Kristrún Frostadóttir forsetisráðherra klæddist praktískum og klæðilegum kjól við þingsetninguna í dag. Kjóllinn er frá danska fatamerkinu Samsøe Samsøe sem hefur verið mjög vinsælt hér á landi.
Þingsetningin hófst með þingsetningarathöfn Siðmenntar en hefðbundin þingsetningarathöfn hófst 13.30 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Þaðan héldu þingmenn yfir í Alþingishúsið.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hún klæðist kjólnum heldur notaði hún hann á blaðamannafundi nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins þar sem stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar var kynntur í desember á síðasta ári.
Kjóllinn er augljóslega í uppáhaldi enda þægileg flík sem auðvelt er að grípa í. Kjóllinn nær að ökkla og er langerma í ólífugrænum lit. Yfir kjólinn klæddist hún ljósri og síðri kápu.
Kjóllinn er úr 82% polyamide, sem er einnig þekkt sem nælon, á móti 18% af teygju. Þetta gerir það að verkum að kjóllinn verður einstaklega þægilegur. Kjóllinn fékkst í GK Reykjavík en er uppseldur.
Þetta er þó klassískt snið frá merkinu og áætla má að svipaður kjóll komi aftur í verslanir en líklegast í öðrum litum.
Á vefsíðu Samsøe Samsøe kostar kjóllinn 24 þúsund krónur á fullu verði. Hann er hins vegar á útsölu núna og fæst á rúmlega 14 þúsund krónur.