Diljá Ólafsdóttir er annar eiganda fataverslunarinnar Fou22 og er því í kringum föt nánast alla daga. Hún býst við að vor- og sumartískan verði kvenleg og rómantísk.
„Þetta er stundum kallað French-cute. Við eigum eftir að sjá ferska liti og létt efni eins og silki, gegnsætt efni og blúndu. Buxur verða með fallegum prentuðu mynstri og það verður mikið um hálsklúta, vesti og falleg smáatriði,“ segir Diljá um sumartískuna.
„Við þetta blandast tímalausar, klassískar og fágaðar flíkur sem saman mynda skemmtilega blöndu af kvenlegum og karlmannslegum línum.“
En hvaða litir verða áberandi?
„Ég held að náttúrulegir litir verði áfram vinsælir og komi til með að verða hlýlegri með hækkandi sól. Í staðinn fyrir drapplitaða tóna erum við að fara meira yfir í ljósbrúna. Ljósir pastellitir einkenna vorið og sumarið og við eigum eftir að sjá ljósgulan, bláan og bleikan einkenna fatnað og fylgihluti. Svo er bara að blanda öllu saman þannig að úr verða skrautlegar samsetningar lita og mynsturs sem kemur á óvart.“
Fjárfestir þú í einhverju á síðasta ári sem verður áberandi í ár?
„Mér dettur fyrst í hug Cala Jade Misu-taskan sem sést víða í Skandinavíu en á enn eftir að koma sterk inn hér á landi,“ svarar hún. „Svo er það ullarvestið mitt frá Nue Notes. Það er löngu uppselt en við eigum eftir að sjá meira og meira af sætum peysum og vestum í frönskum stíl.
Ert þú búin að ákveða að fá þér eitthvað fyrir vorið?
„Mig dreymir um ljósbrúna tvíhneppta dragt frá Birgitte Herskind en hún er frábær hönnuður og klæðskeri. Allt sem kemur frá henni er svo vel sniðið.“
Hvað með fylgihluti eins og skó, ertu með einhverja í huga sem þig dreymir um?
„Ég sé fyrir mér að klæðast fallegum, fléttuðum ballerínum frá Angulus.“