Í hverju á ég að vera? Þetta er spurning sem margar spyrja sig að á hverjum morgni í kringum sjö þrjátíu leytið. En tíminn er naumur og oft eru lítil börn sem þarf að klæða, gefa að borða og koma í skóla á skikkanlegum tíma. Eða það að snooze-takkinn var ofnotaður. Þá er betra að hafa svarið við þessari spurningu á reiðum höndum.
Fæstar eru það skipulagðar að geta ákveðið þetta kvöldið áður þó að það sé auðvitað alltaf planið. En morguninn eftir er búið að skipta um skoðun, það er kaldara en gert var ráð fyrir, það er blettur í skyrtunni og hringavitleysan hafin.
Svo er misjafnt hvort það séu reglur um klæðaburð á vinnustaðnum. Ef gallabuxur eru litnar hornauga þá er ráð að fjárfesta í gæðamikilli og vel sniðinni dragt. Ef þú finnur hina fullkomnu þá er ekkert að því að eiga hana í tveimur mismunandi litum.
Það einfaldar mörgum að eiga einhvers konar „einkennisbúning“ í vinnuna. Þá gengur morguninn hugsunarlaust fyrir sig en fólk sem er með virkara hægra heilahvel geta átt erfiðara með það. Það er oft talið listrænna, tjá sig með fatnaði eftir skapi og eiga það til að skipta tólf sinnum um föt áður en lokaútkoman er ákveðin.
Svo eru það skórnir. Það getur verið vandasamt að finna skó sem passa við flestar buxur og pils. Ökklastígvél eru langalgengasti skókosturinn hér á landi, veðursins vegna, það er hins vegar oft þannig að flott ökklastígvél ná ekki nógu langt upp ökklann en þannig eru þau mun klæðilegri. Það má líka bregða á það ráð að skipta úr vetrarbomsunum þegar í vinnuna er komið.
Hér fyrir neðan eru nokkrar hugmyndir af fötum fyrir vinnuna.