Samvera og ljótujólapeysuhefð fjölskyldunnar stendur upp úr á jólunum að mati Jóns Breka.
Tíska á hug hans allan núna og ætlar hann að klæðast litum, pallíettum og glimmeri yfir jólin.
Jón Breki Jónas er alinn upp í Danmörku að mestu og hefur danski einfaldleikinn haft mikil áhrif á hann. Hann hefur alltaf sótt í skapandi umhverfi og tísku og starfar nú hjá Galleri 17 þar sem hann hefur bæði áhrif og fær innblástur frá ólíku fólki og tískunni í kring.
„Eftir að ég flutti til Íslands hef ég orðið fyrir áhrifum frá litríku íslensku umhverfi. Fyrir mér snýst tíska ekki aðeins um föt heldur líka tjáningu, gleði og stundum smá tilraunastarf,“ segir Jón Breki.
En hvernigverðurjólatískan í ár?
„Hún er full af litum, pallíettum og skemmtilegum fötum. Ég er ekki mikið fyrir að vera í öllu svörtu yfir jólin heldur elska ég að bæta smá glimmeri og litum við. Það er svo gaman að blanda saman glitrandi flíkum við klassísku jólalitina eins og dökkgrænan, rauðan og silfurlitaðan.“
Jón Breki reynir að velja flíkur sem hann getur notað oft. „Þegar ég bæti einhverju nýju við í fataskápinn geri ég smá tilraunir með hvernig ég get stíliserað þær. Sérstaklega þegar árstíðabreytingarnar koma, þá finnst mér gaman að bæta ferskum áherslum við stílinn. Fyrir jólin er þetta sérstaklega skemmtilegt,“ segir hann.
Þegar kemur að jólafötunum kemur ekki margt til greina. „Við fjölskyldan höfum alltaf haft það fyrir hefð að vera í ljótum jólapeysum um jólin og þetta árið verður hún pottþétt sú ljótasta. Það er ekkert betra en að vera bara í góðri stemningu með fólkinu mínu.“
Hvað er það mikilvægasta um jólin?
„Þegar við fjölskyldan komum saman, borðum saman og spjöllum. Svo auðvitað þegar jólaseríurnar og ljósin byrja að skína og fylla heimilið af hlýju. Þá eru það bara alvöru jól.“
Hann játar að vera algjört jólabarn. „Það er eitthvað svo sérstakt við jólin, allir verða aðeins glaðari og það er fullt af kærleika í loftinu. Ég elska að gefa gjafir og sjá hvað þær gleðja aðra, það er svo gaman að upplifa þessa gleði með þeim sem maður elskar.“
Hvað langar þig að fá í jólagjöf?
„Ég er mikið fyrir gjafir sem snúast um að deila góðum stundum með öðrum. Hvort sem það er ferð, eitthvað nýtt sem við prófum saman eða bara einfaldlega að hafa gaman. Það er miklu skemmtilegra en að fá bara hluti.“
Jón Breki ætlar að halda upp á afmælið sitt rétt fyrir jólin. „Jólin í ár verða svolítið klassísk með fullt af jólahefðum, góðum mat og fjölskyldustundum. En þau verða smá öðruvísi því ég mun halda upp á afmælið mitt þannig að við fáum að blása upp blöðrur og fagna aðeins fyrr. Jólin verða því með meiri gleði og spennu.“