„Ég fer yfirleitt ekki í jólaskap fyrr en rétt fyrir jól, í mesta hamaganginum, en þar finn ég mig vel. Þá legg ég lokahnykkinn á að skreyta, fjárfesti í jólailmi til að fá góða lykt í húsið og þá er stemningin í hámarki. Svo á ég afmæli á milli jóla og nýárs þannig að það er stanslaust stuð fram yfir áramót,“ segir Kristín Edda Óskarsdóttir þegar hún er spurð að því hvort hún sé mikið jólabarn.
Kristín Edda er mikill fagurkeri og er ein af stofnendum Spjara. Spjara er aðallega fataleiga en einnig eru þau með sérvaldar merkjavörur í endursölu. Kristín Edda er framkvæmdastjóri fyrirtækisins og tekur á móti viðskiptavinum. Hún segir forréttindi að fá að vinna við ástríðuna og kynna landanum nýjan hugsunarhátt í sambandi við tísku.
Hvað finnst þér einkenna jólatískuna í ár?
„Ég er ótrúlega lítið fyrir sérstaka jólatísku ár hvert en á þessum árstíma finnst mér ég sækja meira í svart, kvenlegri snið og að vera fínni dagsdaglega. Ég nota pils til dæmis meira og para við hlýjar peysur eða rúllukragaboli, jakka, hælaskó eða há stígvél. Svart pensilpils við fallega peysu kemur manni svo langt. Ég nota aðeins meira skart sem ég held í lágmarki annars. Ég var líka að prófa að vera í grófri peysu yfir sparikjól og hælaskóm þannig að pilsið myndi njóta sín og það kom mjög vel út,“ segir Kristín Edda. Hún bætir við að fólk ætti að nota sparifötin sín meira og sérstaklega á þessum árstíma.
Það eru mörg ár síðan hún keypti sér ný föt fyrir jólin. „Undanfarið hef ég valið þannig flíkur í fataskápinn minn að mér finnst ég alltaf ná að para saman alls konar möguleika. Ég vel mér föt úr gæðaefnum og snið sem passa mér og mínum stíl. Ég vil að flíkurnar mínar endist vel. Þannig föt eru líka alltaf eins og ný og þetta eru fötin sem manni líður alltaf vel í. Annars nota ég leiguna mína mjög mikið, hitti ekki fleiri en tvo án þess að klæða mig upp í flík frá Spjöru,“ segir hún.
Fjölskylda Kristínar Eddu heldur aðfangadagskvöld hátíðlegt og allir klæða sig upp. „Ég hef síðastliðin tvö ár verið í fallegum Stine Goya-kjól með gylltu mynstri og ég ætla að halda í þá hefð. Hann er allt sem ég þarf, þægilegur, klassískur og mjög elegant í sniðinu. Síðan ætla ég að vera í einum af Kalda-skónum mínum við sem eru svo sparilegir. Þegar maður er með stórt heimili þá er ótrúlega einfalt að geta alltaf farið í sama jólakjólinn,“ segir hún.
„Á jóladag ætla ég að vera í vintage Prada-pilsi og fallegri rúllukragapeysu og hælaskóm með mjórri tá og lágum hæl. Hárið ætla ég að hafa í lágum snúð.“
Á milli jóla og nýárs fer fjölskyldan á Jómfrúna og hefur hún hugsað út í hverju hún muni klæðast þar. „Klassískum svörtum buxum og æðislegum kimono frá Rodebjer, það virkar eins og sett saman. Ég verð í támjóum hælaskóm því að buxurnar eru dragsíðar. Síðan fjárfesti ég í kamelbrúnni kápu frá Toteme í fyrra sem ég held að ég muni nota út ævina, hún er fullkomin við.“
Hún segir að það hafi aldrei gerst á sínu heimili að allir sitji prúðbúnir við matarboðið klukkan sex þegar jólaklukkurnar hringja í útvarpinu. „Það mun aldrei gerast á mínu heimili. En mér finnst svo hátíðlegt að heyra í jólaklukkunum hringja inn jólin og kyssa fólkið mitt. Þó að sósan eigi smá eftir og hugsanlega séu ekki allir komnir í fötin sín,“ segir hún.
Eins og mörgum Íslendingum þá finnst Kristínu Eddu ómissandi að skera út laufabrauð með stórfjölskyldunni. „Púrtvín er það líka, nýjar bækur að lesa, lykt af greni og jólatónlist í plötuspilaranum. Ég legg mikið upp úr fallegum pökkum og að búa til grenikrans. Það er líka annað sem er ómissandi en það er að sofna í hreinum rúmfötum á aðfangadag. Við eigum hvít rúmföt með útsaumuðum harðangri og upphafsstöfunum okkar frá ömmusystur minni svo það er extra notalegt að leggjast upp í í lok kvölds.“
En hvað langar þig í jólagjöf?
„Ég er búin að klukka systur mínar með vörum frá Angan, ég elska þær. Mig vantar nýjan sundbol frá Swimslow sem eru bestu sundbolirnir bæði í sundið og sjóinn. Mig langar í falleg kerti sem fást í KLEI og fallegan borðbúnað til að safna mér, kannski að mig langi bara í matardiska í jólagjöf. Kalda er að gera æðislegar töskur sem mig hefur langað lengi í og hugsanlega verður það eitthvað sem ég fjárfesti í sjálf. Dekur fyrir hárið mitt frá Rvk Ritual, hárkambur og olía er líka á óskalistanum. Það eru svo margir hér á Íslandi, bæði hönnuðir og verslanir, að gera æðislega hluti. Í ár ætlum við maðurinn minn að kaupa okkur eitthvað saman en við erum ekki enn búin að ákveða hvort það verði hlutur eða listaverk.“
Jólin í ár verða hefðbundin hjá fjölskyldunni. „Við verðum heima á aðfangadagskvöld og ég á von á því að foreldrar mínir og systir verði með okkur. Mér finnst mjög gaman að hafa fleiri frekar en færri á aðfangadagskvöld. Síðan er fastur liður að borða hangikjöt hjá foreldrum mínum á jóladag. Við fjölskyldan erum síðan að búa okkur til skemmtilega hefð, að borða á Jómfrúnni annan í jólum. Það er ekki mikið um jólaboð yfir hátíðardagana sem gefur okkur tækifæri til að slaka vel á heima og fara í góða göngutúra – það er líka dásamlegt.“