Nýjustu hlaðvarpsstjörnurnar Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Halldóra Geirharðsdóttir, sem stýra hlaðvarpinu Á ég að hend’enni ræða um hárlitum og hárgreiðslur í nýjasta þættinum.
Steinunn Ólína segir frá því að hún hafi ótal sinnum verið spurð að því af hverju Halldóra liti ekki á sér hárið.
„Það eru alveg konuklúbbar í Reykjavík sem hafa áhyggjur af því að þú litir ekki á þér hárið,“ segir Steinunn og bætir við að hún hafi margoft verið spurð, hvers vegna Dóra, Halldóra Geirharðsdóttir, kjósi að hafa hárið á sér grátt og ólitað. Hún segir að það liggi oft í orðunum að konum finnist að hún eigi að lita á sér hárið.
„Já, Lolla, (Ólafía Hrönn) hefur alveg sagt mér að konur hafa áhyggjur af mér. Ég byrjaði að grána upp úr tvítugu. Fyrst var þetta bara svona lokkur að framan, ég er ekki svona grá aftan í hnakkanum. Þegar ég tek hárið frá þá er ég alveg hvít en hnakkinn er enn dökkur. Ég var klippt stutt þegar ég var að leika í Föngum og ákvað að halda mér dökkhærðri, það var bara leiðinlegasti vetur sem ég hef lifað. Mér finnst svo leiðinlegt að spreya, þegar kemur svona rót og ég þoli ekki að dúppa, æ þú veist að fara á hárgreiðslustofu og láta lita endalaust,“ segir Halldóra.
„Ég myndi helst vilja láta svæfa mig þegar ég fer á hárgreiðslustofur,“ segir Steinunn Ólína og bætir við að henni finnist það óbærilega leiðinlegt. „Mér finnst bara svo erfitt að sitja kyrr í stólnum og láta gera eitthvað við mig,“ segir hún.
Halldóra fer á kostum þegar hún lýsir því hversu mikið hún hatar svona sprey sem sett er í hársbotninn til að fela rótina og það breytist í henni röddin þegar hún getur ekki leynt andúð sinni á þessu. „Það er bara einhver partur á mér sem finnst þetta svo hallærislegt, að spreya svona,“ segir hún.
Steinunn Ólína segist ekki fara á hárgreiðslustofur nema í neyð.
„Ég fer bara þegar hárið á mér er orðið eins og hálmur,“ segir hún og bætir við að hárgreiðslufólk haldi hana ljúga þegar hún segist ekki lita á sér hárið.
„Mamma var 61 þegar hún lést og þá var hún ekki með eitt grátt hár á höfðinu,“ segir Steinunn Ólína og segist fá vorkunnaraugu hárgreiðslufólks sem heldur auðvitað að hún sé algjörlega í afneitun og ljúgi því að hún litu ekki á sér hárið.
„Það heldur bara að ég lifi í einhverjum blekkingarheim,“ segir Steinunn Ólína og hlær.
Halldóra segist margoft hafa verið spurð hvort hún vilji ekki íhuga að lita hárið og í þættinum segir hún frá því þegar kona nokkur fann sig knúna til að hlaupa þvert yfir götu til að segja við hana: „Litaðu á þér hárið! Ekki gera þér þetta! Ekki gera þér þetta! Hún var svona tuttugu árum eldri en ég og hún var bara að ráða mér heilt,“ segir Halldóra.