Katrín Alda hlýtur Indriðaverðlaunin

„Ég held að Kalda tali við konur sem vilja góða …
„Ég held að Kalda tali við konur sem vilja góða vöru og þær tengja við á persónulegan hátt. Þær velja sér skó og töskur sem vekja athygli en eru samt ekki æpandi.“ Ljósmynd/Úr einkasafni

Katrín Alda Rafnsdóttir hefur hlotið Indriðaverðlaunin fyrir Kalda. Verðlaunin veitir Fatahönnunarfélag Íslands fyrir starf og framlag til íslenskrar fatahönnunar og beina ljósi að því besta sem er að gerast í íslenskri fatahönnun hverju sinni. Verðlaunin eiga að auka vitund og virðingu fyrir íslenskri fatahönnun. 

Katrín Alda stofnaði skó- og töskumerkið árið 2016. „Þetta er auðvitað mjög mikill heiður, bæði fyrir mig persónulega og fyrir merkið. Það eru næstum því níu ár síðan ég hannaði mitt fyrsta skópar og það hefur gengið á ýmsu. Ég hef verið að grínast með það hvað maður þarf að vera nett-klikkaður til að vera fatahönnuður á Íslandi,“ segir Katrín Alda og hlær. „Svo það er gaman og ljúft að fá þennan vind í bakið.“

Af hverju fórstu að hanna skó?

„Ég elska skó. Ég elska smá „offness“ í skóm og þegar þeir eru smá öðruvísi. Ég held að konur noti skó sem tjáningarform til að gefa til kynna hverjar þær eru. Ef þú velur þér sterka skó eru þeir að segja eitthvað um þig án þess að segja neitt. Allt þetta elska ég. Mér finnst töskurnar vera eins, það er einnig sérstök tilfinning í töskum.“

Katrín hefur ávallt haft verslun hér á landi sem hún telur mikilvægt. „Ég elska ríteil. Þetta er íslenskt merki og mér finnst gaman að geta hitt kúnnann. Það að fá að sjá konur í hönnuninni minni er mín uppáhaldstilfinning og heyra hvað þeim finnst um vöruna er mjög mikilvægt í mínu hönnunarferli. Þannig að ríteil verður alltaf partur af Kalda, hérna heima og jafnvel erlendis í framtíðinni.“

Hönnunarferlið kom mjög náttúrulega til hennar í upphafi þegar hún stofnaði merkið. „Ég hafði hugsað um þetta mjög lengi og vissi alveg hvað mig langaði að gera áður en ég byrjaði,“ segir Katrín. Katrín bætti svo töskum við vöruúrvalið fyrir tveimur árum.

„Töskur og skór, þetta er mjög ólíkt hönnunarferli. Ég fattaði eiginlega bara þegar ég fór að gera töskurnar hvað það er ótrúlega flókið ferli að hanna skó. Einn skór getur verið settur saman af 8-12 hlutum sem þarf að panta frá mismunandi birgjum þannig það er algjört púsl sem þarf allt að ganga upp. Töskurnar eru ekki eins flóknar í framkvæmd.

„Ég hef verið að grínast með það hvað maður þarf …
„Ég hef verið að grínast með það hvað maður þarf að vera nett-klikkaður til að vera fatahönnuður á Íslandi. Svo það er ljúft að fá þennan vind í bakið.“ Ljósmynd/Silja Magg
Kalda-skór eru þekktir fyrir góða hönnun og þægindi.
Kalda-skór eru þekktir fyrir góða hönnun og þægindi. Ljósmynd/Silja Magg

Gæðin skipta öllu

En hvað gerir merkið þitt svona vinsælt?

„Ég held að Kalda tali við konur sem vilja góða vöru og þær tengja við á persónulegan hátt. Þær velja sér skó og töskur sem vekja athygli en eru samt ekki æpandi. Ég er ekki með risalógó heldur smáatriði sem gerir þá að Kalda skóm og þær þekkja það sem þekkja. Ég held að þær tengi við það, eða ég vona það.“

Hún segir gæðin skipta öllu máli í skóhönnun. „Við leggjum rosalega mikið upp úr því að hafa skóna þægilega og vandaða. Skórnir eru allir handgerðir í lítilli verksmiðju í Portúgal og besta endurgjöfin sem ég fæ frá kúnnunum okkar er hvað þeir eru þægilegir.“

Mikilvægasti hlekkurinn hjá farsælu merki er framleiðslan segir Katrín. „Sérstaklega með skó því þeir bera okkur í gegnum daginn svo þeir verða að vera þægilegir og vel gerðir. Ég geri alltaf fyrstu prufuna af nýjum stíl í minni stærð til að passa upp á að þeir passi rétt á fótinn og séu þægilegir. Ef þeir eru það ekki þurfum við að byrja upp á nýtt.“

Töskum var bætt við vöruúrval Kalda fyrir nokkrum árum.
Töskum var bætt við vöruúrval Kalda fyrir nokkrum árum. Ljósmynd/Instagram

Dýrt að vera lítill

Hvað hefur verið erfiðast?

„Úff, hvar á ég að byrja?“ segir hún og hlær. „Það er dýrt að vera lítill. Framleiðslan er mikilvægasti hlekkurinn í minni keðju og að finna rétta verksmiðju sem er með gæðastaðla sem ég vil og er tilbúin að framleiða í litlu magni tók tíma. Það er eiginlega það erfiðasta og mikilvægasta. Að vera tískuhönnuður á Íslandi þýðir líka í flestum tilvikum að þú ert einyrki. Ég hugsa að ég eyði um 20% af mínum vinnutíma í að hanna. Svo þarf ég að sjá um allt hitt, fylgja eftir framleiðslu, sjá um sölu, markaðssetningu og bara „take care of business.“ Það getur verið flókið að skipta um alla þessa hatta en það kennir manni líka fullt. Ég tek ábyrgð á öllu sem gerist, sem er smá pressa en líka alveg valdeflandi tilfinning.“

Hvað er fram undan hjá Kalda?

„Ég tók hlé í að selja til verslana erlendis í heimsfaraldrinum en ég ætla að byrja á því aftur núna. Ísland er heimamarkaðurinn minn og kær fyrir þær sakir, það að vera íslenskt merki hefur mikla þýðingu fyrir mig og ég er mjög þakklát fyrir þann kúnnahóp sem hefur myndast hér. En þetta er lítill markaður og að mörgu leyti mjög ólíkur öðrum svo mig langar að hafa bæði.“

Bella Hadid klæddist Kalda

Á vefsíðunni Kalda.com selur hún mikið til útlanda og þá aðallega til Bandaríkjanna. Stórstjörnur eins og Camila Cabello, Emma Louise Corrin, systurnar Bella og Gigi Hadid og Elsa Hosk hafa meðal annars klæðst skónum hennar.

„Ég er með almannatengil í London sem sér um að senda stílistum þeirra, það fer oft í gegnum þau eða í gegnum Instagram. Það var mjög gaman þegar Bella var í skónum, við höfðum gefið henni par í gegnum stílistann sem hún síðan klæddist við „90´s Gucci-look“ sem einmitt Steinunn Sigurðardóttir hannaði. Það var gaman að hafa hana í alveg íslenskri hönnun í einu besta útliti sem ég hef séð. Hún sendi síðan mér skilaboð á Instagram og bað um fleiri skó þannig þetta er svona allavega sem þetta gerist.“

Ofurfyrirsætan Bella Hadid í Kalda-skóm. Fötin sem Hadid klæðist eru …
Ofurfyrirsætan Bella Hadid í Kalda-skóm. Fötin sem Hadid klæðist eru frá sumarlínu Gucci frá árinu 1998 en þau hannaði íslenski fatahönnuðurinn Steinunn Sigurðardóttir þegar hún starfaði hjá merkinu. Ljósmynd/Instagram

Hver er uppáhaldsskórinn sem þú hefur hannað?

„Ég held það sé Peki-skórinn. Hann er með svona „toe-cleavage“ og ég er algjör perri fyrir því.“

Peki-skórinn er í uppáhaldi hjá Katrínu Öldu.
Peki-skórinn er í uppáhaldi hjá Katrínu Öldu. Ljósmynd/Kalda.com

Nefnd eftir Indriða Guðmundssyni

Verðlaunin eru nefnd eftir Indriða Guðmundssyni klæðskera en hann var einn af stofnendum Fatahönnunarfélags Íslands. Hann kenndi meðal annars klæðskurð við Iðnskólann í Reykjavík árin 1994-2000 og síðar við Listaháskóla Íslands. Hann nam í Dublin hjá Des Leech, heldri manna klæðskera og skrifaði þar kennslubók í efnisfræði. Á þessum árum vann hann einnig sem klæðskeri fyrir kvikmyndir eins og Bíódaga, Djöflaeyjuna og Benjamín dúfu ásamt búningagerð fyrir Þjóðleikhúsið, leikhópinn Augnablik og Hinn íslenska dansflokk.

Árið 2003 stofnaði Indriði verslun við Skólavörðustíg í Reykjavík. Þar verslaði hann með skyrtur og annan herrafatnað sem framleiddur var undir hans eigin nafni. Árið 2006 flutti hann verslun sína til Kaupmannahafnar og rak hana þar til hann lést þann 30. desember sama ár.

Indriði lagði mikið upp úr gæðum og helgaði sig leitinni að hinu fullkomna sniði. Hann lýsti því sjálfur að hann seldi ekki skyrtur, heldur uppáhaldsskyrtur. Indriði lagði auk þess mikið upp úr efnisvali. Gott dæmi um það eru bindin hans en hann framleiddi fjórtán tegundir af svörtum bindum og lá munurinn á þeim í vefnaðinum.​

Indriði var mikill talsmaður fatahönnunarverðlauna á Íslandi og þótti honum mikilvægt að félagið ætti sína eigin uppskeruhátíð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda