Grammy-verðlaunahátíðin fór fram í 67. sinn í Los Angeles í Bandaríkjunum í gærkvöldi. Það er ávallt mikil eftirvænting eftir því hverju stjörnurnar klæðast og flestir tískumiðlar heims fylgjast vel með.
Ástralska fyrirsætan Bianca Censori, kærasta rapparans og listamannsins Kanye West, virðist þó hafa gleymt fötunum heima. Parið gekk rauða dregilinn hlið við hlið og fyrst um sinn var Censori klædd í síðan svartan pels. Þegar ljósmyndarar tóku að mynda þau lét hún pelsinn falla til jarðar og undir honum var hún aðeins klædd í gegnsætt, þunnt mesh-efni sem skildi lítið eftir fyrir ímyndunaraflið. Censori stóð eftir nánast kviknakin. Atvikið hefur vakið mikla athygli á samfélags- og fréttamiðlum víða um heim.
Censori hefur verið þekkt fyrir að ögra með fatastílnum og klæðist oft mjög efnislitlum fatnaði. West var klæddur í svartan stuttermabol, svartar buxur, með sólgleraugu og í svörtum skóm.