Snorri Másson fjölmiðlamaður mætti í oddvitaviðtal við Morgunblaðið hjá Andrési Magnússyni á dögunum en hann leiðir Miðflokkinn í Reykjavík suður í komandi alþingiskosningum. Snorri, sem er iðulega snyrtilegur til fara, mætti í sérsaumuðum jakkafötum frá íslenska fyrirtækinu Suitup.
Jakkafötin voru dökkblá að lit og kosta í kringum 120 þúsund krónur samkvæmt vefverslun Suitup. Það var allt úthugsað hjá Snorra en við fötin var hann í ljósblárri skyrtu, með köflótt bindi og vínrauðan vasaklút. Glöggir gætu einnig tekið eftir því að það er rautt í bindinu sem rímar við lit vasaklútsins.
Á heimasíðu Suitup kemur fram að fötin séu úr 100% ull. Dökkblá sérsaumuð föt frá þeim kosta á bilinu 109 þúsund krónur til 119 þúsund króna. Þá eru flest efnin þeirra 280 gr/m² en það segir til um þyngd efnisins.