Sjötíu manns hefur verið sagt upp hjá franska hátísku- og snyrtivöruhúsinu Chanel í Bandaríkjunum vegna erfiðs rekstrarumhverfis. Fyrirtækið hefur tekið nokkur skref í áttina til að minnka útgjöld og takast á við áskoranir í rekstrinum.
Chanel hefur ávallt verið talið eitt stærsta lúxusmerki í heimi þar sem það sinnir stórríkum viðskiptavinum sem geta eytt meira en einni milljón króna í leðurtösku. Eftir heimsfaraldurinn hefur þó verið minni eftirspurn í slíka lúxusvöru.
Norður- og Suður-Ameríka er þó enn einn stærsti markaður fyrirtækisins og átti 20% hlut af allri sölu á árinu 2023. Evrópa átti 28% hlut og Asía 52%.
Matthieu Blazy var ráðinn listrænn stjórnandi franska tískuhússins Chanel í desember á síðasta ári. Hann mun bera ábyrgð á öllum Haute Couture-línum tískuhússins sem innihalda fatnað, fylgihluti og allt það helsta. Blazy mun hafa aðsetur í París og mun heyra undir Bruno Pavlovsky æðsta yfirmann Chanel. Hann hefur störf í apríl 2025.