Lógóið er dottið út

Meira af Bottega Veneta-töskunni, minna af Gucci-beltinu.
Meira af Bottega Veneta-töskunni, minna af Gucci-beltinu.

Þöglu fötin eða „quiet luxury“ er hugtak sem hefur fest sig í sessi í tískuheiminum undanfarna mánuði. Þótt tískan hafi það orð á sér af og til að vera hávær og æpandi þá er þetta andstæðan. Þetta er undiralda nýs tískufyrirbæris sem læðist með veggjum í stað þess að vekja að sér athygli. Þegar tíðarandinn áður voru auglýsingar vinsælustu tískuhúsa heims á beltissylgjunni þá er þetta þveröfugt og kærkomið.

Fyrir hvern er tíska? Fyrir þann sem henni klæðist? Tískan er tjáningarform en getur einnig táknað hvar þú stendur í samfélaginu. Ef fatavalið er persónulegt, sem það er í raun alltaf, af hverju eru þá margir svona uppteknir af því að bera vörumerkið á bringunni eða á brjóstvasanum?

Út frá tískuhúsinu séð er svarið augljóst. Þetta er markaðssetning og viðskiptavinurinn gangandi auglýsing. En svo eru alltaf einhverjir sem vilja segja öllum heiminum frá því hverju hann hefur efni á, eða hvað hann kýs að eyða peningum í.

Fyrir aðra er merki tískuhússins fráhrindandi en sækja þó í sniðin og gæðamikil efni. Louis Vuitton framleiðir líka peysur án merkisins að framan og til eru óramargar tegundir af Gucci-beltum án tvöfalda G-sins á sylgjunni.

Gucci-belti sem fjölmargir fjárfestu í á árunum 2015-2018.
Gucci-belti sem fjölmargir fjárfestu í á árunum 2015-2018.
Þessar peysur eru báðar frá franska hátískuhúsinu Louis Vuitton. Hvora …
Þessar peysur eru báðar frá franska hátískuhúsinu Louis Vuitton. Hvora myndir þú velja?

Gucci og Burberry þekkt dæmi

Gucci-beltið er auðvitað ekki fyrsta og síðasta dæmið heldur er hægt að nefna köflótta Burberry-mynstrið. Það var fyrst notað sem fóður inn í regnkápur breska fataframleiðandans í kringum árið 1920. Það hefur síðan þá verið sjónrænn mælikvarði á síbreytilegum smekk fólks. Mynstrið varð fyrst mjög áberandi á sjöunda áratugnum þegar franskur sölumaður vildi heilla hinn breska Sir Patrick Reilly, þá breskur sendiherra, sem átti leið í verslunina og ákvað að snúa regnkápu öfugt sem gluggaútstillingu. Þetta vakti mikla athygli og varð tískuhúsið „knúið“ til að hefja framleiðslu á köflóttum rykfrökkum. 

Í upphafi tíunda áratugarins var köflótta Burberry-mynstrið í raun vinsælt í tveimur stéttum samfélagsins á sama tíma. Bretadrottning og stærstu skotmörk slúðurmiðlanna klæddust mynstrinu á sama tíma. Fljótt fór mynstrið að vera áberandi út um allt og endalaust til af eftirlíkingum. Þá datt það úr tísku, ef svo má að orði komast, en hefur skotið upp kollinum af og til síðustu ár.

Bómullarskyrta frá Burberry í klassíska mynstrinu þeirra.
Bómullarskyrta frá Burberry í klassíska mynstrinu þeirra.

Gæði fram yfir magn

Þöglu fötin segja í raun ekki neitt en gæðin tala. Fötin eru bara frekar venjuleg en sniðið er upp á tíu. Aðeins þeir sem hafa virkilegan áhuga og þekkingu á gæðum og klæðnaði taka eftir kasmír-peysu úr fjarlægð og þegar dragtarjakki er vel sniðinn. Tískuhúsið Bottega Veneta hefur átt eina vinsælustu tösku síðustu ára. Sérkenni töskunnar er ekki lógóið, því taskan er aðeins merkt innan í, heldur ofna leðrið sem er ítalskt handverk. Aðeins þeir sem vita, vita.

Þessi tískubylgja fór af alvöru af stað með þáttunum Succession. Þættirnir fjalla um valdamikla fjölskyldu sem stýrir í sameiningu alþjóðlegu fjölmiðlaveldi en systkinin keppast um að vera handhafar framtíðarinnar og fjölskyldufaðirinn ræður. Fjölskyldan á mikla peninga og er tískan í þáttunum eftir því. En ekki eitt einasta lógó sést á fötunum. Shioban Roy, einn karakter þáttanna, klæddist vel sniðnum drögtum, gæðamiklum ullarpeysum og kasmírkápum frá merkjum eins og Loro Piana, Altuzarra, Brioni, Canali og Maison Margiela. Michelle Matland, búningahönnuður þáttanna, hlaut tilnefningu til Emmy-verðlauna fyrir Succession en hún hrinti af stað risabylgju í leiðinni. 

Hraði og offramleiðsla er eitt stærsta vandamálið sem fataiðnaðurinn glímir við í dag. Gæðameiri flíkur endast lengur og flestir eiga það til að passa betur upp á vönduðu fötin en önnur. Þetta snýst um gæði fram yfir magn og það eru skilaboðin sem umhverfissinnar hafa reynt að koma að undanfarin ár.

Aðallega snýst þetta samt um að við fjárfestum í þeim fötum sem okkur finnst flott, sem eru í okkar stíl og við sjáum fram á að nota ár eftir ár. Vöndum valið. If you know, you know.

Wallace-taskan frá Bottega Veneta er handgerð á Ítalíu.
Wallace-taskan frá Bottega Veneta er handgerð á Ítalíu.
Kasmír- og silkipeysa frá ítalska merkinu Loro Piana.
Kasmír- og silkipeysa frá ítalska merkinu Loro Piana.
Jakki frá Loewe úr bómull, lambaskinni og leðri.
Jakki frá Loewe úr bómull, lambaskinni og leðri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda