Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði kvennalandsliðsins í fótbolta og Bayern München, var kjörin Íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna á dögunum. Hún klæddist íslenskri hönnun þegar hún tók við verðlaununum.
Glódís klæddist bol og buxum frá Hildi Yeoman en merkið hennar hefur verið gífurlega vinsælt síðustu ár. Hildur Yeoman er þekkt fyrir falleg mynstur og klæðileg snið sem hafa fallið vel í kramið hjá konum bæði hér á landi en einnig víða um heim.
Bolurinn sem Glódís klæddist heitir The Off Shoulder Top in Silver Sparkle og kostar 34.900 kr. Buxurnar eru í sama mynstri og kosta 39.900 kr. Fötin eru úr sama efni, 78% pólýester og 22% teygju. Teygjan gerir það að verkum að flíkin verður mjög þægileg og fellur alveg að líkamanum.
Glódís var ekki sú eina sem valdi sér hönnun frá Hildi Yeoman þetta kvöld en Ásta Kristinsdóttir fimleikakona og Guðlaug Edda Hannesdóttir þríþrautarkona klæddust báðar toppum frá henni.
Ásta klæddist hvítri aðsniðinni skyrtu sem heitir The Victorian Top og kostar 34.900 kr. Hún er úr 100% bómull. Guðlaug Edda klæddist vínrauðum mynstruðum topp sem kostar einnig 34.900 kr.