Ása Steinars hefur hannað peysu í samstarfi við íslenska útivistarmerkið 66°Norður. Peysan heitir Flateyri og er úr 100% íslenskri ull. Innblásturinn kom frá bleikum vetrarsólsetrum á Flateyri þar sem Ása hefur varið miklum tíma. Peysan verður fáanleg í takmörkuðu upplagi.
Ása hefur getið sér gott orð sem ljósmyndari víða um heim og hefur notið mikilla vinsælda á samfélagsmiðlum. Þar deilir hún áhugaverðu efni frá ferðalögum sínum bæði hér og erlendis.
Hún segir þetta spennandi verkefni. „Það má segja að gamall draumur sé að rætast hjá mér að gefa út mína eigin íslensku lopapeysu,“ segir Ása.
„Þessi einstaka peysa er úr 100% íslenskri ull og er uppáhaldsstaðurinn minn á Vestfjörðum, Flateyri, innblásturinn og bleiku vetrarsólarlögunum sem eru reglulega þar. Íslenskar lopapeysur hafa haldið okkur heitum í kynslóðir og mig langaði að gefa þeim nútímalegri blæ með bjartari lit en hefðbundnir jarðlitir eins og hvítur, brúnn eða grár. Mér finnst mikilvægt að bæta fallegum litum í útivistarfatnaðinn. Svo er blandað tíglamynstur sem er oft sýnilegt í fatnaði 66°Norður,“ útskýrir hún.
Ullarpeysur hafa verið stór hluti af lífi Ásu í útivistinni. „Enda hlýjasta flík sem maður getur klæðst. Íslenska ullin okkar er einstök.“
Peysan er hönnuð með sjálfbærni að leiðarljósi og er framleidd hér á landi. Hún er náttúruleg, án aukaefni og viðhaldslítil. „Hún er hlýjasta og notalegasta flíkin í fataskápnum mínum akkúrat núna og mun vera það áfram.“
Ása hefur alltaf verið „gellan með myndavélina“ og margir hafa oft á orði að hún ætti að vera fyrirsætan fyrir framan linsuna. Hana dreymdi sem stelpu um að starfa fyrir National Geographic og segist hafa fattað á einum tímapunkti að draumurinn hafði ræst.
„Ljósmyndun er það sem ég brenn fyrir. Stundum spurði kærastinn minn mig hvort ég vildi ekki frekar njóta sólarlagsins en að horfa á það í gegnum linsuna. En það er innbyggt í mig að sjá hlutina þannig. Ég hugsa í ljósi og römmum og ég þrái að deila því sem ég sé með öðrum,“ segir hún.
Sýn Ásu á Ísland breyttist eftir að hún kom heim úr 15 mánaða heimsreisu. „Ég áttaði mig á því að Ísland er ekki síður magnað en restin af veröldinni,“ segir Ása. Hún segist hafa fundið fyrir auknum áhuga á myndunum sínum eftir að hún byrjaði að deila myndum frá Íslandi.
„Þegar ég kom aftur heim fóru hlutirnir að rúlla. Þegar ég byrjaði að birta efni frá Íslandi fann ég að fólk hafði mikinn áhuga. Ég fann líka að mitt viðhorf gagnvart Íslandi hafði breyst mjög mikið. Ég var einhvern tímann að keyra á Miklubrautinni og sá Esjuna og ég hugsaði bara „hefur þetta fallega fjall alltaf verið þarna?“
Peysan verður kynnt í verslun 66°Norður á Laugavegi 17 á morgun, sunnudag. Ása verður á staðnum og boðið verður upp á heitt kakó og kleinur.