Náttúrulegir litir, mikið glimmer, þykkur augnblýantur eða ljósbleikur augnskuggi? Þegar stórt er spurt. Þorrablótin eru fram undan og í mörg horn að líta. Þegar fötin eru komin er kjörið að fara að huga að förðuninni.
Náttúruleg förðun er algengust og henni má ná fram með annaðhvort brúnum eða bleikum litatónum eins og hér fyrir neðan.
Zendaya er með hið fullkomna „sólkyssta“ útlit. Brúnir augnskuggar, sólarpúður og varalitur í svipuðum litatón er alltaf klassískt og passar við mismunandi liti af fötum. Þetta er útlit sem flestar ættu að geta leikið eftir. Ef þú ert að leitast eftir að gera augun dramatískari þá má setja aðeins dekkri augnskugga. Passaðu að hafa augabrúnirnar náttúrulegar.
Leikkonan Anya Taylor-Joy var förðuð á náttúrulegan hátt með ljósbleikum kinnalit og augnskugga á Golden Globe-verðlaunahátíðinni. Mikil áhersla var lögð á fallega húðina hennar og varirnar hennar voru hafðar í náttúrulegum bleikum lit.