ég kem fram. Sænski útgefandinn minn hafði orð á þessu og hrósaði mér. Var greinilega pirruð á höfundum sem skeyttu ekkert um útganginn á sér. Fyrir mér fjallar þetta um fagmennsku, að hafa hugsun á því sem maður er að gera, að skilja hvað maður er að gera. Ef maður mætir úfinn og krumpaður lítur það ekki vel út. Í útlandinu þá, ekki bara fyrir mig, heldur líka fyrir landið mitt. Ég get alveg viðurkennt það að ég er haldin ólæknandi föðurlandsást og ég vil vera landinu mínu til sóma þar sem ég get komið því við, ekki bara verkunum mínum. Vigdís Finnbogadóttir talaði stundum á þessum nótum, en sjálf er hún stakasta smekkmanneskja. Ég kynntist henni fyrst þegar ég var sextán ára að hoppa utanskóla yfir 5. bekk í MR og var hjá henni í frönskutímum á Aragötu. Hún skar sig úr fyrir klæðaburð og fór eigin leiðir. Ég man til dæmis vel eftir henni á þessum tíma í appelsínugulri v-hálsmálsullarpeysu við skotapils og svo var hún í mokkasínum með lágum hæl. Ég er nú ekki viss um litagleði hafi verið áberandi í klæðaburði okkar kvenfólksins þarna kringum 1967. Svo fylgdist ég náið með henni í forsetaembættinu þegar ég safnaði efni í sannsöguna Ein á forsetavakt 1987-1988. Og aftur nokkrum árum síðar þegar ég gerði heimildarmynd fyrir sjónvarp um hana. Þetta var auðvitað allt saman mikill skóli fyrir mig, og þá líka hvað smekklegheit í klæðaburði áhrærir.“
Spurð hvort hún hafi skipulagt fatastíl sinn sérstaklega fyrir þetta jólabókaflóð kemur í ljós að vinkona veitti hjálparhönd. „Hlín Agnarsdóttir vinkona mín hjálpaði mér að finna flík, sem mér þótti ósennileg við fyrstu sýn, þegar ég heimsótti hana í Uppsölum í haust. En hún sagði: „Þú getur performerað í þessu.“ Og það gerði ég svo, finnsk eðalflík, ekki endilega hugsuð til sviðsverka reyndar en ég hlustaði á smekkmanneskjuna. Svo fiskaði ég upp eitthvað ónotað og ódýrt glimmer um hálsinn frá uppáhaldseyjunni minni Madeira. Þar hef ég reyndar skrifað umtalsvert, bæði ljóð og kafla úr skáldsögum, en tilviljunin sendi okkur Þorstein snemma til þeirrar paradísareyjar og þar höfum við oft leikið okkur, hann við tónsmíðarnar, ég við ritstörfin.“
Steinunn segir frá einu besta tískuráði sem hún hefur fengið.
„Að vera í einhverju nógu klæðilegu og þægilegu, einhverjum lit helst, og að vera alltaf í því sama. Að vera alltaf í því sama er lykilatriði sem Merete Ries, fyrsti útlendi forleggjarinn minn, í Danmörku kenndi mér. Þannig að maður væri frekar þekkjanlegur aftur. Það er ótrúlegt hvað vinkonur geta hjálpað manni mikið að kaupa rétt föt, af því að þær sjá mann öðru auga en maður gerir sjálfur. Þannig til dæmis var mér smekkleg vinkona innanhandar við að kaupa úrvalsföt hjá Marimekko í Helsinki, en ég hef átrúnað á Marimekko, ekki út af merkjasnobbheitum, heldur af því að merkið er einstakt fyrir praktíska og fagurfræðilega hönnun úr úrvalsefnum. Þessi vinkona fiskaði til dæmis upp fyrir mig túrkíslitaðan þunnan ullarjakka, sem mér hefði aldrei dottið í hug að kaupa upp á mitt eindæmi. Ég tróð oft upp í honum, tók slíku ástfóstri við hann að ég gat ekki skilið við hann þegar hann fór að fella af, heldur lét lita hann dökkbláan og hann hangir nú þannig á mínu herðatré. Þrjátíu árum síðar eða svo. Hún fann líka út fyrir mig ofurflotta svarta silkidragt frá Marimekko, með síðum jakka, kragalausum, sem ég klæddist svo í návígi við Gústaf Adolf Svíakonung þegar ég var að lesa upp í þröngum kreðs í Stokkhólmi. Ég hafði átrúnað á Marimekko frá upphafi, átti að minnsta kosti tvo kjóla sem ég lét sauma, fyrir 1970. Ég er í öðrum þeirra á myndinni frá Sífellutímanum 1969, sem er aftan á kápunni á Skálds sögu. Mjög fallegt efni í blágrænum sjatteringum en myndin er svarthvít. Sem betur fer geymdi ég hinn Marimekko-kjólinn frá þessum tíma. Í rauðum sjatteringum. Svo að ég hef þá ekki verið frábitin litagleði, á þessum tímum sem mig minnir að hafi verið fremur drungalegir hvað kvenföt varðaði.“
Og rithöfundur er alltaf að skoða fólk, lýsa fólki, lýsa klæðaburði og lykt. Hvernig setur þú þig inn í þetta? Hvernig skoðar þú fólk?
„Ég held að ég hafi nokkuð næmt auga. En hvort ég er alltaf að skoða fólk, það er ég ekki viss um. Ég held að tré og hús og landslag stimplist enn meira inn hjá mér. Það er svo sniðugt að þegar þú spyrð núna kannast ég ekki við að hafa klætt fólkið mitt í föt sem ég sá úti á götu. Ég get svarið að ég held ég hanni skáldsögufötin sjálf. Það væri þá í stíl við það að ég nota ekki neitt sérstakt útlit sem ég kannast við á persónurnar mínar. Eins og ég lýsi í Skálds sögu á ég ekki fyrirmyndir að þeim á neinn hátt, heldur ekki á þessu ytra plani. Þær koma upp úr einhverju djúpi sem ég þekki ekki sjálf,“ segir hún.
Átt þú uppáhaldsflík?
„Ég átti það, kannski í tuttugu ár eða meir. Þetta var kápa sem ég sá fyrst í glugga á Laugaveginum, líklega hét búðin Eros. Ég heillaðist af henni en hún var alltof alltof dýr. Ég hugsaði með mér, ókei, það hefur enginn vit á að kaupa þessa kápu, hún bíður bara. Svo gleymdi ég henni, en kannski hálfu ári seinna var komin útsala. Ég fór inn og viti menn, kápan beið eftir mér, komin á hálfvirði. Ennþá alltof dýr samt. Ég festi kaup á henni með því að skipta vísanu í tvennt. Þetta var hettukápa úr alpaca-ull, smáloðin. Í dásamlegum djúpfjólubláum lit, kannski aðeins út í brúnt. Í þessum langtímaförunaut var ég alltaf fín og varð aldrei kalt. Svo tók loksins aðeins að trosna kringum tölur, og komu saumsprettur á fóður. Ég var staðráðin í að endurlífga kápuna en lét hana hana samt dumma í geymslukjallaranum okkar í Strassborg. Grannar okkar þvoðu bílinn sinn aðeins inn um þann opna glugga, þannig að hún varð á endanum fórnarlamb myglu eins og fleira í geymslunni. Þó nokkrir kassar með endalausum útprentunum og kroti til dæmis. Einar Falur tók af mér svakalega fínar myndir þar sem hettukápan er í aðalhlutverki, og birtust oft í Morgunblaðinu, líklega fyrst kringum 1995, á Hjartastaðartímanum.“
Dreymir þig um að eignast eitthvað nýtt í fataskápinn?
„Ég er nú farin að svipast um eftir síðri haust- og vetrarkápu sem myndi leysa mína aðal af hólmi. En hún er frá sirka 2005, keypt í Montpellier. Alveg óuppslítanleg. Ég efast um að hún sé sérstaklega falleg en vonandi ekki ljót heldur.“
Steinunn er afskaplega höll undir síða kjóla eins og hún orðar það sjálf.
„Síðir kjólar finnst mér eitthvað það klæðilegasta sem konur geta sett utan á sig. Þetta eru ekki bara leifar af mínum hippatíma, þegar ég lærði að meta þægindin við það að vera í síðum kjól. Ég hef séð nógu mörg dæmi um konur sem taka sig ekki sérlega vel út í buxum og jakka en eru stórglæsilegar í síðum kjól. Þar á meðal er eitt uppáhald, Angela Merkel. Þegar hún var komin í græna síða flegna silkikjólinni á óperuhátíðinni í Bayreuth birtist önnur kona og miklu glæsilegri en hversdags Merkel. Af hverju ætti kona og þess vegna stjórnmálakona ekki að geta verið í síðum kjól dagligdags? Gagnvart buxnadrögtum hef ég beinlínis fordóma. Ég má fullyrða að ég hafi aldrei átt buxnadragt. Vinkona mín ein sem var lengi í áhrifastöðu úti í löndum talar um „jakkafatakonur“. Held að hún hafi sjálf verið ein af þeim á sínum tíma. Þetta er eins og konur séu að herma eftir jakkafötum karlanna, það bætir ekki mikið úr skák þótt þær séu komnar í ókarlalegan lit eins og bleikt. Mér finnst buxnadragtir klæða fáar konur, nema þær séu álíka í laginu og kall. Mér finnst þó Kamala Harris komast upp með þetta, í undantekningartilfelli. Eitthvað það ósmekklegasta sem ég veit eru buxnapils. Svo náði ég aldrei fídusnum í stuttbuxunum sem voru í tísku á tímabili hér í fyrndinni og hefði ekki látið sjá mig dauða nálægt þeim – eins og maðurinn sagði,“ segir hún og brosir og heldur áfram:
„Þá hef ég algjöra fordóma gagnvart útvíðum buxum og víðum buxnaskálmum yfirleitt. Sé bara ekkert ljótara. Mér finnst að fólk eigi að vara sig verulega á tískutrendum sem geta orðið beinlínis afkáraleg. Og undir hælinn lagt hvort trendið klæðir viðkomandi kropp. En það verður þó að teljast aðalatriði.“
Finnst þér að fólk ætti að nýta klæðaburð betur og huga meira að honum?
„Ég held að réttur klæðaburður geti hjálpað fólki til að komast þangað sem það vill fara í vinnunni, í lífinu. Svo það er nú ekki beinlínis aukaatriði. Hvað fatastefnuna almennt varðar vil ég gjarnan huga meira og meira að því að kaupa notuð föt. Er nýbúin að kaupa sparilega síða svarta hettukápu á 3.000 krónur í Rauða krossinum í Mjódd. Ég á vinkonu sem er prinsippföst hugsjónamanneskja, kaupir bara notuð föt og er alltaf stórglæsileg til fara. Þetta er svo vel til fundið á okkar tímum þegar alls konar neyslusóun er eitt af því sem er að steypa heiminum í glötun. Það fylgir því góð tilfinning finnst mér að kaupa notað, yfirleitt. Mestallt leirtauið okkar Þorsteins í útlandinu og flest vínglösin er til dæmis úr skranbúðum og mörkuðum. Eitt af mörgu sem ég held að sé niðurlægjandi við fátækt er að geta ekki verið sæmilega til fara. En nú er orðið auðveldara en var að nálgast notuð föt á góðu verði og ég vona að það hjálpi ekki síst þeim sem berjast í bökkum. Varðandi smekklegheit get ég alveg viðurkennt að ég er viðkvæm fyrir því að sjá konu í fötum sem klæða hana áberandi illa, þótt mér komi konan ekki við. Ég tek síður eftir því með karlmenn. En ég get ekki varist þeirri hugsun að konunni gæti vegnað betur ef hún hefði meiri hugsun á klæðnaðinum. Sjálf er ég þakklát fyrir að eiga vinkonur sem leiðrétta mig, hvort sem það er á fatasviðinu eða öðru sviði. Einu sinni kom ég til dæmis fram í sjónvarpi í buxum sem vinkona dæmdi ljótar og bað mig um að leggja þær frá mér. Ég gerði það snarlega, fór ekki í þær aftur.“