Sætur sigur að opna á ný

Verslanirnar opna stútfullar af nýjum vörum að sögn Svövu.
Verslanirnar opna stútfullar af nýjum vörum að sögn Svövu. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum bara búin að vera mjög upptekin, þetta hefur verið ótrúlega skrýtin rússíbanareið síðustu mánuði. Alveg skelfilega skrýtið,“ segir Svava Johansen eigandi NTC hf. Fyrir tæpum sex mánuðum braust eldur út í þaki Kringlunnar en þar rak NTC fjórar verslanir; Galleri Sautján, GS Skó, Kultur og Kultur Menn. Þessar verslanir hafa verið lokaðar síðan en verða opnaðar aftur í dag. Verslanirnar ná yfir 1.000 fermetra.

„Þetta hefur náttúrlega tekið rosalega langan tíma og verið skrýtið ferli fyrir okkur og starfsfólkið. Það var auðvitað mjög sérstakt að sjá fjórar verslanir fara á sama tíma svo það er svo sætur sigur núna að opna aftur,“ segir Svava.

„Það var búið að kaupa inn fyrir allt þetta tímabil og haustið líka. Einhverju höfum við dreift í aðrar verslanir en að mestu leyti höfum við geymt klassískar vörur. Þær eru allar komnar núna og verða stútfullar verslanir með glænýjum vörum og jólavörum. Það er svo gaman því maður opnar ekki alltaf svona.“

Svava rifjar upp fyrstu dagana eftir brunann og segir hún í fyrstu allt hafa verið dimmt, mikinn reyk og vatn yfir öllu. „Ég finn til með þeim sem voru að vinna að þakinu fyrir Kringluna því þetta hefur verið agalegt og rosalegt tjón. Þetta hefur verið mikið álag á alla starfsmenn Kringlunnar. En við lentum í langmesta tjóninu,“ segir Svava. Verslanirnar voru allar á sama ganginum. Þá hafi starfsfólk hennar haft áhyggjur af því hvort það héldi vinnunni eða ekki.

„Starfsfólkið var hálfrótlaust. Sumir fóru að reyna að hjálpa til einhvers staðar en það var kannski ekki þörf á því. Við vorum með fastráðið fólk alls staðar og þurftum ekki á því að halda,“ útskýrir hún.

Björn Sveinbjörnsson, María Gréta Einarsdóttir eða Maya og Svava Johansen.
Björn Sveinbjörnsson, María Gréta Einarsdóttir eða Maya og Svava Johansen. mbl.is/Árni Sæberg

Aldrei lent í öðru eins

„Þetta fór mjög illa. Ég er búin að vera í verslunarrekstri nánast síðan ég fæddist, allavega síðan ég var sautján ára,“ segir hún og hlær. „Á allri minni lífsleið hef ég aldrei lent í svona. Ég hef aldrei lent í því að detta í svona djúpa lægð. Þetta snerti mig alveg rosalega mikið og meira en ég átti von á. Ég er vön því að takast á við hvað sem er og finna bara út úr því en ég var alveg smá dofin í vissan tíma. Þá tekur maður sér tak, hugsar betur um sig, byggir sig upp líkamlega og andlega og fer af stað aftur. Það tókst alveg. En þegar fólk verður fyrir vissu áfalli þá þarf að hugsa hvernig maður ætlar að koma sér út úr því,“ segir Svava.

„Auðvitað er gott að hafa innri styrk, ég hef hann mikinn en þetta snertir mig og okkur alveg svakalega.“

Síðustu mánuðir hafa tekið á.
Síðustu mánuðir hafa tekið á. mbl.is/Árni Sæberg

Opna með breyttu sniði

Í dag opna þau stærri og flottari verslanir. Innangengt verður á milli Galleri 17, GS Skór, Kultur og Kultur Menn, sem Svövu hefur dreymt um að gera lengi. „Þetta er eins og maður væri í svona „mini-molli“ og var pælingin með því að ná til fleiri viðskiptavina. Við erum með vörur í GS Skóm sem henta í Kultur og svo látum við GS Skó flæða þarna á milli Kultur og Sautján. Það er ekki alveg opið á milli, það er í raun opið aftast og það er hægt að labba á milli. Þetta eru afmarkaðar og sérstakar búðir en það þarf ekki að fara fram og aftur inn heldur er hægt að taka hringinn. Þetta er svona eins og maður sér í útlöndum.“

Þá verður örlítil breyting á Galleri Sautján en markmiðið er að setja verslunina á hærri stall en áður. „Við erum farin að taka fleiri þekkt merki inn. Það getur alveg verið sami viðskiptavinurinn sem fer í Kultur og Sautján svo við erum að reyna að smyrja þær aðeins meira saman. Við erum með svo mikið af fallegum merkjum í Sautján sem henta líka fyrir eldri og þá sérstaklega yngstu viðskiptavini Kultur. Svo stendur GS Skór auðvitað fyrir Galleri Sautján skór, það eru ekki allir sem vita það. En GS Skór hefur alltaf verið fyrir allan aldur.“

Verslunin er farin að taka á sig mynd eftir framkvæmdir …
Verslunin er farin að taka á sig mynd eftir framkvæmdir síðustu mánaða. mbl.is/Árni Sæberg

Vinna vel saman

Þá hefur Svava varið miklum tíma á gólfinu og í rými verslunarinnar til að skapa heildarútkomuna og skoðað verslanir erlendis.

„Við innandyra gerðum þetta eiginlega bara allt sjálf eins og við gerum alltaf. Þetta er áhugasviðið okkar Bjössa og við vinnum mjög vel saman og svo erum við með frábæran hóp smiða sem vinna einnig eins og hönnuðir,“ segir Svava. Björn Sveinsbjörnsson, oftast kallaður Bjössi, er einnig einn stjórnenda fyrirtækisins og maður Svövu.

„Bjössi grípur hugmyndirnar mínar og útfærir þær með smiðunum. En svo fá allir að segja sitt. Verslunarstjórar hafa komið að og Maya framkvæmdastjóri NTC. Það fæðist margt þegar verið er að byggja búðir og það er svo gaman. Þá verða þær öðruvísi og persónulegar.“

Það var sérstakt að sjá fjórar verslanir fara á sama …
Það var sérstakt að sjá fjórar verslanir fara á sama tíma að sögn Svövu. mbl.is/Árni Sæberg

Glænýjar vörur fyrir jólin

Síðustu daga hafa starfsmenn fyrirtækisins lagt hönd á plóg við að koma versluninni í samt stand.

„Við vorum örugglega svona fjörutíu að vinna í gær. Það voru allir að tala um það sama, það hefur sjaldan verið svona mikið af nýjum og flottum vörum. Það er svo gaman að opna með öllu nýju. Það fór allt, allur lager og allar innréttingar. Það eyðilagðist allt svo þetta er allt nýtt. Það er bara spennandi að opna með öllu nýju, mikið af flottri jólavöru, pelsum, pelsakápum, bæði ekta og faux-fur. Við erum að taka jólasendingarnar frá öllum merkjunum okkar og það er svo mikið flott til núna. Það er mikil eftirvænting í loftinu,“ segir Svava jákvæð í bragði.

Fyrirtækið var ágætlega vel tryggt en þau urðu að kaupa allt upp á nýtt. Hún segir opnunina minna sig á það þegar hún opnaði stóru verslunina á Laugavegi árið 1991. „Þá vorum við með allt nýtt og nokkrar deildir í stóru húsi og þetta minnir mig á það. Ég vil meina að það og þetta sé eitthvað öðruvísi en allt annað.“

Hún segir ýmislegt gott hafa komið út úr þessu öllu saman á endanum. „Það sem við gerðum var að við settum verslanirnar saman. Macland vildi hætta í húsinu og við vorum heppin að fá það húsnæði við hliðina á Sautján, það var það góða sem kom út úr því. Við ákváðum að opna GS Skó inni í Sautján í staðinn og þar myndaðist skemmtileg stemning. Mig hefur oft dreymt um að smella þeim saman. Það er líka gaman að segja frá því að það eru fleiri verslanir sem hafa verið opnaðar og nokkrar aðrar verða opnaðar í dag.“

Opnunarpartí verslananna verður klukkan 17 í dag og hefja þær jólavertíðina með miklum látum. Emmsjé Gauti verður á staðnum, plötusnúður og lukkuhjól þar sem heppnir fá óvæntan afslátt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda