Harpa Káradóttir, förðunarmeistari og eigandi Make-Up Studio Hörpu Kára, er einn af færustu förðunarmeisturum landsins. Hún er meðal annars metsöluhöfundur förðunarbókarinnar Andlit og hefur hlotið Eddu-tilnefningu fyrir störf sín.
Harpa nefnir nokkur atriði sem gott er að hafa í huga hvað varðar förðun fyrir þær sem eru komnar yfir sextugt. Þessi aldursflokkur er helmingur af viðskiptavinum Hörpu og veit hún því hvað hún syngur.
Augnhárabrettari „Notkun augnhárabrettara getur gert ótrúlega mikið til þess að opna augun og láta augnhárin sýnast lengri og þykkari. Uppáhaldsaugnhárabrettarinn minn er frá Shisheido.“
Létt formúla „Ég nota yfirleitt léttar formúlur á húðina til að jafna út húðtón og veita húðinni frísklegra útlit. Ég elska þessa vöru frá Chanel því hún veitir húðinni örlítið bronsaðan lit og fallegan ljóma. Þessa vöru nota ég stundum eina og sér yfir rakakrem og stundum undir annan farða. Það fer eftir tilefni og húðgerð viðkomandi. Ég tek fram að þessi vara veitir litla þekju svo þeir sem sækjast eftir því myndu nota aðra vöru með.“
Gott augnkrem „Gott augnkrem sem nærir og frískar upp á augnsvæðið. Húðin er þynnri í kringum augun og með hækkandi aldri getur hún orðið þurrari. Ég mæli alltaf með að veita húðinni góðan raka og þar finnst mér gott augnkrem skipta öllu máli. Ég held mikið upp á þetta augnkrem, það gefur góðan raka, dregur úr þrota og hentar vel undir hyljara eða farða.“
Varablýantur „Ég mæli með að eiga mjúkan varablýant í mildum litatón til þess að skerpa á varalínunni á náttúrulegan hátt. Margar konur sem eru komnar yfir sextugt tala oft um að þeim finnst varirnar hafa minnkað með aldrinum svo ég nota mjög oft brúnan eða bleikan varablýant til þess að móta varirnar örlítið betur. Ég mæli með að draga blýantinn meðfram varalínunni og renna síðan yfir línuna með fingrinum til þess að milda og blanda hana betur út. Þannig geturðu einnig fengið varirnar til þess að virka ögn fyllri á náttúrulegan hátt.“
Hársprey Gott sprey í hárið til þess að fá meiri fyllingu og lyftingu í hárið er nokkuð sem margar konur sækjast eftir. Þannig getur hárblásturinn enst lengur. Sjálf er ég mjög hrifin af þessu spreyi og hef notað það í mörg ár. Það hjálpar til við að fá meira út úr hárblæstrinum og fær hárið til að haldast lengur í því standi sem maður sækist eftir.“